Einar K. Guðfinnsson er ekki á leið í forsetaframboð. Frá því greinir hann í samtali við DV. Hefur nafni Einars skotið upp kollinum endrum og eins í tengslum við forsetaframboð og fékk sá orðrómur byr undir báða vængi þegar Einar lýsti því yfir fyrr í dag að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri í næstu kosningum. Einar hefur verið þingmaður til 25 ára og er nú forseti Alþingis. Einar sagði fyrr í dag.
„Nú er komið að tímamótum í lífi mínu. Beinni þátttöku minni í stjórnmálum lýkur senn. Við tekur nýtt tímabil sem ég veit ekki hvað muni bera í skauti sínu. Það leiðir tíminn einn ljós.“
Blaðamaður sló á þráðinn til Einars og fyrsta spurning var hvort forseti Alþingis væri á leið í forsetaframboð.
„Það hefur nokkuð verið rætt um þetta við mig. Ég er ekki að stefna á það. Ég stefni vestur aftur. Ég hef haft vetursetu í Reykjavík sem þingmaður en að öðru leyti stefni ég vestur.“
Aðspurður hvort það verði gott að komast heim til fjallanna og fjarðanna fyrir vestan, játar Einar en hann er alinn upp í Bolungarvík.
„Þetta var mikil ákvörðun fyrir mig en var smám saman tekin í vetur. Það kemur maður í manns stað. Ég hef engar áhyggjur af því.