Sagðir tengdir meira en 50 félögum
Gögn frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca varpa ljósi á umfangsmikil viðskipti feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar. Þessu er haldið fram í Stundinni.. Þar kemur fram að feðgarnir séu tengdir meira en 50 félögum. Dóttir Björgólfs, Evelyn Bentína Björgólfsdóttir, er skráð fyrir bankahólfi og bankareikningum í Sviss en hefur neitað að gefa upp af hverju.
Að auki kemur fram í úttektinni að félag sem Björgólfur eldri stýrði hafi fengið milljarð í lán sem fékkst aldrei endurgreitt. Að auki segir að nær öll fyrirtæki sem feðgarnir eru skráðir fyrir séu beint eða óbeint í skattaskjóli. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Panamaskjölunum svokölluðu.
Björgólfur Thor Björgólfsson svarar blaðamönnum Stundarinnar fullum hálsi á heimasíðu sinni. Hann segir Stundina fara himinskautum með ályktunum sínum. Kveðst hann ekki nema að litlu leyti nenna að eltast við söguheim Stundarinnar.
„Svo virðist sem Stundin telji Panama-skjölin fullnægjandi til að rekja sig eftir flóknum viðskiptum og draga af þeim ályktanir. Samkvæmnin er þó ekki meiri en svo, að á einum stað fullyrðir Stundin að stórar fjárhæðir hafi einhvern veginn gufað upp, viðurkennir í næsta orði að ekki hafi tekist að rekja þá slóð sem blaðið taldi sig vera á og loks að það sé „ógerlegt að fullyrða nokkuð um hvaða eignir voru inni í þeim félögum“ sem fjallað er um,“ segir Björgólfur og bætir við:
„Stundin fer með gamalt fleipur og villir um fyrir lesendum sínum. Ég hef fyrir löngu gert öll mín mál upp við kröfuhafa.“