Vel heppnuð Secret Solstice tónlistarhátíð í Laugardalnum – Anderson .Paak, Ata Kak og Birnir stóðu upp úr
Tónlistarhátíðin Secret Solstice var haldin í fjórða skipi um þjóðarhátíðarhelgina. Hátíðin hefur smám saman fest sig í sessi sem stærsta tónlistarhátíð landsins – og eina hefðbundna sumartónlistarhátíðin að evrópskum sið. Að halda slíka hátíð árlega í almenningsgarði í Reykjavík er metnaðarfullt markmið og fagna því eflaust allir sem vilja sjá fjölskrúðugt og lifandi menningarlíf í borginni.
Þrátt fyrir fjölmarga ljósa punkta og góðar stundir hafa fyrstu árin að mörgu leyti gengið brösuglega. Skipulag svæðisins hefur verið misvelheppnað og því umturnað í hvert skipti, ýmsar skemmtilegar hugmyndir verið illa framkvæmdar, upplýsingaflæði hefur oft og tíðum verið lélegt og hámarki náði vesenið í alræmdu raðafargani á hátíðinni í fyrra. Kannski er það þess vegna sem gestir voru umtalsvert færri á hátíðinni í ár en maður hefði vonað – og margir þeirra virtust í þokkabót vera á gjafa- eða afsláttarmiðum.
Þetta er synd því að í ár fannst mér hátíðin loksins finna taktinn sinn. Hátíðarsvæðið er talsvert betur uppsett og skemmtilegar skipulagt en áður. Í fyrsta skipti var allt svæðið á grasi (fyrir utan klúbbasvæðið sem er staðsett inni í nýju Laugardalshöllinni til að lágmarka hávaðann í hverfinu), Valbjarnarvöllur og svæðið í kringum heitu þvottalaugarnar var frábær viðbót, fjarlægðirnar milli sviða voru litlar en þrátt fyrir það truflaði hljóð frá nærliggjandi tónleikasviðum ekki, að minnsta kosti ef maður kom sér fyrir framan sviðið og hæfilega nálægt því.
Dagskrá hátíðarinnar var líka fjölbreytt. Sem áður sinnir hátíðin hip-hopinu og danstónlistinni vel og að minnsta kosti í fyrrnefndu tónlistarstefnunni var mikið um erlenda gullmola, Princess Nokia, Novelist, Roots Manuva og Big Sean svo nokkrir séu nefndir. Sólstöðuhátíðin sækir þó í auknum mæli einnig inn á almenna (rokk)tónleikahátíðamarkaðinn með því að flytja inn gamlar lummur á borð við Foo Fighters, Richard Ashcroft úr The Verve og The Prodigy. Þó að meðalaldur hafi varla verið langt yfir tvítugu var demógrafían þó nokkuð fjölbreytt á þessum tónleikum og gaman að sjá heilar fjölskyldur mæta á svæðið að deginum til.
Það er enda ekkert lykilatriði að vera sérstakur unnandi tónlistarinnar sem kemur úr hátölurunum, heldur er það ekki verri skemmtun að setjast niður í grasið og fylgjast með fólkinu, þarna fær maður tísku og stemningu samtímans algjörlega í æð. Bleikur var augljóslega litur hátíðarinnar í ár, strákar gengu með fastar fléttur og gullkeðjur, stelpur voru með skærlitað hár, það var mikið veipað, kannabislyktin var víða, gallajakkar og kringlótt sólgleraugu voru áberandi, sem og hvít geimverugleraugu eins og þau sem Kurt Cobain notaðist við á tíunda áratugnum.
Fyrsti hápunktur hátíðarinnar fyrir mig kom á föstudeginum. Eftir skýfall fyrr um daginn byrjaði sólin skína svo að segja um leið og Ata Kak og hljómsveit hans byrjaði að spila á sviðinu sem nefnt hefur verið Gimli – næststærsta útisviði hátíðarinnar. Leið þessa ganíska tónlistarmanns til Íslands er ansi löng og merkileg. Upp úr aldamótum rákust aðstandendur tónlistarbloggsíðunar „Awesome Tapes from Africa“ á kasettuna Obaa Sima með súrri skemmtara-dans-rapp-tónlist, ganískri „high-life“-tónlist sem var of skrýtin og skítug til að vekja nokkra athygli í heimalandinu. Eftir að bloggið vakti athygli á snældunni breiddust vinsældir hennar hins vegar út á Vesturlöndum meðal áhugamanna um skrýtið jaðar- og utangarðspopp. Í áratug stóð svo yfir leit að hinum dularfulla tónlistarmanni á bak við tónlistina og varð hún raunar seinna kveikjan að útvarpsþáttum á BBC. Tveimur áratugum eftir upphaflega útgáfu kasettunnar, sem kom út í 50 eintökum árið 1994, fannst listamaðurinn loksins og þá var hlaðið í endurútgáfu og tónleikaferðalög í kjölfarið.
Nú ferðast þessi miðaldra „high-life“-rappari um heiminn með fjórum hljómsveitahipsterum: bassaleikara, hljómborðsleikara, trommuheilastjóra og bakraddasöngkonu. Saman endurskapa þau endurtekningarsaman skemmtarataktinn og einfaldar melódíurnar af Obaa Sima og eru þær fljótar að brjóta sér leið inn í heilabörkinn og niður í mænuna.
