Birgitta segir marga eiga um sárt að binda vegna óstjórnar undanfarin ár
„Stjórnmálamenn virðast sumir hverjir líta á það sem skyldu sína að koma í veg fyrir að stjórnvöld nái árangri. Ef fólk vill raunverulega breyta menningunni í stjórnmálum er fyrsta skrefið að óska nýrri ríkisstjórn góðs gengis. Að því búnu ættu menn að velta fyrir sér hvað þeir geta gert til að hjálpa henni að ná góðum árangri fyrir land og þjóð. Það hefur ekkert með puntudúkkur að gera.“
Þetta skrifar Ásdís Halla Bragadóttir fyrrverandi bæjarstjóri Garðabæjar á Facebook í gærkvöldi og vísar þar til ummæla Birgittu Jónsdóttur þingflokksformanns Pírata sem hefur sagst ekki hafa áhuga á að vera puntudúkka á þingi og vonar að hún hafi ekki verið kosin til þess.
Birgitta hefur verið gagnrýnd á samfélagsmiðlum fyrir að vilja leggja fram vantraust á ríkisstjórnina um leið og þing kemur saman. Birgitta skrifaði á Facebook í gær að hún muni að sjálfsögðu halda áfram að „styðja góð málefni og berjast gegn ólögum“ Eyjan greinir frá. Birgitta segir þar að allt of margir eigi um sárt að binda vegna óstjórnar og máttleysis í að berjast gegn slæmum stefnumálum.