fbpx
Föstudagur 02.desember 2022
Fréttir

Val sagt að éta skít – Hildur Lilliendahl: „Það sem ég vildi segja“ – Ekkert Gott fólk á Rás 1

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Þriðjudaginn 10. janúar 2017 18:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Jæja eigum við að ræða örstutt um þöggun? Ég fylgist forviða með umræðunni, er umlykur leikritið Gott fólk. Búið er að taka þátt um kynbundið ofbeldi – sem er umfjöllunarefni Góðs fólks – af dagskrá vegna þess að maður sem hefur opinberlega játað ofbeldi gagnvart annarri manneskju og haft í hótunum við starfsfólk Þjóðleikhússins og RÚV – er því mótfallinn að rætt sé um ofbeldi.“

Þannig hefst innlegg eftir Val Grettisson í grúppunni Menningarátökin á Facebook. Valur er höfundur skáldsögunnar Gott fólk en leikgerð upp úr bókinni var frumsýnd í þjóðleikhúsinu á föstudaginn. Leikritið er strax orðið umdeilt en gagnrýnandi Morgunblaðsins gaf sýningunni þrjár stjörnur og gerðist afar persónulegur í lok umfjöllunar sínar þegar hann sagði:

„Fyrir þá sem hafa meðvitund um málið sem liggur til grundvallar er ógerningur að slíta það úr samhengi við það sem fram fer á sviðinu. Álíka vonlaust og að sjá ekki fyrir sér fíl ef manni er sagt að hugsa ekki um fíl. Tilfinningin er að hér sé verið að sníkja sér far með óhamingju fólks. Og það er skammarlegt.“

Forsagan

Fyrir þá sem ekki til þekkja kom skáldsaga Vals út vorið 2015. Í viðtali við Stundina í júní það ár kom fram að sagan væri byggð á ábyrgðarferlismáli sem fjallað var ítarlega um í fjölmiðlum árið 2012 en upphaf málsins má rekja til pistils þar sem ungur maður viðurkenndi kynferðisofbeldi. Í kjölfar pistilsins skapaðist mikil umræða um ábyrgðarferlið og réttmæti þess að afgreiða svo viðkvæm mál með þessum hætti. Í öðrum pistli sem maðurinn ritaði gagnrýndi hann síðan harðlega svokallað ábyrgðarferli eða þær aðferðir sem hans fyrrverandi og stuðningsmenn hennar notuðu í málinu og sagði valdbeitinguna vera „offors.“

Í skáldsögu og leikriti Vals Grettissonar segir frá menningarblaðamanninum Sölva en líf hans umturnast þegar hann fær óvænt bréf frá Söru, fyrrverandi kærustu sinni. Í bréfinu sakar Sara hann um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi. en í stað þess að leita til dómstólanna vill Sara, ásamt gamla vinahópi Sölva, nota svonefnt ábyrgðarferli til að ná fram réttlæti í málinu. Valur viðurkenndi að hafa fylgt ferli málsins ansi náið og „strúktúrerað“ bókina eftir því. Þannig kemst lokabréf söguhetju Vals ansi nálægt bréfinu sem birt var á blogginu.

Valur: „Ég þekki þau ekki, ég hef aldrei talað við þau og er engu nærri um það hvað þeirra aðstæður eiga að hafa snúist um“

„Ég tek samt fram að ég þekki manninn sem lenti í þessu máli ekki neitt, hef aldrei talað við hann og hef enga hugmynd um hvort hann er eitthvað líkur Sölva í raunveruleikanum,“ sagði Valur og bætti við á öðrum stað:

„Hins vegar undirstrika ég að þetta er skáldsaga og persónurnar alfarið mín hugarsmíð. Það var bara einhver tilfinning í þessu margumrædda máli sem var sönn og ég vildi halda í hana þótt ég væri að skrifa skáldskap. Það má vel vera að með því sé ég að fara yfir einhver mörk, en mér fannst það alveg þess virði.“

Lagði bölvun á Þjóðleikhúsið

Þorgeir Tryggvason skrifaði dóm um Gott fólk en hann hefur vakið talsverða athygli
Umdeildur dómur? Þorgeir Tryggvason skrifaði dóm um Gott fólk en hann hefur vakið talsverða athygli

Fyrir frumsýningu birti Haukur bréf á Starafugl þar sem hann sagði sögu Vals skrifaða eftir bloggfærslum sínum og Valur hefði hnikað til orði og orði og fyllt með þunnum getgátum. Þá lagði hann bölvun á Þjóðleikhúsið og alla sem að sýningunni koma.

