Viktoría Hermannsdóttir hefur sagt upp störfum á Fréttablaðinu. Þetta staðfestir hún í samtali við DV. Viktoría hefur verið einn af lykilstarfsmönnum blaðsins en hún var umsjónarmaður helgarblaðs Fréttablaðsins. Þá hefur Viktoría ásamt Ólöfu Skaptadóttur, séð um föstudagsviðtöl Fréttablaðsins, sem hafa verið forsíðuviðtöl föstudagsblaðsins. Hafa þau viðtöl oft vakið athygli.
Viktoría er annar starfsmaður Fréttablaðsins til að segja upp í vikunni en áður hafði Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri blaðsins sagt upp störfum. Viktoría vildi ekki tjá sig frekar um uppsögnina eða ástæðu hennar. Mikið hefur gengið á í höfuðstöðvum 365 síðustu daga eftir að starfsmenn sendu opið bréf á Sævar Frey Þráinsson forstjóra, Ingibjörgu S. Pálmadóttur stjórnarformann og Kristínu Þorsteinsdóttur aðalritstjóra þar sem uppsögn Pjeturs Sigurðssonar yfirmanns á ljósmyndadeild var mótmælt harðlega. Hann hafði kvartað undan meintu einelti af hálfu Kristínar.
Sögðu starfsmenn að vinnubrögð Kristínar og yfirstjórnar fyrirtækisins væri óásættanleg og að öll meðferð málsins hafi skaðað traust innan fyrirtækisins. Samkvæmt heimildum DV eru fleiri starfsmenn að hugsa sér til hreyfings.