Hefur barist fyrir úrræðum handa syni sínum í tvo áratugi – Óttast að missa barnið sitt fyrir aldur fram
„Ég treysti ekki langt gengnum fíkli í neyslu sem er fastur í líkama sonar míns og ég þekki ekki og veit ekki hvers er megnugur í þessari hörðu neyslu. Mamman blindast alltaf mest, því hún sér bara litla ljóshærða soninn með englaásjónuna á koddanum, en ekki harðgerðan fíkil sem hefur gert hluti sem mömmur vilja hreint ekki vita af,“ segir Guðlaug Björk Baldursdóttir, móðir 34 ára langt leidds fíkils en hún gagnrýnir harðlega skort á viðeigandi meðferðarúrræðum. Sonur hennar hefur leitað yfir 20 sinnum í afeitrun á Vog en skortur á búsetuúrræðum og aðhaldi verður honum ætíð að falli.
Það er erfitt að horfa upp á eymdina og lifa hana á eigin skinni, full vanmáttar sem fylgir því að vera foreldri fíkils. Ég er bara svo sorgmædd yfir því að hann fái ekki þá hjálp sem hann þarf.
Sonur Guðlaugar var greindur með ofvirkni og athyglisbrest sem barn og komst fyrst í kynni við fíkniefni 10 ára gamall. 14 ára gamall var hann kominn í neyslu.
„Það var einhver sem gaf honum amfetamín á lóðinni þegar hann var 10 eða 11 ára. Hann var settur á rítalín en síðan tekinn af því. Hann var alltaf sjúkur í allt sem var bannað og ég vissi nákvæmlega í hvað stefndi með hann. Þarna komst ég að því að það er ekki skólaskylda á Íslandi. Hann mætti ekki í skólann og það var ekkert gert í því, ég var ekki látin vita, enda voru kennararnir fegnir að losna við hann. Hann var settur á BUGL en stakk af þaðan og þá var það í mínum höndum að leita að honum, hafa samband við lögreglu og ákveða hvort ég vildi láta lýsa eftir honum. Hann var á tímabili í Einholtsskóla og það bjargaði honum alveg en sá skóli var síðan lagður niður. Ég reyndi eins og ég gat, ég barðist með kjafti og klóm en fékk aldrei lausn fyrir hann,“ segir Guðlaug og bætir við að hún hafi á sínum tíma farið á fund Landlæknis.
„Þá var mér sagt að það væri ekkert að honum; hann væri bara fiktandi krakki. Ég spurði manninn hvort að synir hans væru að búa til sprengjur á nóttunni og lesa sér til um hvernig það ætti að sprengja upp íslensku þjóðina. Það var lítið um svör.“
Sonur Guðlaugar er 34 ára í dag en hún telur að hann hafi engu að síður þroska á við 16 ára ungling. Síðustu ár hafa einkennst af sífelldri baráttu.
„Hann hefur alltaf verið amfetamínfíkill en það er ekki langt síðan hann byrjaði að sprauta sig,“ segir hún en hún kveðst gera ráð fyrir að sonur hennar hafi farið í alls 25 afeitranir á Vog á undanförnum árum.
„Ég hef keyrt hann um nótt í fangageymslur og látið loka hann inni þar til að lögreglan gæti farið með hann á Vog, en þeir eiga þar pláss af og til fyrir einn aðila. Eftir að hafa verið á Vogi hefur honum verið boðið að fara á áfangaheimili, og það er alltaf þá sem hann fellur. Þar er alltaf einhver sem tekur á móti honum með kaldan bjór. Það sést alveg að það þýðir ekkert að setja einhverja stráka saman á áfangaheimili nema það sé haft með þeim strangt eftirlit,“ segir Guðlaug og bætir við að fyrir utan áfangaheimili séu fá búsetuúrræði í boði fyrir son hennar, fyrir utan gistiskýli. Hann hefur búið hér og þar, jafnvel í tjaldi í Laugardalnum. Sjálf leigir Guðlaug með dóttur sinni og hefur ekki aðstöðu til að hýsa son sinn, þó svo að hún bjargi honum alltaf þegar þess er þörf. Hún segir son sinn eiga mesta möguleika ef hann fær að búa einn, vegna þess að þá verður hann ekki fyrir áhrifum frá öðrum.
„En það er ekki hlaupið fyrir hann að fá leigða íbúð, verandi með þennan bakgrunn. Það er ekki margir spenntir fyrir að leigja fólki eins og honum.“
Ég þurfti að læsa hann inni í herbergi og hringja á lögregluna. Ég þorði ekki út úr húsi og ég var bara orðin fangi heima hjá mér.
