Framkvæmdastjóri Bónus vísar gagnrýni á bug.
Tveir fyrrverandi verslunarstjórar Bónus fullyrða á Facebook að Bónus hafi svindlað á öllum verðkönnunum meðan þeir störfuðu hjá versluninni. Guðmundur Ás Birgisson, fyrrverandi verslunarstjóri hjá Bónus í Holtagörðum, hóf umræðu um þetta í gær í Facebook-hópnum Keypt í Costco.
Þar skrifar Guðmundur: „Ef þú heldur að Bónus sé ódýrara en Costco ertu Rasshaus! Eg var verslunarstjóri i Bónus á árunum 1996 til 2001. Ég (við) svindluðum á öllum verðkönnunum sem áttu sér stað hverju sinni! Ekki trúa öllu sem blöðin skrifa! Hagar eiga mestmegnis af auglýsingum í öllum fréttamiðlum á Íslandi“
Einn spyr Guðmund hvort hann skammaðist sín ekki fyrir að hafa gert þetta og hann svarar: „Auðvitað gerðum við það! Þurrkuðum út kaupmanninn á horninu og marga heildsala á þessum svikum! Ég var ungur maður og vissi ekki betur. Týpískur Rasshaus?“
Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, vísar þessari gagnrýni alfarið á bug í samtali við DV.
Það má segja að verðkönnun sem RÚV gerði á dögunum hafi verið valdur að þessari umræðu. Þar var fullyrt Bónus og Krónan væru ódýrari en Costco. Sitt sýndist hverjum um þá könnun, líkt og DV greindi frá í gær. Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, taldi könnunina villandi meðan Ragnar Þór Pétursson, kennari og bloggari, benti á að einungis þrjár vörur af 40 gerðu það að verkum Costco væri dýrari verslun en Bónus og Krónan.
Agnar Sigmarsson, stofandi Transmit, tók saman verð á þeim vörum sem fjallað var um í verðkönnun RÚV og setti fram grafískt. Hér má sjá afraksturinn og er á vefsíðunni hægt að setja saman sína eigin körfu úr þeim vörum sem RÚV kannaði og sjá hvar karfan sé ódýrust eftir einingum.
Jón Garðar Jónsson tekur undir orð Guðmundar í fyrrnefndum þræði á Facebook. Jón Garðar segist í samtali við DV hafa starfað sem verslunarstjóri Bónus annars vegar á Völlunum í Hafnarfirði og hins vegar Skemmuveg í Kópavogi. Hann hætti að starfa hjá Bónus árið 2011.
„Það er svindlað á verðbreytingum og verðkönnunum. Það merkilegasta við það er að Neytendasamtökin og fleiri sem gera verðkannanir tilkynna komu sína svo tími gefist til að skipta um verðmiða á rekkum. Fólk sem verslaði við opnun á dauðatímanum fékk til dæmis skyr á 110 krónur og sá sem kom sirka 14 fékk skyr á 120 krónur.
Þeir sem versluðu á háannatíma versluðu skyr á 125 krónur og rétt fyrir lokun lækkaði skyrið í 115 krónur,“ segir Jón Garðar.
Á vef Neytendasamtakanna, Neytandanum, má sjá að verð á ýmsum vörum hjá Bónus getur breyst talsvert á hverjum degi. Þar geta hagsýnir neytendur skannað inn verslunarstrimla og þannig borið saman verð hjá helstu verslunum.
Athygli vekur að í sumum tilvikum þá er mynstrið líkt og Jón Garðar lýsir. Til dæmis má skoða verð á Smjörva. Þann 8. júní, sama dag og verðkönnun RÚV fór fram, kostaði 400 grömm af Smjörva ýmist 389 krónur eða 481 krónur hjá Bónus. Í verðkönnun RÚV var Smjörvi sagður kosta 389 krónur í Bónus meðan hjá Costco kostaði Smjörvi 379 krónur. Munurinn var því talsvert meiri ef þú keyptir Smjörva á óheppilegum tíma í Bónus. Rétt er að taka fram að óvíst er hvort slíkur mismunur á verði sé á Smjörva samdægurs hjá Costco.
Á vef Neytandans eru þrír strimlar birtir þennan dag: klukkan 11:34 í hádeginu í Kringlunni, klukkan 16:11 í Spönginni og klukkan 17:25 í Mosfellsbæ. Smjörvinn kostaði 389 krónur klukkan 11 og 17 en 481 krónu klukkan 16 þennan dag. Í viðbót við þetta má skoða verð á Smjörva síðustu daga á vefnum og sjá að Smjörvi hefur ekki kostað minna en 481 krónur í Bónus frá 9. júní samkvæmt aðsendum strimlum.
Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, segir ástæðuna fyrir þessum verðlagsbreytingum sé að Smjörvi hafi verið á tilboði. „Þetta var tilboðs Smjörvi og svo kláraðist tilboðið. Það eru tvær öskjur í gangi, önnur tilboðsmerkt og hin er bara venjulega askjan. Búðin í Mosfellsbæ hefur enn þá átt þessa tilboðsmerktu. Það eru verðbreytingar niður á við oft á dag. Við erum með 32 búðir og þær eru kannski ekki allar samtaka í verðbreytingum,“ segir Guðmundur.
Jón Garðar lýsir í Costco-hópnum upplifun sinni af verðbreytingum: „Þeir sendu inn verðin til okkar! Við áttum að koma þeim í hillur á 5 til 10 mínútum.
Þetta var í algjörum forgangi og það fóru oft tveir til þrír starfsmenn í þetta, eftir því hvað bunkinn var stór sem kom. Verðbreytingar voru rosalega tíðar, minnst þrisvar á dag. Það kom bara tilkynning um verðbreytingar í tölvupósti og prentað út samstundis.
Enginn dirfðist að spyrja eins eða neins um þetta, enda varla hægt þar sem topparnir sáu um þessar breytingar og enginn vildi vera atast í þeim með svona spurningar, það hefði getað kostað eitthvað.“
Líkt og fyrr segir vísar Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, gagnrýni verslunarstjóranna á bug.
„Stóra málið er að vinnureglur ASÍ eru þannig að ef vara er ekki til í magni og aðgengileg neytanda þá er hún ekki tekin með í verðkönnun. Það sem ég held að Guðmundur Ás sé að vitna í er að á þessum árum, 1997 til 2001, var verið að skammta fram í hillur vinsælar vörur sem seldar voru með lítilli eða engri álagningu, bara til að dygði út daginn,“ segir Guðmundur.