fbpx
Miðvikudagur 16.júlí 2025
Fréttir

Hjalti var viðriðinn mjólkurhneyksli árið 1986

„Við vorum bara villingar og hegðuðum okkur eins og bjánar“

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 22. september 2017 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að fullyrða að Hjalti Sigurjón Hauksson hafi verið einn umtalaðasti maður landsins undanfarna daga. Meint leyndarhyggja ráðherra Sjálfstæðisflokkinn með þá staðreynd að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, hafi verið einn af meðmælendum Hjalta Sigurjóns vegna umsóknar um uppreist æru varð þess valdandi að ríkisstjórnin féll og óvæntar kosningar til Alþingis eru yfirvofandi.

Fáir vita hins vegar að Hjalti Sigurjón tengdist inn í hneykslismál hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík árið 1986 sem vakti mikla athygli fjölmiðla á sínum tíma. Um var að ræða skipulagðan þjófnað starfsmanna á mjólk sem var síðan seld á hálfvirði til vel valinna kaupmanna á svörtum markaði. „Við vorum bara villingar og hegðuðum okkur eins og bjánar,“ segir Hjalti Sigurjón í samtali við DV og fullyrðir að hann hafi verið peð í svindlinu.

Rekinn og handtekinn

Þann 7. febrúar 1986 greindi Morgunblaðið frá því að bílstjóri hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík hefði verið handtekinn, að beiðni forráðamanna fyrirtækisins, grunaður um að hafa stolið mjólk og selt hana á hrakvirði til verslana. Þessi ungi maður var Hjalti Sigurjón Hauksson en þegar málið kom upp hafði hann einungis starfað hjá fyrirtækinu í sex mánuði. Nokkru fyrr hafði Hjalta verið sagt upp störfum vegna málsins. Hann var síðan handtekinn og játaði aðild sína að verknaðinum. Kom fram í fyrirsögn Morgunblaðsins að Hjalti Sigurjón hefði selt mjólk til um tuttugu verslana.

Málið komst upp fyrir árvekni annarra bílstjóra sem áttuðu sig á því að þegar var búið að keyra með mjólkurvörur í verslanir sem þeir höfðu ekki heimsótt. Þar með fór boltinn að rúlla og þjófnaðurinn kom í ljós. Ekkert í bókhaldi fyrirtækisins benti til þess að misferli sem þetta hefði verið í gangi.

Í samtali við blaðamann DV segir Hjalti: „Þetta er orðið svo gamalt mál. Það voru örugglega um áttatíu manns sem tengdust þessu máli með einum eða öðrum hætti. Ég vann þarna eitt sumar og var kennt þetta þegar ég mætti. Það voru stjórnendur þarna sem höfðu byggt húsin sín með því að stunda þetta,“ segir Hjalti Sigurjón í samtali við blaðamann. Hjalta Sigurjóni var umsvifalaust vikið frá störfum en tíu manns, sem voru látnir sæta ábyrgð, fengu boð um að segja upp að sjálfir. Að sögn Hjalta sluppu höfuðpaurarnir hins vegar og umfang málsins var þaggað niður af Mjólkursamsölunni.

Lögðu niður störf í mótmælaskyni

Starfsmenn Mjólkursamsölunnar voru afar óhressir með hvernig tekið var á málinu. Stjórnendur fyrirtækisins höfðu einir upplýsingar um hvaða verslanir höfðu gerst sekar um að taka þátt í svikamyllunni sem og hvaða starfsmenn áttu að hafa skipulagt hana. Nöfn þessara verslana voru ekki gerð opinber. Svo fór að stór hluti starfsmanna lagði niður störf og neitaði að afgreiða mjólk frá afgreiðslustöðinni til þeirra verslana sem þeir vissu um að hefðu tekið þátt í svindlinu. Tilgangurinn var að þannig gæti almenningur séð hvar mjólk var ekki til sölu og þar með lagt saman tvo og tvo.

Talsvert moldviðri þyrlaðist upp í samfélaginu vegna þessa og mikið mæddi á Ólafi Ólafssyni, yfirtrúnaðarmanni starfsmanna hjá Mjólkursamsölunni. „Ég hef verið stanslaust í símanum frá því að þessi deila kom upp. Kaupmenn, sem eru á listanum okkar, hafa hótað mér óskaplegum hegningum, eiginlega öllu nema lífláti. Þeir segjast geta gert mig eignalausan,“ sagði Ólafur í viðtali við DV meðan á atganginum stóð.

„Gömlu jaxlarnir eru ekki í þessu“

Starfsmennirnir voru með tíu verslanir á lista en vildu fá uppgefið hverjar hinar tíu verslanirnar voru. Ólafur kvað starfsmenn hafa samþykkt að hefja aftur útkeyrslu á vörum gegn loforði um að sjá heildarlistann en það hafi síðan verið svikið. „Þessi deila stendur einfaldlega um það hvort við starfsmennirnir eigum að hafa aðgang að sömu gögnum í þessu máli og forstjóri Mjólkursamsölunnar. Forstjórinn veit allt um þetta og rekur menn í samræmi við það. Við vitum hins vegar lítið hverju fram fer. Þó erum við vissir í okkar sök varðandi þær tíu verslanir sem við höfum sett í mjólkurbann,“ sagði Ólafur í sama viðtali.

Þá kemur fram í umfjöllun DV á þessum tíma að samkvæmt heimildum blaðsins hafi verið hylmt yfir með stórverslunum sem tóku þátt í svindlinu. „Það hefur verið kippt í spottana vegna þess að stórhagsmunir eru
í húfi,“ sagði Ólafur og benti einnig á að eingöngu ungum mönnum sem hefðu starfað skamma hríð við mjólkurkeyrslu hefði verið sagt upp störfum. „Gömlu jaxlarnir eru ekki í þessu.“

Sátt náðist loks í deilum starfsmanna og yfirstjórnar og starfsemi Mjólkursamsölunnar féll í eðlilegt horf. Málið fjaraði síðan út og enginn þurfti að svara fyrir gjörðir sínar frammi fyrir dómstólum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Maðurinn sem lýst var eftir er fundinn

Maðurinn sem lýst var eftir er fundinn
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Húðlæknir vill banna ljósabekki á Íslandi – „Algjörlega fáránlegt að það sé ekki búið að banna þá“

Húðlæknir vill banna ljósabekki á Íslandi – „Algjörlega fáránlegt að það sé ekki búið að banna þá“
Fréttir
Í gær

Kvartað undan örtröð á tjaldsvæðinu Hömrum – „Þetta er smá eins og villta vestrið hérna“

Kvartað undan örtröð á tjaldsvæðinu Hömrum – „Þetta er smá eins og villta vestrið hérna“
Fréttir
Í gær

Dómurinn yfir Ymi Art birtur: „Gakktu í bæinn, hún er dauð“

Dómurinn yfir Ymi Art birtur: „Gakktu í bæinn, hún er dauð“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Valur vill gera 500 gjaldskyld bílastæði á fyrirhuguðu æfingasvæði

Valur vill gera 500 gjaldskyld bílastæði á fyrirhuguðu æfingasvæði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Foreldrar hennar voru myrtir – Eftir ræðuna í jarðarför þeirra varð hún efst á lista yfir grunaða

Foreldrar hennar voru myrtir – Eftir ræðuna í jarðarför þeirra varð hún efst á lista yfir grunaða