fbpx
Mánudagur 01.september 2025
Fréttir

Auglýsa veitingahúsnæði til sölu með tækjum sem ekki hafa verið greidd

Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Föstudaginn 27. júlí 2018 09:00

Jakob Helgi Bjarnason. Í september 2017 var hann ráðinn framkvæmdastjóri Sambands ungra Sjálfstæðismanna. Hann er að auki einn af eigendum Modulus ehf. sem er byggingarfyrirtæki sem sérhæfir sig í timburbyggingum. Hann starfaði þar samhliða starfinu hjá SUS og fjárfestingum í veitingageiranum

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hef aldrei á ævinni kynnst öðrum eins lygara. Það er ekki hægt að treysta einu orði sem hann segir,“ segir fyrrverandi starfsmaður veitingastaðarins LOF í samtali við DV, en hann segist eiga inni laun upp á eina milljón hjá fyrirtækinu. Umræddur meintur lygari er Jakob Helgi Bjarnason, framvæmdastjóri Sambands ungra Sjálfstæðismanna og prókúruhafi fyrirtækisins. LOF veitingahús var opnað með pomp og prakt um miðjan apríl en var lokað rúmum tveimur mánuðum síðar. Það er líklega einhvers konar met á hinum sviptingasama íslenska veitingamarkaði.

DV fjallaði um lokunina fyrir tveimur vikum og þá staðreynd að fjölmargir starfsmenn fyrirtækisins sem og birgjar þess sætu eftir með sárt ennið. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað hafa birgjar og starfsmenn ekki enn fengið greitt en húsnæði veitingastaðarins hefur nú verið auglýst til sölu eða leigu. Ýmis tæki og tól, sem aldrei var greitt fyrir, eru sögð fylgja með eigninni.

Lofaði að gera upp við starfsmenn og birgja

Í áðurnefndri frétt DV kom fram að Jakob Helgi ætti 25% hlut í LOF ásamt tengdaföður sínum, Birgi Erni Arnarssyni. Ítalski veitingamaðurinn Enzo Rinaldi átti 50% hlut í staðnum og sá um daglegan rekstur hans ásamt samstarfsmanni sínum, Jose Garcia. Jakob Helgi sá um fjármál staðarins en hann og Birgir áttu fasteignina að Mýrargötu sem hýsti LOF.

Í aðdraganda fréttar DV gerði blaðamaður ítrekaðar tilraunir til þess að ná sambandi við Jakob Helga til þess að hans hlið kæmi fram. Jakob Helgi brást ekki við á neinn hátt fyrir utan að senda örstuttan tölvupóst á blaðamann um að hann hefði ekki komið nálægt rekstri LOF heldur væri aðeins hluthafi út af eignarhaldi sínu á fasteigninni. Í kjölfar fréttar DV brást þó Jakob Helgi strax við með eftirfarandi yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni.

Yfirlýsing Jakobs Helga:

Fyrir hartnær tveimur vikum lauk rekstri LOF eftir tiltölulega stuttan líftíma. Ástæðan fyrir því var djúpt vantraust sem ríkti milli rekstraraðila LOF, Enzo Rinaldi, og hluthafa í veitingastaðnum. Ég vil árétta að félagið LOF veitingastaður er ekki gjaldþrota og mun ekki verða gjaldþrota. Allar skuldir verða gerðar upp við birgja sem og starfsmenn enda hefur aldrei neitt annað staðið til. Raunar hafa engar kröfur um ógreidd laun borist veitingastaðnum enn sem komið er. Frétt DV greip því í tómt þegar hún fullyrti annað.

