Beðið er eftir niðurstöðu krufningar
Maðurinn sem lést í slysinu sem átti sér stað í svefnskála við fiskverkunarfyrirtækið Háteig á Reykjanesi aðfaranótt 3. febrúar síðastliðinn hét Adam Osowski. Adam var búsettur í Reykjanesbæ og hafði verið starfsmaður Háteigs í 11 ár.
Hann var 43 ára, fæddur árið 1974 í Póllandi. Adam lætur eftir sig fjölskyldu í heimlandi sínu.
Hinn maðurinn sem fannst meðvitundarlaus í svefnskálanum er á batavegi og er kominn aftur til starfa hjá Háteigi.
Nóttina sem slysið varð dvöldu mennirnir í svefnskála sem stendur í nágrenni við verksmiðju Háteigs. Þegar starfsmaður fyrirtækisins kom að mönnunum, að morgni 3. febrúar, var Adam látinn en hinn var fluttur á sjúkrahús.
Adam var vaktmaður hjá Háteigi og hafði umsjón með fyrirtækinu utan hefðbundins opnunartíma.
Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir að lögreglan geti að svo stöddu ekki tjáð sig með hvaða hætti slysið varð. Svo virðist sem einhverskonar mengunarslys hafi orðið á svæðinu.
„Við erum ekki búin að fá niðurstöður úr krufningu því er ekki hægt að segja til um dánarorsök mannsins.“
Þá segir Jón Halldór að rannsókn málsins miði vel. „Öll hluthafandi embætti og fyrirtæki vinna saman að því að upplýsa þetta skelfilega slys. Það eru lögreglan, vinnu- og heilbrigðiseftirlitið, HS orka og Háteigur. Það er gott samstarf á milli allra aðila.“