„Þjóðleikhúsið og Ríkisútvarpið, tvær gildar opinberar stofnanir, hafa tekið höndum saman um dagskrá um verstu daga lífs míns. Þjóðleikhúsið sviðsetur leikrit, um leið og Ríkisútvarpið tilkynnir þriggja þátta röð í samstarfi við leikhúsið, upp úr bók sem var skrifuð eftir bloggfærslum sem ég lét frá mér fyrir nokkrum árum. Höfundur bókarinnar færði til orð og orð og fyllti á milli með þunnum getgátum. Þetta þunnildi var á sínum tíma auðvelt að hunsa. Samstillt dagskrá tveggja ríkisstofnana er hins vegar nokkuð vel í lagt. Fyrr má dauðrota en dúka borðið.“

RÚV frestar þáttum

Ekki var orðið við ákallinu um að taka Gott fólk ekki til sýninga. Í kjölfarið hafa heitar umræður átt sér stað í hópnum Menningarátökin á Facebook og víðar á samskiptamiðlum. Frá því var svo greint á vef Vísis að búið væri að fresta útvarpsseríu Útvarpsleikhússins sem byggðir eru á verkinu og unnið var í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1 sagði í samtali við Vísi:

„Forsendur hafa breyst auðvitað eftir að þessa umræða hófst daginn fyrir frumsýningu. Við höldum að þetta verði betri sería með því að reyna að ná utan um þessa umræðu. Það var sú dagskrárlega ákvörðun,“ sagði Þröstur og bætti við á öðrum stað:

„Hún er bæði efnisleg og líka verið að spyrja hvaða rétt á listamaðurinn þegar fjallar um annað fólk.“

Valur tjáir sig í fyrsta sinn

Símon Birgisson og Valur skrifa leikgerðina að Góðu fólki
Símon Birgisson og Valur skrifa leikgerðina að Góðu fólki

Valur Grettisson hefur hingað til haldið sig til hlés en ritar í dag pistil sem hann birtir eins og áður segir í Menningarátökin á Facebook. Í grúppunni hefur Adda Ingólfsdóttir starfsmaður hjá Mannréttindarskrifstofu Reykjavíkurborgar og Hildur Lilliendahl farið mikinn í umræðunni og gagnrýnt harðlega að verkið hafi verið sett á svið. Taka þær ásamt fleirum undir orð Þorgeirs Tryggvasonar gagnrýnanda hjá Morgunblaðinu sem fann meðal annars að því að Valur hefði ekki unnið verkið í samráði við hluteigandi. Afar skiptar skoðanir eru um réttmæti þess að setja upp leikverkið en Þorgeir segir:

„Ekki þarf að efast um frelsi Vals til að skrifa bókina eða Bjarts að gefa hana út. Hitt finnst mér blasa við að þetta er skammarleg framkoma við fólk í sárum. Eitt er nú að ungur rithöfundur finni hjá sér knýjandi þörf til að skrifa það sem honum kemur í hug. Öllu einkennilegri þykir mér sú ákvörðun Þjóðleikhússins að setja þessa leikgerð á svið, og láta jafnframt (að mér skilst) undir höfuð leggjast að bera þá ákvörðun undir þá sem málið varðar. Setja sig t.d. í spor þolandans.“

Valur gagnrýnir Þorgeir í pistli sínum en beinir einnig spjótum sínum að þeim sem komu að hinu umdeilda ábyrgðarferli.

