Gagnrýnir fréttaflutning Vísis af föður sínum.
Aðalheiður Ámundadóttir, stjórnarmaður í Afstöðu, félags fanga á Íslandi, vekur á Facebook-síðu sinni athygli á frásögn dóttur Atla Helgasonar. Hún skrifar stöðufærslu á Facebook í dag þar sem hún gagnrýnir fréttaflutning af máli föður síns á Vísi í dag. Aðalheiður telur að saga hennar geti kennt Íslendingum margt um fangelsiskerfið, fjölmiðla, sannleikann og samhygð.
Vísir greindi frá því fyrr í dag að þrír lögmenn Versus lögmannsstofu hafa verið áminntir vegna eignarhalds Atla Helgasonar að lögmannsstofunni. Atli var sakfelldur fyrir manndráp árið 2001 og vegna þess sviptur lögmannsréttindum.
„Íslenskt fangelsiskerfi á að vera betrunarvist. Í hverju er betrunin fólgin þegar menn geta ekki starfað við það sem þeir hafa menntun til eftir afplánun? Ef samfélagið vill sparka í liggjandi menn, þá getur það líka gert ráð fyrir því að borga hlut af sköttum sínum til að halda þeim sem lengst innan fangelsiskerfisins. En er peningunum best varið þannig ? Á ekki frekar að láta fyrrum fanga starfa við það sem þeir eru hæfir til og borga þannig til baka til samfélagsins með hærri sköttum?,“ spyr dóttir Atla.
Þá gagnrýnir dóttir Atla jafnframt að hún hafi ekki verið látin vita að frétt um föður sinn myndi birtast í Vísi í dag.
„Enn og aftur er faðir minn ein mest lesna fréttin án minnar vitundar á visir.is. Verð að segja að það er mjög vont að setjast niður í vinnunni, gera ráð fyrir bærilegum degi og sjá þessa mynd af föður mínum. Finnst að fjölmiðlar ættu að fara að kynna sér að á bak við mann er fjölskylda og ef það væru einhverrar siðareglur á bak við fjölmiðla þá væri rétt að vara fjölskyldumeðlimi við að yfirvofandi væri erfiður dagur og best væri að kíkja ekki á vefmiðil sinn,“ skrifar dóttir Atla.
Aðalheiður Ámundadóttir segir að dóttir Atla opni smá rifu inn í líf og hlutskipti aðstandenda fanga. Hún segir:
„Hún er ótrúlega frábær og vel gerð manneskja. Hún var 10 ára þegar pabbi hennar fór í fangelsi, sem einn nafntogaðasti glæpamaður landsins. Saga hennar er merkileg og ég vona að hún segi hana einhvern tíma upphátt því við gætum lært svo margt um fangelsiskerfið, fjölmiðla, sannleikann, samhygð, nærfærni og náungakærleik. Fyrir utan að það gefur okkur meira en við getum ímyndað okkur að sjá stundum hlutina frá sjónarhorni barnsins,“ skrifar Aðalheiður.