Bíll frá fyrirtækinu Aðstoð og Öryggi ehf., best þekkt sem Árekstur.is, lagði í tvö stæði fyrir hreyfihamlaðra í morgun. Mynd af atvikinu er nú í deilingu á samfélagsmiðlum. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir þetta óheppilegt og komi ekki fyrir aftur. Sá sem tók myndina segir það hafi verið nóg af stæðum laus en bílstjórinn hafi samt lagt eins og hann gerði á myndinni.
„Bílstjórinn var ekki til í að færa bílinn. Kallaði mig helvítis fífl. Forstjóri fyrirtækisins hringdi svo í mig og tjáði mér að þetta væri ekki lögbrot. Greinilegt að ég fór í pirrurnar á honum líka fyrir að skipta mér af þessu! Fyrirmynd Árekstur.is!“
Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri Aðstoð og Öryggi ehf., segir ummæli mannsins þvælu. Atvikið sé til á upptöku og sjáist vel á henni að ásakanirnar eru innistæðulausar. Hann segir í samtali við DV að það hafi verið einstaklingurinn sem tók myndina sem hafi verið dónaskap. „Það er enginn annar en hann sem kallar einhvern hálfvita þarna. Þannig að þetta er alrangt.“
Kristján segir að bílstjórinn hafi stöðvað þarna í rúmar 6 mínútur vegna áreksturs og skýrslutöku. „Þá kom þessi maður og reif upp hurðina. Starfsmaðurinn hélt ró sinni allan tímann, líka þegar maðurinn kastaði sér á húddið á bílnum til að taka mynd inn í bílinn.“
Kristján hringdi síðar í manninn en hann hafnar því alfarið að hafa verið með dónaskap. „Það var ekki séns að ræða við þennan mann.“
Hann viðurkennir fúslega að það sé ekki við hæfi að leggja í stæði ætluðum hreyfihömluðum: „Það á bara enginn að leggja í svona stæði nema hann eigi tilkall til þess. Það er bara þannig. Ég var sjálfur í hjólastól tímabundið þannig ég veit hvað þessi stæði skipta miklu máli. Þetta er bara óheppilegt og þetta mun ekki koma fyrir aftur.“