Ákvað að kaupa verk Vals
Ari Matthíasson Ákvað að kaupa verk Vals

„Sami hópur er svo kominn í þá einkennilegu stöðu að hann vill einnig þagga málið niður. Ekki vegna þess að þolanda, eða þolendum (þeir eru nefnilega allnokkrir), gæti liðið illa, heldur vegna þess að það hentar ekki að málin séu krufin. Því kannski vilja þau ekki að þeirra eigin mistök séu dregin fram í sviðsljósið. Það er hægt að skýla sér á bak við brotaþolendur, en persónulega þykir mér það skammarlegt.“

Valur heldur fram að tilgangurinn sé að þagga niður umræðuna og bætir við:

„Það hlýtur allavega að vera orðið eitthvað einkennilegt, þegar hagsmunir geranda og aðstandenda þolandans fara saman með svo afgerandi hætti. Það er aftur á móti afar sorglegt þegar gagnrýnendur taka þátt í því, og láta eins og list verði til í einhverju tómarúmi. Sektin er þeirra, hin skil ég, enda gjörsamlega blinduð af eigin hagsmunum.“

Hildur svarar

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir bregst illa við skrifum Vals og segir:

Hildur er ósátt við uppsetninguna
Hildur er ósátt við uppsetninguna

„Ég frábið mér það, Valur Grettisson, að þú sakir mig um að vilja þagga niður umræðu um kynbundið ofbeldi. Takk fyrir pent. Ég held að ég hafi sýnt það ágætlega með verkum mínum að ég á slíkt ekki skilið, ekki frá þér og ekki frá neinum. Ástæðan fyrir því að mér finnst þessir gjörningar þínir, Þjóðleikhússins og RÚV ömurlegir og óafsakanlegir er sú að á engum tímapunkti var haft samráð við fólkið sem á um allra sárast að binda vegna málsins sem þú tókst þér vald til að skrifa um. Fyrir mér vakir það eitt að reyna að vernda hagsmuni konu sem var beitt ofbeldi sem þú gerðir þér mat úr.“

„Ég frábið mér það, Valur Grettisson, að þú sakir mig um að vilja þagga niður umræðu um kynbundið ofbeldi“

Valur tekur þá fram að um skáldsögu sé að ræða. Hann þekki ekki fólkið og segir að þau hafi sjálf valið að stíga fram til að útskýra sína hlið í viðtölum.

„Annars hef ég enga hugmynd hvernig þú átt að tengjast þessu máli. En ef þú tengist því, þá má ég til með að benda þér á að þú hefur ekki einkaréttinn á umræðunni um kynbundið ofbeldi.“

Hildur bendir þá á og vitnar í að Valur hafi sagt í viðtali að hann hafi „strúktúrerað“ bókina eftir málinu. Valur svarar að vinnuaðferðin sé svipuð og hjá Mikael Torfasyni sem skrifaði Harmsögu sem fjallaði um morðmál en þar er dómsskjölum fylgt nokkuð nákvæmlega.

„Það þýðir ekki að þar sé um einhverja sagnfræði að ræða,“ segir Valur: „Það er svipað og þegar Einar Kárason skrifaði Djöflaeyjuna og notaðist við raunverulegar persónur í raunverulegum aðstæðum og blés svo sjálfstæði lífi í þær. Ég er ekki bara að finna þessa aðferð upp. Ég er ekki fyrsti maðurinn á jörðinni sem prófar þetta.“

Rithöfundurinn Eiríkur Örn hefur lýst vanþóknun sinni bæði á bókinni og uppsetningu á leikverkinu
Rithöfundurinn Eiríkur Örn hefur lýst vanþóknun sinni bæði á bókinni og uppsetningu á leikverkinu

Hildur svarar á móti að ekki sé hægt að réttlæta skrifin að meiða fólk að aðrir höfundar hafi gert slíkt hið sama. Valur kveðst á móti ekki getað tekið ábyrgð á tilfinningalífi ókunnugs fólks og með sömu rökum sé hann allt eins að traðka á milljónum sem hafi upplifað kynbundið ofbeldi í samböndum. Hildur segir ekki hægt að líka því saman.

