Postnord, áður Post Danmark, hefur ákveðið að hætta póstdreifingu í Vollsmose-hverfinu í Óðinsvéum í kjölfar ofbeldis og hótana gagnvart starfsmönnum fyrirtækisins. Vollsmose er eitt versta gettó Danmerkur og ástandið þar er oft á tíðum eldfimt. Jane Jegind, sem situr í borgarstjórn Óðinsvéa, leggur til að danski herinn verði kallaður til og látinn halda uppi lögum og reglum í hverfinu.
Danska ríkisútvarpið skýrir frá þessu. Á miðvikudag í síðustu viku var brotist inn í bíl Postnord í Vollsmose og ökumanni hans ógnað. Á föstudaginn var veist að starfsmanni póstsins og henni hótað og sagt að vitað væri hvenær pósturinn væri borinn út og að starfsmenn Postnord ættu að halda sig fjarri hverfinu.
Jane Jegind sagði í samtali við Fyens Stiftstidende að nú væri nóg komið, hér sé um Danmörku að ræða og ef lögreglan sé ekki í stakk búin til að halda uppi lögum og reglu í Vollsmose þá verði að kalla herinn til starfa í hverfinu.
Kristian Pihl Lorenzen, talsmaður ríkisstjórnarflokks Venstre í póstmálum, sagði í samtali við TV2 Fyn að nota verði alla möguleika til að tryggja póstdreifingu og það sé verkefni lögreglunnar. Ef hún hafi þörf fyrir liðsauka þá geti hún fengið hann hjá hernum.
Íbúar í Vollsmose fá því hvorki pakka, bréf né annað með Postnord þessa dagana en Postnord vonast til að geta hafið dreifingu á bréfum og blöðum á miðvikudaginn en ekki er vitað hvenær verður hægt að byrja útkeyrslu á pökkum á nýjan leik.