„Vil að vinir mínir fái að vita sannleikann“
„Það að ég viðurkenni að ég sé svo veikgeðja að leyfa þessu að steypa mér niður í hyldýpi sjálfsmorðshugsana er ekki kall eftir hjálp. Ég vil ekki athygli, en ég vil að þið, vinir mínir, fáið að vita sannleikann,“ sagði Guðmundur Óli Pálmason fyrrverandi trommara þungarokkssveitarinnar Sólstafa þegar hann greindi frá því að hann hefði verið rekinn úr einni þekktustu þungarokkssveit landsins. Deilur Guðmundar og Aðalbjarnar Tryggvasonar, söngvara sveitarinnar, hafa teygt anga sína inn í dómsal. Guðmundur stefnir Aðalbirni fyrir að nota nafn og vörumerki sveitarinnar í óleyfi. Sakar hann Aðalbjörn um að hafa tekið yfir vörumerki Sólstafa með ólögmætum hætti.
Þetta kemur fram á vef RÚV en DV fjallaði í júní í fyrra um brottrekstur Guðmundar úr sveitinni Það var þann 20. janúar 2015, degi áður en sveitin hóf tónleikaferðalag erlendis, að Guðmundur fékk tölvupóst þar sem honum var tilkynnt að nærveru hans væru ekki lengur óskað. Með fylgdu undirskrifir annarra meðlima sveitarinnar.
DV.IS greindi frá því í sumar að Guðmundur hefði grátbeðið félaga sína um að endurskoða ákvörðun sína.
„Ég fékk aðeins þau óljósu svör að þeir myndu kannski endurskoða þetta eftir mánuð, eða hálft ár, eða ár, kannski, bara kannski. Ég neyddist til að sitja þögull heima og horfa á lífsverk mitt tekið frá mér á meðan mér var gert það ljóst að ef ég myndi tala um þetta óréttlæti opinberlega myndi ég eyðileggja möguleika minn á að snúa aftur í hljómsveitina.“
Deilur sveitarinnar voru slíkar að sveitin endaði í tíma hjá fjölskylduráðgjafa. Í tilkynningu sem síðar kom frá hinum meðlimum sveitarinnar var sagt að persónulegar deilur hefðu gert þeim ókleift að starfa áfram með Guðmundi.
Guðmundur segist hafa komist að því fyrir tilviljun að Aðalbjörn hafi degi eftir brottreksturinn sótt um einkaleyfi á nafni hljómsveitarinnar, með öðrum orðum, notkun vörumerkisins Sólastafa, til einkaleyfisstofu. Voru Guðmundur Óli og Aðalbjörn einu eigendur útgáfufélagsins Svalbard Music Group sem hélt utan um starfsemi hljómsveitarinnar. Í frétt DV.IS sagði einnig:
„Mér var svo gert það kristaltært að Aðalbjörn hafði engan áhuga á sáttum þegar ég uppgötvaði að daginn eftir hafði hann sótt um einkaleyfi á nafninu Sólstafir í eigin nafni og kennitölu en ekki í nafni sameiginlegs fyrirtækis okkar sem sér um rekstur bandsins og ekki með undirskriftum annarra hljómsveitarmeðlima. Hefði ég ekki uppgötvað þetta fyrir tilviljun (vinur minn sem er lögfræðingur kíkti á nafnið Sólstafir í íslensku fyrirtækjaskránni) hefði honum tekist að fá 100% höfundarréttarlega og fjárhagslega stjórn yfir nafninu og vörumerkinu sem ég hafði gert meira en lítið til að skapa.“
Þá sagði Guðmundur ennfremur:
„Ég fæ engar þakkir fyrir alla þá vinnu og þær fórnir sem ég hef fært fyrir hljómsveitina, en það er MUN meira en maður sér á yfirborðinu. Þetta hefur haft áhrif á allar hliðar lífs míns, allt niður í minnsta kjarna tilvistar minnar, sjálfsmynd mína og persónu. Ég veit í raun ekki hver eða hvað ég er núna.“