Freyr Einarsson segir Jón Ásgeir Jóhannesson hafa sent sér sms þar sem hann sagði honum að það væri ekki í boði fyrir fréttastjóra að vera í hestaferð út í sveit
Freyr Einarsson, fyrrverandi ritstjóri Vísis og Stöðvar 2, tapaði gegn sínum gömlu vinnuveitendum, 365 miðlum, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, en hann vildi fá rúmlega 14 milljónir króna fyrir 78 daga sem hann hélt fram að hann ætti fyrir ónýtt orlof á árunum 2010 til 2013.
Athygli vekur að fyrrverandi ritstjórinn, sem var sagt upp störfum, sumarið 2014, tiltekur í stefnu sinni að „raunverulegur“ eigandi 365 miðla, sem er aðeins kallaður D í dóminum, en átt er við Jón Ásgeir Jóhannesson, sendi meðal annars SMS skilaboð til Freys þar sem hann var í hestaferð, og sagði „að það væri ekki í boði að fréttastjóri væri út í sveit þegar allt ætti að vera í gangi“ eins og það er orðað í dómi.
Meðal annars af þessum ástæðum taldi Freyr að það hefði því ógnað hugsanlega öryggi hans sem stjórnanda ef hann hefði tekið út orlofið sitt.
Freyr var á þessum tíma einn af hæst launuðu starfsmönnum fyrirtækisins með um tvær milljónir króna á mánuði.
Í greinargerð 365 miðla segir að launagreiðslurnar séu háar á alla mælikvarða auk þess sem Freyr naut viðbótar hlunninda, m.a. í formi bifreiðar, sem var að markaðsverði í kringum 5-6 milljónir.
Þá segir í greinargerðinni að 365 miðlar byggi kröfu sína um sýknu á því að til staðar hafi verið algjörlega skýr samningur aðila, sem kveðið hafi á um að ótekið orlof félli niður við lok orlofstökutímabils eftir orlofsávinnslutímabil, nema útilokað hafi verið fyrir starfsmann að taka frí vegna verkefna hjá fyrirtækinu.
Um það hafi Freyr ekki haft sjálfdæmi, heldur hafi þurft að ræða þær aðstæður, væru þær fyrir hendi, við forstjóra og reyna að bæta úr. Að halda því fram að slík umræða hefði ógnað starfsöryggi hans sé með öllu fráleitt að mati 365 miðla.
Jón Ásgeir var kallaður til vitnis í málinu vegna smáskilaboðanna og kvaðst hann af og til hafa rætt við Freyr um verkefni hans. Jón Ásgeir kvaðst ekki hafa verið yfirmaður hans, heldur væri hann ráðgjafi félagsins í ýmsum málum.
Aðspurður hvort Jón kannaðist við að hafa sagt við Frey að sá sem stjórni fréttastofu ætti ekki að fara í frí, kvaðst Jón Ásgeir ekki kannast við það, hann hafi alltaf verið talsmaður þess að fólk fari í frí og endurnýi sig og það sé öllum hollt.
Í niðurstöðu Héraðsdóms segir:
Stefnanda mátti vera ljóst að tækist honum ekki að skipuleggja starf sitt með þeim hætti að hann gæti tekið orlof, í samráði við forstjóra stefnda, myndi það falla niður, nema skilyrði umsaminnar undantekningar til útgreiðslu ótekins orlofs væru fyrir hendi. Mátti honum vera ljóst að um það ætti hann ekki sjálfdæmi. Það fær hvorki stoð í gögnum málsins né framburði vitna að útilokað hafi verið fyrir stefnanda að taka umsamið orlof vegna verkefna hjá stefnda á árunum 2010 til og með 2013.