fbpx
Fimmtudagur 28.ágúst 2025

Jóhann Kristófer: „Ég er kvíðasjúklingur“

Rapparinn Joey Christ gefur út tvær ólíkar plötur um peninga, dóp og baráttu sína við kvíða

Kristján Guðjónsson
Þriðjudaginn 25. júlí 2017 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er ekkert geðveikur rappari eða músíkant – en það skiptir ekki máli ef maður getur búið sér til pláss og stimplað sig inn í kúltúrinn. Með því að taka svona marga með mér gef ég líka öðrum færi á því sama, að taka þátt í einhverju sem er stærra en maður sjálfur. Rappsenan er eitthvert afl, einhver hreyfing sem mun setja svip sinn á íslenskt samfélag,“ segir rapparinn Joey Christ, sem á líklega lag sumarsins á Íslandi – sumarsmellinn „Joey Cypher“.

Í myndbandinu vafra nokkrir heitustu tónlistarmennirnir í hip-hop-senunni um uppáhaldsstórverslun Íslendinga, Costco, í galsakenndum leik og rappa í anda bandarískra rappstjarna um djamm og dóp, lúxusúr og hrúgur af seðlum. „Telja, telja, nóg að gera, þarf að velja. Velja, velja, ætla að velja þessa seðla,“ rappar maðurinn sem lagið er kennt við, Jóhann Kristófer Stefánsson – Joey Christ – sem hefur áður gert garðinn frægan með hljómsveitinni Sturla Atlas, ásamt því að leika í sjónvarpsþáttum og leikritum og vekja athygli fyrir djarfan og óvenjulegan tískustíl.

Fyrr í mánuðinum gaf hann út tvær plötur á netinu, hina gáskafullu Joey þar sem fjölda ólíkra laga á íslensku er hrúgað saman í „mixtape,“ og svo heildstætt og þematengt verk á ensku, Anxiety City, en eins og nafnið gefur til kynna er helsta viðfangsefnið kvíðaröskun – sem Jóhann segist sjálfur glíma við.

9 ára rappari í sjónvarpinu

Jóhann Kristófer er nývaknaður þegar blaðamann ber að garði í huggulega íbúð við Baldursgötu. Hann hellir upp á kaffi – drykk sem hann segist vera nýbyrjaður að drekka – og hellir sér Cocoa Pops og möndlumjólk í skál og sest í sófann.

Jóhann hefur alltaf búið í miðbænum, er sonur leikara og nánast alinn upp í leikhúsinu. Hann rifjar upp hvernig hann hafi verið að skapa hin ýmsu listaverk frá því að hann man eftir sér, oftar en ekki með bróður sínum Haraldi Ara, nágrönnum þeirra, bræðrunum Loga Pedro og Unnsteini Manuel, og Sigurbjarti Sturla Atlasyni – en þeir hafa haldið hópinn æ síðan og verið sérstaklega áberandi í tónlistarlífi landsins undanfarið með hljómsveitum á borð við Retro Stefson og Sturla Atla. Þeir hlupu um Þingholtin og gerðu stuttmyndir undir áhrifum frá Hollywood-spennumyndum og stofnuðu rapphljómsveit sem tók þátt í Rímnaflæði árið 2001 þegar þeir voru í kringum 10 ára aldurinn.

„Við ætluðum að kalla hljómsveitina Diablo, en á þessum tíma vorum við Logi og Unnsteinn allir með mæðrum okkar í kaþólsku kirkjunni og vorum því fengnir af því. Við kölluðum okkur í staðinn Rapp 101. Við tókum þátt í Rímnaflæði – ég held að þetta hafi verið árið sem Igor vann – þar sem við sungum lagið „Rappandi lóa“ og fluttum það síðan í Stundinni okkar. Ég man ekki alveg hvernig þetta kom til en við vorum bara stemningsmenn frá unga aldri,“ rifjar Jóhann upp og glottir.

Rappsveitin gerði ekki fleiri lög og smám saman varð það leiklistin sem tók yfir: Skrekkur, leikfélagið í MH og sviðshöfundabraut í Listaháskólanum.

Heill heimur frekar en hljómsveit

Hljómsveitin Sturla Atlas kom fyrst saman fyrir rúmlega tveimur árum til að búa til nokkur lög í tilefni af afmæli vinar sem fílaði R‘n‘B tónlist á borð við þá sem The Weeknd, Drake voru að gera vinsæla um þær mundir. „Þá kviknaði einhver logi sem hefur bara verið að stækka síðan,“ segir Jóhann.

