Fáfnir Viking ekki afhent fyrr en í apríl 2019 – Nær ekki að fjármagna smíðina
Afhendingu á nýju fimm milljarða króna skipi dótturfélags Fáfnis Offshore hefur verið seinkað í annað sinn eða um tvö ár. Fyrirtækinu hefur vegna verkefnaskorts ekki tekist að fjármagna smíði skipsins en stjórnendur þess komust um miðjan október að samkomulagi við norsku skipasmíðastöðina Havyard um frestun sjósetningu þess til apríl 2019. Norska fyrirtækið gerði þá kröfu að dótturfélagið gangi frá fyrirframgreiðslu á hluta kaupverðsins í byrjun janúar á næsta ári en íslenskir lífeyrissjóðir eru stórir eigendur í Fáfni.
Fáfnir Offshore, sem rekur sérútbúna olíuþjónustuskipið Polarsyssel, dýrasta skip Íslandssögunnar, og Havyard Ship Technology AS smíðaði og afhenti í september 2014, pantaði nýja skipið Fáfni Viking í apríl 2014. Samningurinn við skipasmíðastöðina var þá metinn á 350 milljónir norskra króna eða 4,8 milljarða króna miðað við núverandi gengi. Afhendingu þess var í byrjun desember í fyrra seinkað frá mars 2016 til júní 2017. Þann 18. október síðastliðinn sendi Havyard svo tilkynningu til norsku kauphallarinnar (Oslo Børs) um að fyrirtækið hefði komist að samkomulagi við Fáfni um seinkun til apríl 2019.
Í tilkynningu Havyard segir að Fáfnir hafi ekki tryggt nýja skipinu framtíðarverkefni sem sé skilyrði fyrir lánsfjármögnun. Samkomulagið hafi áhrif á rekstur skipasmíðastöðvarinnar sem hefur líkt og Fáfnir fundið fyrir lækkun olíuverðs sem fór að hrynja hálfu ári eftir að Fáfnir Viking var pantað. Fáfnir Offshore var eins og kom fram í DV í byrjun september rekið með um tveggja milljarða króna tapi í fyrra en stjórn þess ákvað þá að færa niður virði Polarsyssel um 785 milljónir króna vegna erfiðra markaðsaðstæðna.
Fáfnir Viking er í eigu Polar Maritime ehf. sem er dótturfélag Fáfnis Offshore og var stofnað í apríl síðastliðnum. Fyrirtækið hafði nokkrum vikum áður greitt Havyard 12,75 milljónir norskra króna, jafnvirði 191 milljónar króna miðað við þáverandi gengi, vegna skipsins og kostnaðarins sem fyrri seinkunin olli. Greiðslan til Havyard var alfarið fjármögnuð með skuldabréfaútgáfu sem nokkrir af stærstu hluthöfum fyrirtækisins tóku þátt í mánuði áður. Eins og kom fram í frétt DV gerði sýslumannsembættið á Svalbarða, sem hefur leigt Polarsyssel í níu mánuði á ári, og þannig skapað eina verkefni Fáfnis, kröfu um að smíði nýja skipsins yrði færð í dótturfélagið svo óvissan um hana og greiðslur til Havyard hefðu ekki áhrif á rekstur eldra skipsins.
Hluthafarnir sem tóku þátt í skuldabréfaútgáfunni ákváðu í byrjun ágúst að breyta kröfum sínum í hlutafé. Framtakssjóðurinn Akur, sem er í eigu þrettán lífeyrissjóða, Íslandsbanka og VÍS, er stærsti eigandi Fáfnis með 35,3 prósenta hlut. Þar á eftir kemur framtakssjóðurinn Horn II, sem er í eigu lífeyrissjóða, fjármálafyrirtækja og fagfjárfesta, með 24,38 prósent. Þessir tveir hluthafar, sem áttu í árslok 2015 annars vegar 30 prósent og hins vegar 23 prósent í Fáfni, skiptu báðir skuldabréfum í hlutafé. Það gerði einnig félagið Sjávarsýn ehf., fjárfestingarfélag Bjarna Ármannssonar, fjárfestis og fyrrverandi forstjóra Glitnis. Félag hans átti 7,33 prósenta hlut í Fáfni í lok síðasta árs en á nú 11,5 prósent. Eignarhlutur Fafnir Holding ehf. í fyrirtækinu, og annarra hluthafa sem ekki tóku þátt, skrapp aftur á móti saman. Félagið er í eigu Steingríms Erlingssonar, stofnanda og fyrrverandi forstjóra Fáfnis, sem var sagt upp störfum í desember.
Jóhannes Hauksson, stjórnarformaður Fáfnis Offshore, vildi ekki tjá sig um seinkunina á afhendingu Fáfnis Viking þegar DV leitaði eftir því og upplýsa um upphæðina sem fyrirtækið þarf að greiða í janúar á næsta ári. Ekki náðist í Bjarna Ármannsson, stjórnarformann Polar Maritime.