Tónlistarkonan Ellen Kristjánsdóttir hefur lýst því yfir að hún muni ekki syngja í Hörpu fyrr en leiðrétting hefur farið fram á launamálum starfsmanna tónlistarhússins.
Fjöldi þjónustufulltrúa sagði upp störfum í gærkvöldi og tengjast uppsagnirnar launahækkun sem Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, fékk á síðasta ári. Hækkuðu laun hennar um tuttugu prósent en um áramót tóku þjónustufulltrúar tónlistarhússins á sig talsverða launalækkun.
Þjónustufulltrúar Hörpu funduðu með fjármálastjóra og forstjóra Hörpu í gærkvöldi og að fundi loknum sagði meirihluti þjónustufulltrúa upp störfum.
Boðað var til fundarins eftir fréttir um þjónustufulltrúa í Hörpu sem ofbauð svo launahækkun Svanhildar að hann sagði upp.
„Stuttu eftir að laun forstjóra voru hækkuð af stjórn Hörpu, voru laun þjónustufulltrúa lækkuð. Á fundinum staðfesti Svanhildur að þjónustufulltrúar Hörpu væru einu starfsmennirnir sem gert var að taka á sig beina launalækkun. Hópur starfsmanna sem þá þegar var launalægstur allra starfsmanna Hörpu,“ sagði í yfirlýsingu frá þjónustufulltrúunum.
„Eftir fundinn voru margir þjónustufulltrúar mjög ósáttir við skýringar forstjórans, þá sérstaklega um það af hverju engir aðrir starfsmenn hússins hafi þurft að taka á sig launalækkun. Ákváðu því allir þjónustufulltrúar sem sátu fundinn að segja þegar upp störfum, 15 talsins og nokkrir aðrir í kjölfarið. Meðal þeirra sem sögðu upp voru t.d. nokkrir búnir að vinna í Hörpu frá opnun og flestir með langan starfsaldur, meðal annars allir vaktstjórar,“ sagði enn fremur í yfirlýsingunni.
Fjölmargir hafa sýnt þjónustufulltrúunum stuðning, meðal þeirra má nefna fyrrnefnda Ellen Kristjánsdóttur sem sagði á Facebook-síðu sinni:
„Samstaðan skiptir öllu þegar svona gerist og þetta er að gerast út um allt. Þjónustufulltrúar sem sögðu upp störfum í Hörpu, ég stend með ykkur og lýsi því hér með yfir að ég mun ekki syngja i Hörpu fyrr en leiðrétting hefur farið fram.“