Fjallað er um málið í nýrri heimildarmynd á Netflix, Unknown Number: The High School Catfish.
Lauryn Licari og Owen McKenny voru þrettán ára og búsett í Michigan þegar þau byrjuðu saman. Móðir Lauryn, Kendra Licari, og móðir Owen, Jill McKenny, urðu góðar vinkonur og allt lék í lyndi. Tæplega ári eftir að þau byrjuðu saman mætti segja að líf þeirra hafi breyst í hryllingsmynd. Þá fengu þau fyrstu skilaboðin úr óþekktu númeri.
Lauryn fékk skilaboð um að Owen ætlaði að hætta með henni og byrja með annarri stelpu.
„Hæ Lauryn, Owen er að hætta með þér. Hann er ekki lengur hrifinn af þér og hefur ekki verið það í dágóðan tíma. Það er augljóst að hann vill mig. Hann brosir til mín og snertir hár mitt. Við erum bæði til í að ríða. Þú ert indæl en ég veit að ég get gefið honum það sem hann vill.“
Skilaboðin voru upphaf að tæplega tveggja ára martröð sem átti bara eftir að versna og ná hápunkti þegar FBI komst að því að það var Kendra, móðir Lauryn, sem var á bak við árásirnar.
Þráhyggja Kendru ágerðist með tímanum og síðustu mánuðina varði hún mörgum klukkutímum á dag í að senda dóttur sinni og kærasta hennar ógeðsleg skilaboð. Hún hvatti dóttur sína til að taka eigið líf og sendi mörg skilaboð af kynferðislegum toga, einnig til Owen, sem sagði í heimildarmyndinni að Kendra hafi alltaf hegðað sér furðulega gagnvart honum. Hann sagði hana ekki hafa látið eins og móður kærustu hans, heldur verið „ofur vingjarnleg“ og gert einkennilega hluti eins og að skera matinn hans fyrir hann.
„Það var eins og hún var að reyna að koma á milli okkar Owen svo við myndum hætta saman,“ sagði Lauryn í heimildarmyndinni. Hún sagðist fá fjölda skilaboða á hverjum degi, minnst sex á dag.
Meðal skilaboðanna sem hún fékk var: „Trash bitch, ekki klæðast leggings lengur, enginn vill sjá flata anórexíu rassinn þinn.“
Lauryn sagði að skilaboðin hafi haft áhrif á sjálfsmynd hennar og hverju hún klæddist í skólanum.
Foreldrar og fjölskyldur Lauryn og Owen tóku sig til saman og reyndu að finna sökudólginn, þau grunaði að hann væri einhver sem þau þekktu. Foreldrar Owen tóku símann af honum á hverju kvöldi og lásu öll skilaboðin, sem voru stundum 50 á dag.
Lögreglan og skólinn blönduðu sér í málið ári eftir að þau parið fékk fyrstu skilaboðin, en ekkert gekk að komast til botns í þessu þrátt fyrir tilraunir þeirra í rúmlega ár.
„Skilaboðin voru svo ruddaleg og ógeðfelld að þau gátu látið 53 ára karlmann roðna,“ sagði skólastjórinn Bill Chillman.
Þetta hafði mikil áhrif á samband Lauryn og Owen, en hann hætti með henni eftir tveggja ára samband. Þau talast ekki við í dag.
Owen vonaði að með því að hætta saman þá myndu skilaboðin hætta, en þau bara versnuðu. Lauryn fékk skilaboð eins og: „Honum finnst þú rusl“ og „Þú ert einskis virði.“
Ekki nóg með það þá sendi móðir hennar, sem Lauryn vissi ekki á þeim tíma að væri sökudólgurinn, að hún ætti að „drepa sig.“
Apríl 2022 óskaði lögreglan eftir aðstoð FBI og komst þá loksins upp um Kendru.
Í heimildarmyndinni er sýnt frá því þegar fulltrúar FBI mættu heim til fjölskyldu Lauryn og spyrja Kendru út í málið, fyrir framan Lauryn.
Kendra reyndi að neita fyrir glæpi sína en viðurkenndi að lokum. Hún var dæmd í fangelsi en var látin laus í ágúst í fyrra á reynslulausn. Hún má ekki hafa samband við dóttur sína.
Lauryn sagðist eiga erfitt með að hafa ekki móður sína í lífi sínu. „Mér líður eins og ég sé ekki ég sjálf þegar ég er ekki í sambandi við móður mína, ég virkilega þarf hana í líf mitt.“
Farið er ítarlega yfir söguna í heimildarmyndinni Unknown Number: The High School Catfish á Netflix.