Allt frá upphafi hefur það ekki bara verið tónlistin sem hefur vakið athygli á hljómsveitinni heldur svöl og sjálfsmeðvituð umgjörðin í kringum hana. „Kjartan Hreinsson, vinur okkar, var mikið með okkur til að byrja með. Hann var alltaf að taka myndir og það varð því til mjög sterk sjónræn ímynd. Alveg frá byrjun fannst okkur gaman að setja fram allan pakkann þótt við vissum ekkert endilega hversu langt við færum með það,“ segir Jóhann.

„Sturla Atlas er tónlistarverkefni en það er kannski ekki síður „identity-branding“ dæmi. Við höfum verið að leika okkur við að stækka út þá hugmynd hvað hljómsveit á að vera og gera. Mér finnst mjög skemmtilegt að geta skapað heilan heim sem fólk getur stigið inn í frekar en að það sé bara að hlusta á eitt lag. Siggi Odds hönnuður hefur hjálpað okkur mjög mikið í þessu, og kannski fyrst og fremst með því að gera okkur grein fyrir að það eru engar reglur í þessu – við megum bara gera það sem við viljum,“ segir Jóhann, en fyrir utan plötur og myndbönd hefur sveitin gefið út tímarit, hannað fatalínur, sent frá sér ilmvatn og ýmislegt fleira.

Hann segir enn fremur að með sveitinni hafi þeir Sigurbjartur fengið útrás og getað nýtt sér leikhúsreynslu sína. „Ég var búinn að vera að vinna lengi á sviði áður en ég fór að gera tónlist. Að halda tónleika var því minnsta málið fyrir okkur, fúttið í þessu var eiginlega að fá að standa á sviðinu og vinna í gegnum þennan tónlistarmiðil, frekar en eitthvað leiklistartengt. Ég dýrka showið! Ég veit ekki af hverju, en það að standa á sviði er eitthvað sem ég dýrka. Ég fæ mjög mikið kikk út úr því að standa á sviðinu og vita ekkert hvað er að fara að gerast næst – sumir finna fyrir hræðslu við þetta en ég bara dýrka þetta.“

Fyrst þegar Joey Christ kom fram var það frekar stíllinn en tónlistarhæfileikarnir sem vöktu athygli. Hann var eins og klipptur út úr ljósmyndaþætti um austur-evrópska hnakkamenningu og þarna birtist ýkt upphafning á öllu því ungæðingslega og hráa, ódýra, fjöldaframleidda, 90’s og hallærislega. Í útliti, fasi og textum virtist karakterinn kristalla hugmyndina um hina einföldu og gröðu æsku.

Bakgrunnur Jóhanns er fyrst og fremst í sviðslistum og því er eðlilegt að velta fyrir sér hvort ekki sé hreinlega um gjörning að ræða, en hann segir þó ekki að Joey Christ sé tilbúið hliðarsjálf: „Nei, í rauninni ekki. Ég er alveg jafn mikill Joey og Jóhann á daginn – það fer kannski bara eftir því hvar ég er. Línan er mjög óskýr. Þótt það sé alltaf einhver sviðsetning að eiga sér stað þá er maður líka bara að reyna að vera besta útgáfan af sjálfum sér.“

Mér finnst mjög skemmtilegt að geta skapað heilan heim sem fólk getur stigið inn í frekar en að það sé bara að hlusta á eitt lag.

Reykjavík er borg kvíðans

Á síðustu mánuðum hefur Joey Christ smám saman verið að mótast sem sóló-rapptónlistarmaður frekar en ofursvali hype-maðurinn í Sturla Atlas. „Ég er ekki mikill söngvari og hef því alltaf verið að ögra sjálfum mér mikið með því að vera að syngja í Sturla Atlas – ég var mjög óöruggur með það til að byrja með því mér fannst ég vera svo laglaus,“ segir Jóhann þegar hann er spurður um af hverju hann sé að færa sig yfir í rappið.

