Ummæli Jóns Gunnarssonar hafa vakið mikla athygli á þingi og reiði hjá stjórnarandstöðunni og andstæðingum stjórnarflokkanna. Jón sagði í pontu í umræðum um vantraust:
„Það liggur alveg fyrir að menn hafa fallist á það að það verði kosið fyrr. Það er spurt að því hvenær verði kosið. Það byggir að mínu mati ekki síst á því hvernig stjórnarandstaðan og stjórnarflokkarnir ná saman hér í þingsal um afgreiðslu mjög mikilvægra mála fyrir okkar samfélag. Ef að við förum ekki í þá vegferð saman, náum saman niðurstöðu um þessi mál, þá getur það tafið afgreiðslu á mikilvægum málum og þá tefjast kosningar.“
Gagnrýnir Egill ummælin í ljósi atburðarrásar síðustu daga. Segir hann nauðsynlegt að fá þetta á hreint. Egill segir á Eyjunni:
„Það er nauðsynlegt að fá það fram hvort þetta er hugmyndin – og þá í anda þess sem Bjarni Benediktsson sagði í fyrrakvöld þegar hann tilkynnti um stjórnarmyndunina. Þetta er lykilatriði í stjórnmálabaráttunni sem er framundan og verður að vera skýrt.“
Ennfremur sagði Birgitta Jónsdóttir að ríkisstjórnin hefði framið valdarán og ný ríkisstjórn ljúgi því að boða eigi til kosninga. Eina sem vaki fyrir stjórninni sé að róa mótmælaölduna. Frá þessu greinir Eyjan.
Jón Gunnarsson svarar Agli á Facebook-síðu sinni nú skömmu eftir miðnætti og segir:
„Já, Egill hneykslast á því að lýðræðislega kjörinn meirihluti á Alþingi ætli ekki að láta minnihlutann komast upp með að knýja fram kosningar án þess að ljúka þeim mikilvægu málum sem enn er ólokið. Hún er stundum sérstök þessi skilgreining góða fólksins á lýðræðinu.“
Jón segir að hann hafi sett þetta fram þar sem hann hafi heyrt á málflutningi þingmanna minnihlutans að þeir ætluðu sér ekki að hleypa neinum málum áfram í þinginu.
„Egill sá ekki ástæðu til að skrifa um það sem ógn gegn lýðræðinu. Er ekki mál að linni þessu rugli?“
Hér má sjá hina umdeildu ræðu Jóns:
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=TRdtr4WzTBU&w=640&h=360]