„Finnst þér óþægilegt að þriðji aðili skuli reyna að nálgast þessar aðstæður út frá skáldlegu innsæi?“ spyr Valur og bætir við: „Mér þykir leitt ef þolandinn í þessu tilfelli líði fyrir söguna. En ég get alveg lofað þér því að það var galdrakarlinn í Berlín sem dró hana inn í umræðuna á ný alveg hjálparlaust. Viljið þið beina reiðinni að einhverjum, þá ekki skjóta skáldið í leiðinni.“

„Éttu skít“

Fleiri taka þátt í umræðunum, meðal annars rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl sem er eigandi Starafugl þar sem bölvunarpistillinn var birtur en hann er hvorki hrifinn af uppsetningunni né leikverkinu. Til marks um hitann í umræðunum þá gengur Benjamín Julian sem hefur vakið athygli fyrir greinar um flóttamenn í Stundinni svo langt að segja Val að éta skít. Benjamín finnst engin furða að málsaðilar beini spjótum sínum að Val. Merkilega finnst honum að Valur taki það ekki til sín.

„Ég tek það ekki til mín vegna þess að ég er ekki að skrifa um þau,“ svarar Valur. „Eina fólkið sem krefst þess að vera í aðalhlutverki í þessari sögu er galdrakarlinn í Berlín.“

Svar Benjamíns er stutt og það er svona: „Éttu skít, Valur.“ Og Hildur Lilliendahl bætir við: „Það sem ég vildi segja.“ Þessu hefur Valur ekki svarað sem hefur á öðrum stað í sama þræði verið sagt að éta skít en hann endurtekur á öðrum stað að Gott fólk sé fyrst og fremst skáldsaga sem endurspegli raunveruleika fjölda einstaklinga.

„Éttu skít, Valur.“

„Ég þekki þau ekki, ég hef aldrei talað við þau og er engu nærri um það hvað þeirra aðstæður eiga að hafa snúist um. Ef fólk getur ekki aðgreint þetta tvennt, þá er varla hægt að halda áfram með umræðuna,“ segir Valur og bætir við:

„Stundum endurspegla aðstæður fólks sammannlegan veruleika. Það þýðir að sagan er ekki þeirra, hún er líka mín. Sem gerir það að verkum að ég nýti mér rammann, sem er ábyrgðarferlið og áhugi almennings sem eyðilagði ferlið og breyttu í raun í flóknara ofbeldi í sjálfu sér, og skrifa svo sögu sem stendur mér nær heldur en þeim. Hæfnikröfur mínar eru einfaldar: Ég er skáld.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Snjallir Úkraínumenn blekkja Rússa með snjöllum brellum og eftirlíkingum

Snjallir Úkraínumenn blekkja Rússa með snjöllum brellum og eftirlíkingum
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Áætlun Rússa um innrásina í Úkraínu var svo leynileg að hún mistókst

Áætlun Rússa um innrásina í Úkraínu var svo leynileg að hún mistókst
Fréttir
Í gær

Pútín tekur hart á „erlendum útsendurum“

Pútín tekur hart á „erlendum útsendurum“
Fréttir
Í gær

Frétta­vaktin: Heyrnar- og tal­meina­stöðin illa starf­hæf | Sjálf­bærni­ráð Ís­lands stofnað

Frétta­vaktin: Heyrnar- og tal­meina­stöðin illa starf­hæf | Sjálf­bærni­ráð Ís­lands stofnað
Fréttir
Í gær

Tengsl á milli joðneyslu og greindar barna

Tengsl á milli joðneyslu og greindar barna
Fréttir
Í gær

Nýtt lyf við Alzheimers hægir á minnistapi – Ýtir undir vonir um að elliglöp verði læknanleg í framtíðinni

Nýtt lyf við Alzheimers hægir á minnistapi – Ýtir undir vonir um að elliglöp verði læknanleg í framtíðinni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dró Samfylkinguna í Reykjavík fyrir dóm vegna vangoldinnar húsaleigu

Dró Samfylkinguna í Reykjavík fyrir dóm vegna vangoldinnar húsaleigu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fréttavaktin: Katrín segir að mörg símtöl þurfi til að halda saman ríkisstjórn | Arnarlaxslysið vanmetið

Fréttavaktin: Katrín segir að mörg símtöl þurfi til að halda saman ríkisstjórn | Arnarlaxslysið vanmetið