Franska þingið ræðir tillögu um að afturkalla ríkisborgararétt dæmdra hryðjuverkamanna
Christiane Taubira, dómsmálaráðherra Frakklands, hefur sagt af sér og hefur þegar verið fenginn eftirmaður fyrir embættið.
Frá þessu er greint á vef BBC en þar segir að Jean-Jacques Urvoas hafi þegar tekið við embættinu af Taubira.
Afsögnin kom mörgum í opna skjöldu en franska þingið mun á næstu misserum ræða hvort að samþykkja eigi ný lög þar sem yfirvöld fá heimild til að afturkalla ríkisborgararétt þeirra sem dæmdir hafa verið fyrir hryðjuverk.
Tillagan um afnám ríkisborgararéttar dæmdra hryðjuverkamanna var fyrst kynnt eftir hryðjuverkin í París 13. nóvember síðastliðinn, þar sem 130 manns létust í sprengju og skotárásum í borginni.
Taubira hafði áður sagst vera á móti tillögunni og í gærkvöldi tilkynnti ákvörðun sína á Twitter.
„Stundum heldur maður áfram til að berjast á móti, en stundum berst maður á móti með því að hætta,“ sagði Taubira í færslu sinni á Twiter.