fbpx
Þriðjudagur 02.september 2025
Fréttir

Tugþúsundir ganga á Esjuna á hverju ári

Nokkrar gönguleiðir í boði í frábæru umhverfi og nálægð við náttúruna

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 29. júní 2016 19:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hefur færst í vöxt hin síðustu ár að ganga á Esjuna, jafnt hjá einstaklingum, hópum og einnig starfsmönnum fyrirtækja sem hafa tekið sig saman og gengið á fjallið sér til yndisauka og heilsubótar. Einhverjir kunna að spyrja hvað valdi þessum aukna áhuga. Að ganga á Esjuna er allra meina bót, styrkir og eykur þolið og býður einnig upp á frábæra nálægð við náttúruna. Æ fleiri ganga á Esjuna og árlega ganga hana tugþúsundir manna á öllum aldri og útlendingar eru farnir að nýta sér þennan möguleika í meira mæli en áður.

Esjan stendur við Kjalarnes í Reykjavík og er eitt af einkennum höfuðborgarsvæðisins. Talið er að Esjan hafi myndast á fyrri hluta ísaldar. Hún byggðist upp úr blágrýtis- og móbergslögum og talsvert er um innskot og bergganga í fjallinu. Esjan er syðsta blágrýtisfjallið á landinu. Nafn fjallsins er gjarnan rakið til móbergslaganna í fjallinu en nafnið þýðir tálgusteinn. Kalk fannst í giljunum fyrir ofan Mógilsá og árið 1873 var þar stundaður námugröftur.

Í Kjalnesingasögu er talað um bæinn Esjuberg þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni Esja hafi komið í Kollafjörð og hafa menn þá leitt að því líkur að nafnið sé írskt að uppruna.

Það fátt betra en að ganga á Esjuna, efla styrk og njóta náttúrunnar.
Fallegt umhverfi Það fátt betra en að ganga á Esjuna, efla styrk og njóta náttúrunnar.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Gönguleiðir vel merktar

Aðalgönguleiðin á Þverfellshorn liggur frá bílastæði og upp að útsýnisskífu á Þverfellshorni í um 780 metra hæð yfir sjávarmáli. Gönguleiðin er vel merkt og heildarlengd Þverfellsleiðar til og frá bílastæði er um átta kílómetrar. Gönguleiðin á Þverfellshorn er bæði fjölbreytt og reynir með víðtækum hætti á líkamann. Fjölmargir fara leiðina nokkrum sinnum í viku en samspil heilsueflingar og fjallgöngu ætti að vera einstaklingum góð leið til bóta á líkama og sál.

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur látið útbúa skilti við gönguleiðina. Er það gert með öryggi göngufólks í huga og til þess að fólk átti sig á hvar það er staðsett á leið sinni á toppinn.

Ekki ganga allir á Þverfellshorn en á leiðinni þangað eru sex gönguleiðir og er Steinn þeirra vinsælastur. Gengið er þangað upp í 587 metra hæð þar sem merktur „Steinn“ er efst á Langahrygg. Aðrar gönguleiðir á leiðinni á Þverfellshorn eru Skógarstígur í 65 metra hæð, Þvergil í 140 metra hæð, Göngubrúin í 240 metra hæð, Vaðið í 383 metra hæð, Steinn eins og áður hefur verið lýst og loks Klettabeltið í 670 metra hæð og þá eru eftir er 90 metra hækkun áður en toppnum er náð.

Auður Kjartansdóttir heldur sér í formi með því að ganga á Esjuna, en það hefur hún hefur gert í 24 ár.
Í toppformi Auður Kjartansdóttir heldur sér í formi með því að ganga á Esjuna, en það hefur hún hefur gert í 24 ár.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ótrúlega hressandi og mannbætandi á allan hátt

Auður Kjartansdóttir hefur gengið á fjallið í 24 ár

Auður Kjartansdóttir hefur gengið á Esjuna í um 24 ár. Hún byrjaði að ganga á fjallið þegar hún hóf störf sem nýliði í hjálparsveitunum, þá nýorðin 17 ára.