Sonur Guðlaugar hefur undanfarna fimm mánuði verið á biðlista eftir plássi á Vogi og segir hún ástandið hafa versnað með hverjum deginum. Hann bjó á götunni og hafði ekki í nein hús að venda þar til hann komst inn á Hlaðgerðarkot fyrir rúmri viku. Á Hlaðgerðarkoti er ekki aðstaða til að afeitra einstaklinga.
„Hann þurfti að afeitra sig í 10 daga áður en hann fór þar inn og það var bara ekki um annað að ræða en að ég myndi sjá um það. Mér var bent á að fá librium hjá heimilislækni og átti svo bara að sjá um þetta,“ segir Guðlaug og spyr um leið hversu lélegt kerfið sé hér á landi þegar það sé sett í hendur mæðranna að afeitra fársjúka fíkla. Foreldrarnir, líkt og hún sjálf hafi oftast enga hugmynd um hvernig þau eigi að díla við börnin sín í fráhvörfum. Slíkt eigi að vera í höndum fagaðila.
Á meðan afeitrunartímabilið stóð yfir þurfti hún að vakta son sinn, dag og nótt, og oftar en ekki var hún skelfingu lostin.
„Í eitt skiptið slapp hann út og kom heim og var búinn að sprauta sig. Ég þurfti að læsa hann inni í herbergi og hringja á lögregluna. Ég þorði ekki út úr húsi og ég var bara orðin fangi heima hjá mér. Einn daginn tók hann inn fimmtán eða tuttugu sobril töflur. Ég hringdi á sjúkrabíl og grátbað um hann yrði settur á geðdeild. Mér var þá sagt að hann væri betur settur hjá mér, enda myndi ekkert vera gert fyrir hann á geðdeild nema athuga hjá honum lífsmörkin. Ég hringdi á Vog og grátbað þá að taka hann til sín en það hafði ekkert að segja. Hann vill meðferð og þarf hana en hann fær hana ekki. Ég get ekki einu sinni fengið að vita hvar hann er í röðinni.“
„Hann er núna á Hlaðgerðarkoti sem er auðvitað frábær staður, en ef hann fer síðan í fráhvörf þá mun hann lenda inni á geðdeild og þá mun hann líklega ekki getað komið aftur inn á Hlaðgerðarkot, af því þau eru ekki með afstöðu til að afeitra þessa fíkla. Á meðan erum við enn þá að bíða eftir plássinu á Vogi,“ segir Guðlaug því næst. Hún óttast að missa son sinn fyrir aldur fram.
„Þessir einstaklingar verða að geta komist í meðferð þegar þau þurfa, rétt eins og þú kemst í meðferð þegar þú glímir við krabbamein. Af hverju á annað að gilda um langt leidda fíkla? Af hverju áttu að þurfa að hringja daglega og minna á þig? Af hverju geta þau ekki fengið hjálp á geðdeild nema þau séu í geðrofi? Það vantar þessi meðferðarúrræði og að þau séu til staðar á þeim tímapunkti þegar þessir einstaklingar vilja þiggja þau. Sex mánaða bið inn á Vog er allt of langur tími og það getur ýmislegt gerst á meðan. Sonur minn hefur til að mynda misst marga vini úr neyslu og langt leiddir fíklar takast ekki á við sorgina á sama hátt og og við hin, heldur berja þau sorgina niður með því að sökkva sér í neyslu.“
Guðlaug segir að þrátt fyrir áralanga baráttu sem virðist oft á tíðum vonlaus þá muni hún aldrei gefast upp á barninu sínu.
„Þú ert svo sterk, þú ert góð móðir, þú græjar þetta bara, þú sérð bara um þetta.
„Þetta er full vinna, að vera að standa í því að bjarga barninu sínu. Oft er ég gjörsamlega buguð. Mér finnst viðhorfið alltaf vera: „Þú ert svo sterk, þú ert góð móðir, þú græjar þetta bara, þú sérð bara um þetta. En það gefur mér von að vita að hann vill meðferð. Vonin heldur mér gangandi. Ég ætla ekkert að gefast upp, þó svo að ástandið sé verra og verra eftir því sem hann er lengur á götunni. Hann mun ekki deyja á minni vakt.“
Guðlaug tjáði sig einnig um aðstæður sonar síns í pistli á bloggsíðu sinni á dögunum þar sem hún ritaði:
„Það er ekki það auðveldasta sem móðir gerir, að skrifa um það að eiga son sem er fíkill. Það er erfitt að horfa upp á eymdina og lifa hana á eigin skinni, full vanmáttar sem fylgir því að vera foreldri fíkils. Ég er bara svo sorgmædd yfir því að hann fái ekki þá hjálp sem hann þarf.
Ég er enginn sérstakur nagli og langar ekkert að vera það, en ég get barist með kjafti og klóm og það ætla ég að gera.“