Hæstiréttur staðfestir farbann yfir ísraelskum ferðamanni sem náðist á myndband á Selfossi
Hæstiréttur Íslands hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands þess efnis að karlmaður, sem náðist á myndband fitla við kynfæri sín fyrir utan grunnskóla á Selfossi á dögunum, skuli sæta farbanni til 3. október næstkomandi.
DV greindi fyrst frá málinu þann 6. September síðastliðinn.
Sem fyrr segir náðist myndband af manninum fyrir utan Vallaskóla og íþróttahúsið Iðu á Selfossi, en samkvæmt upplýsingum DV er maðurinn frá Ísrael. Nemendurnir urðu þess áskynja að ekki var allt með felldu og tóku upp stutt myndband af manninum. Á því sést að maðurinn var að stunda sjálfsfróun. Nemendurnir fóru með myndbandið til lögreglunnar.
„Við gómuðum barnaperra,“ sagði ungur maður í samtali við DV en myndbandið var tekið upp á samskiptaforritið Snapchat.
Maðurinn var handtekinn af lögreglunni á Suðurnesjum þegar hann hugðist fara af landinu í síðustu viku, og í framhaldi af því vistaður í fangageymslum á Selfossi í þágu rannsóknar málsins. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi í síðustu viku kom fram að málið væri til rannsóknar hjá rannsóknardeild Lögreglunnar á Suðurlandi en tölvurannsóknardeild Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu og alþjóðadeild ríkislögreglustjóra komu einnig að rannsókninni.
Í úrskurði Hæstaréttar er vísað í greinargerð lögreglu þar sem skýringar mannsins á athæfinu eru tíundaðar. Maðurinn viðurkenndi í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa verið nakinn í bifreiðinni, en hann kannist þó ekki við að hafa snert kynfæri sín heldur verið með hendur á læri sínu.
Aðspurður um skýringar á framangreindu athæfi sínu hafi maðurinn greint frá því að honum hafi verið mjög heitt og verið með magaverk. Þá hafi hann greint lögreglu frá því að hann hafi misst af flugi frá landinu þar sem hann hafi verið handtekinn af lögreglu. Maðurinn mun hafa komið hingað til lands vegna vinnu sinnar og ætlaði hann að dvelja hér á landi í nokkra daga.
Hæstiréttur féllst á að maðurinn skyldi sæta farbanni en áður hafði héraðsdómur hafnað að maðurinn skyldi úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hæstiréttur hefur nú staðfest þann úrskurð héraðsdóms og verður maðurinn í farbanni til 3. október.