Grásprengdur, hettupeysu- og sólgleraugnaklæddur Ata Kak var heillandi á sviðinu, brosti í gegnum allt settið, rappaði sínar skúbbí-dú rímur og dillaði sér með dansvænum töktunum. Sjálfum fannst mér ómögulegt að standa kyrr og áhorfendur virtust almennt vera með á nótunum og dönsuðu, og furðulega margir sungu með. En tónlistin er ekki allra – fimmtugur frændi sem ég rakst á sagði þetta til dæmis vera það versta sem hann hefði heyrt á ævinni. Misjafn er smekkur manna.
Ég var spenntur að sjá kópvogska rapparann Birni koma fram enda hef ég verið með lagið hans „Ekki switcha“ límt á heilanum í allt í sumar – og nafn lagsins orðið að stöðluðu svari við hinum ólíklegustu spurningum. Um leið og maður gekk inn í Fenristjaldið á föstudagskvöldinu varð manni augljóst að Birnir Sigurðsson er löngu búinn að skjótast upp á stjörnuhimininn í íslensku tónlistarlífi. Það var algjörlega stappað í tjaldinu þegar hann steig á svið, beint á eftir bandaríska rapparanum Left Brain (úr rappgenginu Odd Future).
Í lögunum sem við höfum heyrt hingað til frá Birni eru trap-legir taktarnir djúpir, kaldir, naumhyggjulegir og lyfjaðir. Rappstíll Birnis er eitursvalur, letilegur og sljór – nánast eins og hann sé við það að sofna, nenni varla að reyna á raddböndin eða opna munninn til að mynda heildstæðar setningar.
Tónleikaflutningurinn var hins vegar kraftmikill og kveikti vel í áhorfendum. Þó að Birnir vinni vissulega með svipaðan gauragang og töffaraskap og aðrir þekktir rapparar dagsins í dag finnst mér vera minni meðvituð karaktersköpun þar en hjá mörgum öðrum, þarna er eitthvað frískandi uppgerðarleysi og hreinskiptni. Félagar Birnis komu svo inn á sviðið með gestainnslög – Huginn, Geisha Cartel og ríkjandi konungur Kópavogsrappsins Herra Hnetusmjör. Þegar Birnir endaði svo á slagaranum „Ekki switcha“ trylltist skarinn og söng með.
Íslenska hip-hopið laðaði alla jafna vel að sér á hátíðinni enda í miklum blóma. Sjálfur ætlaði ég ekki að sjá Sturla Atlas og 101 Boys-gengið þegar þeir spiluðu í Gimli á laugardeginum enda hafa þeir oftar en ekki verið flatir og allt að því falskir þegar ég hef séð þá á tónleikum. En í þetta skiptið voru þeir virkilega á tánum. Lúkkið var að vanda eins og klippt úr myndaþætti um post-sovéska rave-senu í „edgy“ tískutímariti, slagararnir á sínum stað, auto-tune-ið í botni en mest áhersla lögð á að telja vel inn í „bassa-droppin“ og hoppa svo um. Hápunktinum náði settið þegar stór hluti karlkynsrapparanna í hip-hop senunni mættu og tóku sumarslagarann Joey Cypher sem margir þekkja sem Costco-lagið, enda er myndbandið tekið upp í bandarísku verslunarkeðjunni.
Það var mikil upplifun að sjá danstónlistar-rokkstjörnurnar í The Prodigy á stóra sviðinu á Valbjarnarvelli á laugardeginum en kannski helst vegna allrar hinnar karlmannlegu árásarhneigðar sem fékk heilbrigða útrás í hinum fjölmörgu „mosh-pittum“ fyrir framan sviðið. Hálfnaktir vöðvastæltir karlmenn skullu saman í rigningunni við hvatningu frá söngvurunum Maxim og Keith sem virðast vera staddir í tímaleysi, fastir í árinu 1995, með sömu klippinguna, sömu tónlistina og næstum því sömu orkuna. Allt var þetta dáleiðandi sjónarspil – óháð tónlistinni.
Af atriðum á stóra sviðinu stóðu hins vegar Anderson .Paak og hljómsveit hans The Free Nationals upp úr með sínu leikandi sálarfulla fönk-hip-hopi á sunnudeginum. Brandon Paak Anderson er afrísk-kóreskur Bandaríkjamaður sem vakti fyrst athygli rappmógúlsins Dr. Dre sem trommari en sló svo algjörlega í gegn með plötunni Malibu í fyrra. Anderson þessi er eiginlega ofurmannlegt hæfileikabúnt, á tónleikunum dansaði hann og hoppaði um sviðið af íþróttamannslegum krafti sem minnti meira á James Brown upp á sitt besta frekar en nokkurn samtímarappara. Hann söng og rappaði og tók svo dágóða skorpu þar sem hann trommaði og spítti rímum um leið. Gríðarlega þétt fjögurra manna hljómsveitin fylgdi honum svo hvert fótmál í hverjum slagara á eftir öðrum og skapaði þannig virkilega eftirminnilega og lundar-léttandi tónleika.