Líkt og DV greindi frá í morgun komu nokkur hundruð manns komu saman fyrir utan ræðisskrifstofu Íslands í Nuuk í Grænlandi í gærkvöldi til að minnast Birnu Brjánsdóttur. Var meðal annars tendrað á kertum. Meðfylgjandi myndband var birt á facebooksíðu viðburðarins.
Á myndskeiðinu má sjá hóp fólks syngja saman hinn þekkta gospelsálm Amazing Grace en óhætt er að segja að samhugurinn og sorgin skili sér einkar vel í flutningnum.
Talið er að um 400 manns hafi komið saman þegar mest lét, en fólk kom einnig saman í öðrum bæjum og þorpum í Grænlandi, þar á meðal Nanortalik og Qaqortoq.
„Það er lítið sem maður getur gert þegar svona hörmulegir hlutir gerast, en mig langaði að sýna samúð Grænlendinga með íslensku þjóðinni í verki. Samband okkar við Íslendinga er náið og það er gott að geta sýnt samúð á þennan hátt,“ segir Aviâja E. Lynge sem skipulagði viðburðinn í samtali við grænlenska fjölmiðilinn Sermitsiaq.