„Ég hlusta miklu meira á rapp en sungna tónlist og byrjaði því að prófa að gera nokkur rapplög á ensku. En það var ekki fyrr en ég fór að vinna með Birni og Flóna í stúdíóinu að ég byrjaði að prófa að rappa á íslensku, þá fann ég eitthvað sem ég hafði ekki fundið áður. Mér fannst ég verða að keyra á þetta. Þá ákvað ég bara að gera tvær plötur, eina á ensku og eina á íslensku, af hverju ekki? Future gerði þetta fyrr á árinu, gaf út tvær plötur með viku millibili, svo ég sagði bara: „fuck it“ ég geri þetta líka.“

„Það eru nokkrir pródúserar á plötunum, Marteinn, Auður og Flóni, en Arnar Ingi [sem kallar sig Young Nazareth] gerir langflesta taktana og er „executive producer“ á báðum plötunum. Þetta er eiginlega meiri sigur fyrir hann en mig. Það er hann sem finnur minni sýn einhvern músíkalskan farveg. Þegar mig langar að gera einhverja tegund af lagi þá sýni ég honum einhverja „reffa“ eða segi eitthvað „vibes“ og þá sest hann niður í tölvunni og „cookar“ eitthvað upp. Það er oft ótrúlegt hvað þetta er fljótt að gerast.“

Plöturnar tvær eru ólíkar, íslenska „mixteip-ið“ Joey er fjörug stemningsplata en enska platan, Anxiety city, er konseptverk sem Jóhann segir að eigi að fanga það hvernig það er að þjást af kvíðaröskun.

„Á konsept-plötunni ákvað ég að leyfa mér að gera eins skrýtið dót og ég gat, fara alla leið og gera engar málamiðlanir. Arnar Ingi gerði „heavy“ erfiða takta og þetta var alveg nett manískt á köflum – sem er einmitt það sem ég vildi. Ég vildi gera kvíðavaldandi plötu, ekki að gera róandi „ambient“ plötu, heldur soundtrack að þessari borg kvíðans.“

En af hverju að gera konsept-rappplötu um kvíða – er það eitthvað sem þú þekkir af eigin raun?

„Ég er kvíðasjúklingur. Að vissu leyti fannst mér mjög fyndið að gera þemaplötu um kvíða, en að öðru leyti – þó ég hafi ekki endilega ætlað mér það – þá er ég að opna á samtal um andlegt heilbrigði. Því meira sem ég tala um þetta því fleiri gefa sig á tal við mig og segjast þekkja þetta: „gaur, ég er líka kvíðinn!“ Það eru bara allir að springa úr kvíða í Reykjavík. Það er svo mikið myrkur hérna. Maður fer oft inn á staði og finnur svo sterka undiröldu af sturluðum kvíða – allir að horfa á hver annan og passa sig að vera nettir. Fólk spyr mig hvort ég sé eitthvað að grínast með þetta kvíðadót en þegar ég neita því þá finnst fólki mjög gott að fá að tala um þetta. Ég er búinn að benda rosa mörgum á einhverja þerapista og finnst ég vera að sinna ákveðinni samfélagslegri skyldu með því að opna á þetta samtal.“

Hvernig tekst þú sjálfur á við þetta ástand?

„Ég er hjá þerapista, er á lyfjum og hreyfi mig. Maður þarf eiginlega að gera allt til að vinna í þessu. Það eru reyndar ákveðnar lífsstílsákvarðanir sem gera þetta svolítið erfitt – og maður þarf kannski að leggja þann lífsstíl á hilluna einhvern daginn. Þetta snýst líka bara um að átta sig á því hvað er í gangi til dæmis þegar maður fær kvíðakast. Ef maður veit hvað þetta er þá veit maður líka að maður þarf bara að anda með nefinu og leyfa þessu að líða hjá. Svo er það bara að tala um þetta. Það er mikilvægt að ég geti sagt við kærustuna mína: „ég er ógeðslega kvíðinn núna“ og það er bara í góðu lagi – að maður þurfi ekki að byrgja það inni. Kannski er það líka ein af ástæðunum fyrir því að ég geri þessa plötu.“

Fólk spyr mig hvort ég sé eitthvað að grínast með þetta kvíðadót en þegar ég neita því þá finnst fólki mjög gott að fá að tala um þetta.

Rappið er mótandi afl

Jóhann kallar íslensku plötuna sem kom út viku seinna mixtape enda sé hún frekar samansafn af lögum sem fangi þetta tiltekna augnablik en heildstæð plata.

