fbpx
Fimmtudagur 17.júlí 2025

Framtíðin er í austur

East of my Youth spilar á Sónar og SXSW – Kvikmyndaleg raftónlist og poppballöður

Kristján Guðjónsson
Miðvikudaginn 17. febrúar 2016 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„I was halfway across America, at the dividing line between the East of my youth and the West of my future,“ skrifaði bandaríska bítskáldið Jack Kerouac í vegabók sinni, On the Road, fyrir sex áratugum síðan.

„Þessi setning lýsti svo vel þeim stað sem við vorum á þegar við stofnuðum hljómsveitina, á mörkum æskunnar og þess sem tekur við,“ segja Herdís Stefánsdóttir og Thelma Marín Jónsdóttir, meðlimir rafpopptríósins East of my Youth.

Hljómsveitin hefur vakið nokkra athygli að undanförnu, eða allt frá því að hún gaf út sitt fyrsta myndband á netinu við lagið Lemonstars fyrir einu og hálfu ári. Síðan þá hefur sveitin vaxið og þroskast og stefnir á sína fyrstu útgáfu á árinu auk þess sem hún mun leika á einni þekktustu bransahátíð tónlistarheimsins, South by southwest (SXSW), sem fer fram í Austin í Texas um miðjan mars, og á Red Bull Music Academy-sviðinu á Sónar Reykjavík um næstu helgi.

Lögfræðin dró fram músíkina

Ég hef aldrei samið jafn mikið á ævinni og þetta eina ár sem ég var í lögfræðinni.

„Ég hef verið að spila tónlist frá því ég var lítil. Ég æfði á píanó og svoleiðis en án þess að vera að pæla mikið í því,“ segir Herdís, sem sér um hljóðvinnslu og ýmiss konar hljóðfæraleik í East of my Youth.

„En eftir menntaskóla fór ég í lögfræði. Mér fannst það svo leiðinlegt að það dró fram í mér alla þá músík sem ég átti til. Ég hef aldrei samið jafn mikið á ævinni og þetta eina ár sem ég var í lögfræðinni. Þá ákvað ég að sækja um í tónsmíðar í Listaháskóla Íslands og komst inn. Eftir Listaháskólann fór ég svo og tók mastersgráðu í kvikmyndatónsmíðum við New York University,“ segir hún.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=DneR1-3_4-c?rel=0&hd=1&wmode=transparent]

Söngkonan Thelma Marín lærði aftur á móti leiklist í LHÍ og hefur starfað á þeim vettvangi, lék meðal annars Lísu í Undralandi með Leikfélagi Akureyrar í fyrra. „Ég spilaði á píanó þegar ég var yngri en hef líka alltaf verið að semja melódíur og svona. Aðallega hef ég bara haft svo gaman af því að syngja og koma fram,“ segir hún.

Fæddist á djamminu í Berlín

East of my Youth var stofnuð á djamminu í Berlín haustið 2013 og fljótlega hittust Thelma og Herdís og sömdu fyrsta lagið saman, Lemonstars. Herdís kom með tónsmíðina og svo sömdu þær laglínuna í sameiningu.

Það er eiginlega alveg sama hvað maður er að gera, það er alltaf að minnsta kosti ein manneskja einhvers staðar í heiminum sem mun fíla það. Það er pláss fyrir alla.

„Þegar við vorum búnar að semja það ákváðum við að fara alla leið með þetta eina lag, gera almennilegt myndband og pródúsera það eins vel og við gátum á þeim tíma,“ segir Thelma og þær hlæja yfir því hversu mikið þær hafa lært á þessu eina og hálfa ári.

„Ég hafði eiginlega ekkert samið á tölvur áður því ég er með þennan klassíska bakgrunn og hafði meira verið í að skrifa tónverk með nótum,“ segir Herdís.

Sveitinni var í kjölfarið boðið að koma fram á Iceland Airwaves og þá bættist við þriðji meðlimurinn í sveitina, Guðni Einarsson, sem sér um hljóðvinnslu í samstarfi við Herdísi.

Þær segja að viðbrögðin hafi verið framar öllum vonum. „Þótt það séu enn sem komið er ekkert sérstaklega margir, þá er ótrúlega skrýtin tilfinning að hitta fólk sem tengir við tónlistina. Það er eiginlega alveg yndislegt. Það er rosalega merkilegt að hitta fólk sem ber ofboðslega sterkar tilfinningar til lags eins og Lemonstars sem við erum eiginlega orðnar frekar afhuga í dag,“ segir Herdís.

„En það er eitthvað ótrúlega fallegt við þetta. Það er eiginlega alveg sama hvað maður er að gera, það er alltaf að minnsta kosti ein manneskja einhvers staðar í heiminum sem mun fíla það. Það er pláss fyrir alla,“ segir Thelma.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=U8KIQ4yidKw?rel=0&hd=1&wmode=transparent]

Stökkva frekar en að bíða

Þær segja að allt frá byrjun hafi hljómsveitin verið staðráðin í að framkvæma, frekar en að bíða eftir að hlutirnir gerðust. Þau hafi því verið sjálfstæð, hvatvís og dugleg að sækja um að fá að koma fram, þótt þau séu ekki enn komin með sterkt bakland eða sambönd í bransanum.

East of my Youth spilar á einni stærstu tónlistarbransahátíð heims, South-by-Southwest (SXSW) í Austin, Texas, í mars. Yfirleitt komast bönd þar að í gegnum útgáfur eða styrktaraðila, en hljómsveitin er ein örfárra af 9.000 böndum, sem sóttu um að spila í ár, sem var valin til þátttöku.

Þær segja að þetta herbragð hafi því virkað vel fyrir bandið hingað til, en þau eigi það þó til að fara fram úr sjálfum sér og brenna sig örlítið í leiðinni.

„Þegar við spiluðum í beinni á KEXP á Airwaves í fyrra áttum við ekki nóg efni til að fylla dagskrána. Við þurftum að semja lag í vikunni fyrir hátíðina, svo við vorum í rauninni að spila hálfklárað demó sem við höfðum bara æft einu sinni fyrir framan mörg þúsund manns. Það er náttúrlega sturlun,“ segir Herdís.

„Enda kom það bara út eins og það kom út … Það kom kannski ágætlega út miðað við allt saman, en það var margt sem við komumst að þegar við stóðum á sviðinu,“ segir Thelma. „Það var til dæmis ágætt að komast að því að ég get verið mjög fölsk ef ég heyri ekki nógu vel í mér,“ segir hún og hlær. „Ég held samt að til lengri tíma litið vinni þetta viðhorf frekar með okkur en á móti,“ bætir hún við.

Ballöður og rafrænir hljóðheimar

Það eru tvær hliðar á okkur, það er þessi akústíska og melódíska þar sem við semjum lög með því að setjast við píanóið, og svo er það hin hliðin þar sem við erum að búa til stóra rafræna hljóðheima.

Sveitin hefur að stórum hluta verið staðsett á milli landa en stefnir á að sameinast á einum stað á næstunni. Planið er að flytja sig í austur og búa til bækistöðvar á æskuslóðunum í Berlín, en þar hefur Herdís verið búsett að undanförnu og starfað í hljóðveri Jóhanns Jóhannssonar kvikmyndatónskálds.

Í þessu mekka raftónlistarinnar er stefnt á að klára plötu, en Herdís segir þó aldrei að vita nema plöturnar verði tvær ólíkar stuttskífur frekar en ein löng en klofin breiðskífa. „Það eru nefnilega tvær hliðar á okkur, það er þessi akústíska og melódíska þar sem við semjum lög með því að setjast við píanóið …“

„Eiginlega ballöður,“ skýtur Thelma inn í.

„Já, og svo er það hin hliðin þar sem við erum að búa til stóra rafræna hljóðheima. Þar er aðalmálið hljóðin sem við erum að finna, taka upp og búa til. Í þessu upptökuferli erum við að læra svo mikið, bæði á hvor aðra og hvað við viljum gera. Svo hljóðið okkar er að mótast mjög mikið á þessari plötu,“ segir Herdís.

„Það er að gerast mjög náttúrulega hjá okkur að við erum að móta svolítið „cinematískan“ hljóðheim,“ segir Thelma.
„Þetta eru mjög stórar útsetningar, kannski gæti Sinfó koverað þetta,“ bætir Herdís við og hlær.

„Á sama tíma viljum við móta sterka sjónræna framkomu. Við höfum alltaf unnið með sjónrænt efni á tónleikunum og ég myndi eiginlega vilja hafa hverja tónleika sem stóra „cinematíska“ leiksýningu,“ segir Thelma.

East of my Youth spilar á Sónar Reykjavík, föstudaginn 19. febrúar klukkan 20.40.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=okJRdU37Atw?rel=0&hd=1&wmode=transparent]
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Eins og konungur í ríki sínu eftir að hafa lent á karabísku eyjunni – Sjáðu myndirnar

Eins og konungur í ríki sínu eftir að hafa lent á karabísku eyjunni – Sjáðu myndirnar
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Ingibjörg bendir á kaldhæðni örlaganna varðandi eldgosið

Ingibjörg bendir á kaldhæðni örlaganna varðandi eldgosið
Fókus
Fyrir 10 klukkutímum

Obama-hjónin stíga fram í tilfinningaþrungnum hlaðvarpsþætti og ræða skilnaðarorðróminn

Obama-hjónin stíga fram í tilfinningaþrungnum hlaðvarpsþætti og ræða skilnaðarorðróminn
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Erlendir ferðamenn og rútubílstjórar stoppa við Reykjavíkurveginn – Lögreglan biðlar til fólks að hætta þessu

Erlendir ferðamenn og rútubílstjórar stoppa við Reykjavíkurveginn – Lögreglan biðlar til fólks að hætta þessu
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Ótrúlegt myndband af mýgeri í íslenskri sveit – „Bara gleðiefni að fá þetta“

Ótrúlegt myndband af mýgeri í íslenskri sveit – „Bara gleðiefni að fá þetta“
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Liverpool skellir verðmiða á Konate ef hann fer í sumar

Liverpool skellir verðmiða á Konate ef hann fer í sumar