Ég hef ekki séð um rekstur LOF heldur einungis komið að honum sem hluthafi. Þá á ég með fleirum húsnæðið sem er leigt undir staðinn. Það sem er á dagskrá núna er að gera upp skuldir félagsins gagnvart birgjum og finna nýjan leigutaka að húsnæðinu. Í því samhengi verður skoðað nánar hvort misferli hafi átt sér stað í rekstri LOF og það gert upp gagnvart hlutaðeigandi aðilum sé ástæða til.“

Ólöglegt að ráða starfsfólk sem verktaka

DV hefur undanfarna daga heyrt í nokkrum starfsmönnum LOF. Fæstir höfðu fengið nokkur laun greidd en aðrir höfðu fengið lítinn hluta greiddan. Að sögn starfsmanna heldur Jakob Helgi því fram að þeir hafi allir verið verktakar hjá fyrirtækinu og eigi því ekki rétt á að fá uppsagnarfrest greiddan. Rétt er að geta þess að samkvæmt Eflingu er ólöglegt að ráða starfsmenn sem verktaka ef viðkomandi er með fasta starfsstöð hjá fyrirtækinu og ber ekki beinan kostnað af starfseminni. Þá hefur Jakob Helgi ekki óskað eftir neinum verktakareikningum heldur hefur freistað þess að ljúka málunum með stakri greiðslu sem er aðeins brot af kröfum starfsmannanna.

Selja fasteignina með tækjum sem ekki var greitt fyrir

Nýjustu vendingarnar í málinu eru þær að húsnæði sem áður hýsti veitingastaðinn LOF við Mýrargötu hefur verið auglýst til sölu eða leigu hjá LIND fasteignasölu. Óskað er eftir tilboði í eignina og er sérstaklega tekið fram að staðurinn sé með allan búnað sem þurfi til rekstrar veitingahúss og sá búnaður fylgi með eigninni. Samkvæmt öruggum heimildum DV hefur birgirinn sem útvegaði tækin ekki fengið neitt greitt inn á það sem honum er skuldað.

Eins og áður reyndi DV ítrekað að ná sambandi við Jakob Helga við vinnslu fréttarinnar. Hann skellti þrisvar á blaðamann án orða og hefur ekki svarað öðrum skilaboðum.

Að endingu má geta þess að í fyrri frétt DV um málið kom fram að það hefði hleypt illu blóði í launasvelt starfsfólk LOF að sjá Jakob Helga keyra um á rándýrum Porsche-sportbíl. Í fréttinni og á forsíðu blaðsins var fullyrt að bíllinn, sem er af gerðinni Porsche Panamera Turbo S E-hybrid, kostaði 15 milljónir króna. Hið rétta er að bíllinn kostar 25 milljónir króna og biðst blaðamaður forláts á mistökunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Jesse lést tveimur dögum fyrir 10 ára afmæli sitt – „Allur stuðningur, stór sem smár, er fjölskyldunni ómetanlegur”

Jesse lést tveimur dögum fyrir 10 ára afmæli sitt – „Allur stuðningur, stór sem smár, er fjölskyldunni ómetanlegur”
Fréttir
Í gær

Segir umræðu um innviðaskuld ferðamanna á villigötum – „Óhætt að segja að sínum augum lítur hver á silfrið”

Segir umræðu um innviðaskuld ferðamanna á villigötum – „Óhætt að segja að sínum augum lítur hver á silfrið”
Fréttir
Í gær

Stefán vill breyta einum elsta þætti RÚV

Stefán vill breyta einum elsta þætti RÚV
Fréttir
Í gær

Tyrkneskur bæjarstjóri tekinn á ofsahraða á Suðurlandsvegi – Ákærður en yfirgaf landið án þess að ljúka málinu

Tyrkneskur bæjarstjóri tekinn á ofsahraða á Suðurlandsvegi – Ákærður en yfirgaf landið án þess að ljúka málinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Umdeild áform, um endurbyggingu verkstæðis sem brann fyrir áratug, í uppnámi

Umdeild áform, um endurbyggingu verkstæðis sem brann fyrir áratug, í uppnámi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ósáttur við að Ellen hafi ekki fengið að vera með í Klassíkinni okkar – „Það er ekki eins og hún sé hætt að syngja“

Ósáttur við að Ellen hafi ekki fengið að vera með í Klassíkinni okkar – „Það er ekki eins og hún sé hætt að syngja“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Umdeildur lækningapredikari á leið til landsins – „Getur þú beðið guð að gera mig hávaxnari?“

Umdeildur lækningapredikari á leið til landsins – „Getur þú beðið guð að gera mig hávaxnari?“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Elín sár út í borgina: Fékk enga þakkarkveðju eftir 40 ára starf

Elín sár út í borgina: Fékk enga þakkarkveðju eftir 40 ára starf