„Það er mér mjög eftirminnilegt þegar ég gekk fyrst með foreldrum mínum og þá voru fáar gönguleiðir. Þá þurfti að stika yfir tröppur þar sem varðan er í miðju fjallinu. Þetta er mikið breytt síðan enda hefur Ferðafélagið stuðlað að því að leggja göngustíga og setja niður upplýsingaskilti, en þessi leið er orðin miklu fjölfarnari í dag en fyrir rúmum tuttugu árum,“ sagði Auður Kjartansdóttir sem starfar sem leiðsögumaður á sumrin og sérfræðingur í ofanflóðum á Veðurstofunni á veturna. Aðspurð hvað hún hefði gengið oft á Esjuna sagðist hún ekki hafa nákvæma tölu yfir það en hún gengi að jafnaði 2–3 í viku á fjallið.

Notar fjallið til að halda sér í formi

„Ég nota fjallið mjög mikið og þá ekki síst til að halda mér í formi fyrir aðrar áskoranir. Ég lít á þetta sem leikfimi en þetta er ótrúlega hressandi og mannbætandi á allan hátt. Ég er ekkert frekar að fara upp toppinn og finnst mjög fínt að ganga upp að Steini. Á veturna verður maður að fara með gát og gæta fyllsta öryggis. Þá er stundum töluverður snjór á leiðinni og gott að fara gætilega yfir. Mér finnst alltaf jafn skemmtilegt að ganga á Esjuna og ætli ég hafi ekki stundað fjallgöngur á þetta merka fjall í um 24 ár,“ sagði Auður.

  • Af hverju heldur þú að það sé svona vinsælt að ganga á Esjuna, en nú hefur orðið geysileg aukning í þeim efnum hin síðustu ár?„Esjan hefur ákveðið aðdráttarafl. Fjallið er fallegt með frábæru útsýni yfir höfuðborgina. Esjan býður upp á fjölbreytilegar gönguleiðir og þangað er hreinlega hægt að skreppa eins og að fara í ræktina. Maður fær líkamlega útrás fyrir gönguna og er fljótur að koma sér í ágætis form. Þegar ég var í barnsburðarleyfi fannst mér afskaplega gott að hengja börnin utan á mig og skella mér upp. Börnin lúrðu á meðan, leið vel og ég fékk góða útrás og kom mér í gott form eftir barnsburðinn.“

Auður sagðist hafa heyrt að um 30–40 þúsund manns gengju árlega á Esjuna. Að ganga á fjöll er heilsueflandi á allan hátt og virkilega skemmtilegt. Auður sagði gaman að sjá heilu hópana ganga á fjallið.

Göngustígar þola vel áganginn

„Auðvitað er ágangurinn meiri en áður en það hafa verið markmið hjá Ferðafélaginu og Skógræktinni að leggja og endurbæta göngustíga. Það hefur verið unnið vel í þessum málum en það skiptir miklu máli að ganga eftir merktum göngustígum. Ég held að göngustígarnir þoli vel áganginn og gróðurinn lítur vel út.“

Auður hefur alla tíð verið göngufrík. Hún segist halda sér í formi með göngum á Esjuna en hún hefur alls gengið um 75 sinnum á Hvannadalshnjúk og eru ekki margir sem hafa leikið það eftir.„Að mínu mati er fólk sem er innan við klukkustund að ganga upp að Steini í ágætu formi og á erindi í stærri verkefni. Ég hvet alla sem geta til að ganga á Esjuna, komast þannig í þjálfun og vera innan um fallega náttúru, fuglasöng og frábært útsýni,“ sagði Auður Kjartansdóttir.

Krefjandi og alls ekki auðveld

Helgi Jóhannesson segir Esjuna hafa ákveðið aðdráttarafl

„Ég hef mjög gaman af því að ganga á fjöll og Esjan er aðgengilegt fjall. Þó að ég sé mikill áhugamaður um fjallgöngur og fari á flest fjöll sem ég get þá er Esjan alltaf nærtæk. Hún er þægileg að því leytinu til að hún er nálægt okkur, hún er alltaf krefjandi og hún er alls ekki auðveld þó að hún sé bæjarfjallið. Leiðin upp hana er vel skilgreind og það er sjaldgæft að villast á þeirri leið þó að menn séu óvanir. Esjan hefur upp á margt að bjóða og margar leiðir. Það er hægt að fara, svo eitthvað sé nefnt, á Kerhólakamb, upp að Steini, frá Kjósinni eða alla leið á toppinn. Það er skemmtileg gönguleið upp á Móskarðshnjúka og þar er öðruvísi útsýni en frá öðrum stöðum. Fjallaskíðamenn hafa notið Móskarðshnjúka og margir fara þangað til æfa sig þegar vetrar og fram á vor. Þar eru aðstæður ákjósanlegar til að renna sér niður. Þetta er allt saman hluti af Esjunni,“ sagði Helgi Jóhannesson, lögfræðingur og göngugarpur, í samtali við DV.

