Þeim 44 farþegum sem voru um borð í flugvél Air Iceland Connect, sem var á leið frá Reykjavík til Egilsstaða í morgun, verður boðin áfallahjálp.
Klukkan rétt rúmlega átta í morgun var tilkynnt um reyk í vélinni og var flugslysaáætlun Akureyrarflugvallar virkjuð. Sem fyrr segir var vélin á leið frá Reykjavík til Egilsstaða en í kjölfar atviksins var ákveðið að beina henni til Akureyrar þar sem hún lenti skömmu síðar.
Í tilkynningu sem lögreglan á Norðurlandi eystra sendi frá sér kemur fram að allir í vélinni séu komnir úr henni og inn í flugstöð. Ekki er talin frekari hætta á ferð. Farþegum verður boðin áfallahjálp og er frekari rannsókn á atvikinu í gangi.