Hæstiréttur Íslands staðfesti fjögurra ára fangelsisdóm yfir Reyni Þór Jónassyni, sem lamdi mann til óbóta á Grundarfirði þarsíðasta sumar. Reynir, ásamt öðrum manni, sem er þýskur ríkisborgari, lömdu mann svo illa að hann liggur enn illa haldinn á spítala.
Í dómi Hæstaréttar segir að nýtt læknisvottorð hafi verið lagt fram og þar hafi komið fram að fórnarlambið sé með varanlegar afleiðingar af lífshættulegum heilaskaða og honum hafi nær ekkert farið fram síðastliðið hálft ár.
Horfur á frekari bata hljóti að teljast mjög takmarkaðar.
Myndbandsupptaka náðist af atvikinu og mátti meðal annars sjá Reyni og hinn manninn lemja hann til skiptis þar til hann fellur, að því er virðist, meðvitundarlaus aftur á bak og skellur með höfuðið í steypuna.
Reynir slær svo manninn aftur tveimur höggum í andlitið og reynir hann ekki að bera hendur fyrir andlit sitt þrátt fyrir árásina. Að lokum má sjá mennina tvo, Reyni og þann þýska, slá saman öxlum og klappa hvorum öðrum á bakið.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Reyni í fjögurra ára fangelsi og stendur sá dómur óraskaður. Reynir þarf þó að greiða 2,3 milljónir í málskostnað.
DV greindi frá því síðasta sumar að árið 2012 fékk Reynir tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm til tveggja ára fyrir líkamsárás gegn barnsmóður sinni. Hann reyndi þá meðal annars að krækja út augu barnsmóður sinnar.
Báðir voru mennirnir í áhöfn Baldvins NC 100, þegar árásin átti sér stað. Reynir er fyrrverandi Íslandsmeistari í vaxtarrækt. Þýski maðurinn fékk einnig fjögur ár fyrir aðild sína að árásinni.