Helgi sagði að Esjan hefði ákveðið aðdráttarafl en borgarbúar hefðu hana fyrir augum sér og einhvern veginn getur þú ekki búið í Reykjavík án þess að ganga á fjallið. Esjan er góð áskorun fyrir þá sem virkilega eru að fá delluna því það er auðvelt að fara þangað.

Helgi segist ekki hafa tölu á hve oft hann hefur gengið á Esjuna, mjög oft og í alls konar veðri í nokkuð mörg ár.

Fjallgöngur hafa gert mér gott í gegnum tíðina

„Það má alls ekki vanmeta Esjuna og hún er þokkalega erfitt fjall. Það getur verið algjört logn niðri en síðan alveg brjáluð hríð aðeins ofar. Á veturna verður göngufólk að hafa allan vara á og búa sig vel áður en lagt er af stað. Fjallgöngur hafa gert mér gott í gegnum tíðina og þetta er besta líkamsræktin sem er í boði. Fjallgangan er holl og líkaminn er ekki að fá á sig högg eins og í hlaupunum. Gangan er holl fyrir hjartað og lungu og ekki síður andlega en það er æðislegt að komast út í náttúruna, hvort sem það er á Esjunni eða á önnur fjöll. Aukninguna og meiri áhuga fyrir göngu á Esjuna tel ég stafa af meiri útivistaráhuga en áður. Þetta á ekki einungis við um Esjuna því áhuginn er almennt meiri um allt land,“ sagði Helgi Jóhannesson í spjallinu við DV.

Helgi Jóhannesson nýtur þess að ganga á fjöll og hefur gengið á Esjuna í mörg ár. Hér er Helgi á Þórnýjartindi í Esjunni.
Göngugarpur Helgi Jóhannesson nýtur þess að ganga á fjöll og hefur gengið á Esjuna í mörg ár. Hér er Helgi á Þórnýjartindi í Esjunni.

Mynd:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Róbert Marshall ráðinn aðstoðarmaður borgarstjóra

Róbert Marshall ráðinn aðstoðarmaður borgarstjóra
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Allt á suðupunkti eftir Kastljósið í gær: „Ég er gjörsamlega orðlaus“ – „Þetta er bara byrjunin“

Allt á suðupunkti eftir Kastljósið í gær: „Ég er gjörsamlega orðlaus“ – „Þetta er bara byrjunin“
Fréttir
Í gær

Ákærður fyrir að brjóta gegn barni frá tveggja til fimm ára aldurs

Ákærður fyrir að brjóta gegn barni frá tveggja til fimm ára aldurs
Fréttir
Í gær

Faðir Elfars stígur fram: „Sveitarstjórinn sem fyrirskipaði aftökuna situr áfram eins og hann hafi ekki gert neitt rangt“

Faðir Elfars stígur fram: „Sveitarstjórinn sem fyrirskipaði aftökuna situr áfram eins og hann hafi ekki gert neitt rangt“
Fréttir
Í gær

Ræða átökin um veiðigjöldin og uppgjör Síldarvinnslunnar – „Þvert á það sem umræðan um veiðigjöldin gekk út á“

Ræða átökin um veiðigjöldin og uppgjör Síldarvinnslunnar – „Þvert á það sem umræðan um veiðigjöldin gekk út á“
Fréttir
Í gær

Yfir 600 látnir eftir öflugan jarðskjálfta í gærkvöldi

Yfir 600 látnir eftir öflugan jarðskjálfta í gærkvöldi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ástríðuverkefni Ingileifar í loftið – „Tileinkuð Ólöfu Töru heitinni, sem segir sína sögu“

Ástríðuverkefni Ingileifar í loftið – „Tileinkuð Ólöfu Töru heitinni, sem segir sína sögu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Play segir upp 20 starfs­mönn­um

Play segir upp 20 starfs­mönn­um