„Það er enginn skýr rauður þráður á henni heldur langaði mig bara að ramma inn stemninguna sem er í gangi núna. Ég ákvað að hafa helling af „features“, mér finnst svo skemmtilegt að vinna með alls konar fólki og fá það besta frá öllum. Þegar maður fær svona marga með sér nær maður líka að ramma inn þennan tiltekna tíma og þetta augnablik. Þetta er eitt af því sem drífur mig áfram, að gera þetta fyrir menninguna. Ég er ekkert geðveikur rappari eða músíkant – en oft skiptir það bara engu fokking máli. Þetta snýst um eitthvert viðhorf og eitthvað meira en að rappa – að vera tilbúinn að „do the thing“ þótt þú sért ekkert endilega sérstaklega góður í því. Ég hugsaði ekki að ég ætti að gera tvær plötur af því að ég væri svo góður rappari, heldur bara af því að mig langaði að „fokking“ gera það. Það skiptir ekki öllu máli hvort maður geti eitthvað heldur bara hvort maður geri það.“

Pönkið sem endurómar í þessum orðum Jóhanns virðist vera hluti af því af hverju gróskan og skriðþungi rappsenunnar virðist alls ekki vera að minnka eftir góða tíð undanfarin ár.

„Það er algjört góðæri og nánast offramboð af góðri músík. Það eru svo ótrúlega margir sem eru að finna sína rödd og finna henni farveg. Maður er alltaf að heyra eitthvað nýtt, það er ógeðslega mikið af fólki í sínu horni að gera það sem það dýrkar. Ég held að eftir 30 ár verði litið á þetta á sama hátt og við lítum á pönkið og Rokk í Reykjavík í dag.“

Þrátt fyrir góðærið í hip-hopinu hefur verið nokkuð rætt um hversu áberandi færri stelpur eru í senunni. Nokkrar stelpur eru með gestainnslög á plötum Jóhanns en þær eru þó mun færri en strákarnir. Er þetta eitthvað sem þú telur vera vandamál í senunni og af hverju heldur þú að þetta sé svona?

„Já, þetta er algjörlega vandamál – eins og í allri músík, held ég. Umræðan einblínir kannski núna á hip-hopið vegna þess að það er svo áberandi í dag, en ég held að þetta hafi verið vandamál í flestum öðrum senum. Rapp er kannski nettur blóraböggull í dag af því að í gegnum tíðina hefur verið mikil karlremba í því. Ég held að meðvitund um þetta sé mjög mikilvæg – maður verður að gera sér grein fyrir því að það er bara ein stelpa á móti hverjum tíu sem eru að rappa. Það er skortur og eflaust erfiðara fyrir stelpur að finna sér farveg í þessu en strákar.“

„Reykjavíkurdætur hafa hins vegar gert rosa mikið í því að gera stelpum grein fyrir því að þær geta þetta alveg jafn mikið og strákar. Jóhanna Rakel er til dæmis einn uppáhalds íslenski rapparinn minn – með geðveikt „swag“ og drullusama um allt. Þetta snýst að vissu leyti um að gera sér grein fyrir að þetta sé ennþá nett pungasport og vera tilbúinn til að reyna að breyta því. Maður bara hvetur alla til að gera það sem þeir vilja og láta ekkert stoppa sig.“

Ég er ekkert geðveikur rappari eða músíkant – en oft skiptir það bara engu fokking máli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Hjartalæknir: Þessi einfalda æfing getur bjargað lífi þínu

Hjartalæknir: Þessi einfalda æfing getur bjargað lífi þínu
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Miðasala hafin á afar mikilvægan leik

Miðasala hafin á afar mikilvægan leik
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Bónus gefið 2500 barnabónusbox og 1600 umsóknir til viðbótar bíða afgreiðslu

Bónus gefið 2500 barnabónusbox og 1600 umsóknir til viðbótar bíða afgreiðslu
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Náði ótrúlegu myndbandi af ísjaka velta og hrynja í Jökulsárlón – „Þetta er hræðilega sorglegt“

Náði ótrúlegu myndbandi af ísjaka velta og hrynja í Jökulsárlón – „Þetta er hræðilega sorglegt“
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Nýjar vendingar varðandi stolna nasistamálverkið – Horfið þegar lögregla kom á vettvang

Nýjar vendingar varðandi stolna nasistamálverkið – Horfið þegar lögregla kom á vettvang
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Yfirgaf ólétta eiginkonu fyrir tvítuga konu – „Mig langar til þess að æla“

Yfirgaf ólétta eiginkonu fyrir tvítuga konu – „Mig langar til þess að æla“