Nú langar mig að fara að gera aðra hluti, beita mér á annan hátt
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, ætlar ekki að bjóða sig fram í þingkosningunum í haust. Hann greinir frá þessari ákvörðun sinni á Facebook í morgun. Hann segist ganga sáttur frá borði og hlakka til að takast á við nýjar áskoranir. Hér að neðan má sjá innlegg Guðmundar í heild sinni.
Eftir góða íhugun og samtöl við mína nánustu í sumarblíðunni hef ég ákveðið að bjóða mig ekki fram í kosningunum í haust. Þetta er búinn að vera viðburðarríkur sprettur og ómetanleg reynsla að hafa gegn þingmennsku á þessum krefjandi árum frá hruni. Ég er ánægður með það sem ég hef komið í verk. Vonandi ná sem flestar víðsýnar, bjartar og frjálslyndar manneskjur kjöri á þing. Hugsjónin lifir. Nú langar mig að fara að gera aðra hluti, beita mér á annan hátt. Takast á við nýjar áskoranir. Það er hollt fyrir heilann að breyta til, segja þeir.
Guðmundur Steingrímsson er fyrrverandi formaður Bjartrar framtíðar og alþingismaður Suðvesturkjördæmis.
Guðmundur var áður kjörinn á þing fyrir Framsóknarflokkinn í Norðvesturkjördæmi árið 2009.
Hann sagði sig úr flokknum vegna djúpstæðs ágreinings um stefnu og hugmyndir árið 2011. Guðmundur stofnaði Bjarta framtíð ásamt Heiðu Kristínu Helgadóttur og fleirum úr Besta flokknum í upphafi árs 2012.
Þá var Guðmundur varaþingmaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi 2007-2009. Guðmundur hefur sömuleiðis starfað sem blaðamaður og var stjórnandi Kvöldþáttarins sem sýndur var á sjónvarpsstöðinni Sirkus.
Guðmundur er sonur Steingríms Hermannssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins.