
Greint var frá því seinni hluta síðasta árs að Auðunn hefði í hyggju að opna veitingastað í verslunarkjarnanum í Grímsbæ. Um er að ræða notalegan hverfisstað eins og fram kom í frétt Vísis í september síðastliðnum.
„Konseptið er hverfisstaður, notalegur staður í hverfinu í anda Kaffi Vest og Yndisauka,“ sagði Auðunn við Vísi.
Veitingastaðurinn mun fá nafnið Fossinn og auglýsir Auðunn eftir starfsfólki í hverfisgrúppunni 108 RVK á Facebook. Í færslu sinni segir Auðunn bæði sé leitað að matreiðslufólki og fólki í sal, en ekki er skilyrði að vera búinn með kokkanám.
Hann segir síðan í athugasemd að vonandi verði hægt að opna staðinn í seinni hluta febrúarmánaðar.