Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Garðaprestakalli, og Barnaheill skora á landsmenn að segja skilið við snjallsímann í einn dag. Næsti sunnudagur er símalaus sunnudagur Barnaheilla þar sem samtökin skora á landsmenn að segja skilið við símann í einn dag og vakna til umhugsunar um áhrif símanotkunar á samskipti innan fjölskyldna.
Jóna Hrönn segir í pistli í Fréttablaðinu í dag að á sunnudaginn verði látinna minnst í kirkjum landsins í tilefni af allra heilagra messu. Skorar hún á landsmenn að leggja símann frá sér í þennan eina dag:
„Á símalausa sunnudeginum skulum við gefa hvert öðru og einkum börnunum þá gjöf að láta enga snjallsímanotkun trufla góðan leik eða innihaldsríka nærveru. Ég skora á okkur að leggja símanum þennan dag og iðka samveru með ástvinum, taka engar myndir en njóta þess að enn er tími til að horfast í augu, tala saman og faðmast. Minning látinna og símalausi sunnudagurinn fara vel saman, því við heiðrum minningu hinna látnu best með því að nota tímann með þeim sem eftir lifa og vera þakklát að enn skuli vera hægt að slá á þráðinn.“