Um skýlaust brot var að ræða þegar kvíga drapst eftir illa meðferð bónda á Norðvesturlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mast. Dýralæknirinn sem rannsakaði málið neitar að tjá sig við DV sem fjallaði um málið í gær.
Í skeyti frá Mast segir að stofnunin hafi fengið ábendingu í lok júní 2015 um að kýr hefði drepist vegna illrar meðferðar af hálfu bónda á Norðvesturlandi. Í frétt Fréttatímans segir að bóndinn hafi brugðið reipi um hálsinn á skepnunni og dregið hana á bíl sem hann ók þannig að hún drapst. Þá var sagt að bóndinn hefði barið skepnuna með staurum og ekið bíl sínum á hana. Dóttir bóndans varð vitni að því sem gerðist og segir í fréttinni að það hafi fengið mikið á hana.
Í tilkynningu frá Mast segir að eftirlitsmenn hafi farið á staðinn og bóndinn viðurkennt að kýrin hefði drepist. Lýsing hans á því sem gerðist er í veigamiklum atriðum ekki í samræmi við það sem hefur komið fram í fréttum. Matsmenn mátu það þó svo að um skýlaust brot á lögum um velferð dýra væri að ræða. Bóndinn var því áminntur á staðnum. Þá var hann settur undir eftirlit af hálfu héraðsdýralæknis. Ekki er greint frá hver hinn veigamikli munur er í skeyti Mast. DV hafði samband við Jón Kolbeinn Jónsson, héraðsdýralæknir, sem annaðist rannsóknina, en hann vildi ekki svara af hverju hræið var ekki grafið upp og rannsakað frekar en það hefur meðal annars verið gagnrýnt af Dýraverndunarsamtökum Íslands. Neitaði Jón einnig að tjá sig um aðra þætti málsins og vísaði á fjölmiðlafulltrúa.
Þegar þetta gerðist var ekki byrjað að hefja innheimtu stjórnvaldssekta á grundvelli heimilda í lögum um dýravelferð. Því hefur nú verið breytt og fer sektarupphæð eftir alvarleika brotsins.