Fyrri spurningin sneri að stefnumótaforritum á borð við Tinder og Smitten. Hann vildi vita hvort að hann ætti að fylgja kvenkostum sem honum lýst vel á á Instagram ef þær auglýsa prófílinn. „Tíðkast það kannski bara? Er það kannski á Instagram þar sem allt fer fram?“ spyr maðurinn.
Flestar konurnar sem svöruðu sögðust ekki vilja að hver sem er gæti fundið þær á Instagram og sögðust telja að konurnar sem gera þetta séu oftast í leit að fleiri fylgjendum.
Seinni spurningin var útlitstengd.
„Mig langar að spyrja konur hreint út: Ef þið sjáið karlmann á þessum öppum með gleraugu, er það þá bara sjálfkrafa swipe left? Sem sagt ekki málið? Ég er 36 ára karlmaður, einhleypur, engin börn, reyki ekki (og drekk varla), hreyfi mig. Hef það ágætt og lít alls ekkert illa út. Ég er bara mjög nice, þó ég segi sjálfur frá, og er bara alls enginn skíthæll eins og konur virðast vera að tala um að séu á þessum öppum. En, ég er með gleraugu… Ég var bara að pæla hvort gleraugu séu einhver factor hjá konum. Þá ómeðvitað jafnvel.“
Svörin létu ekki á sér standa og sögðu margir hann vera fórnarlamb algrímsins, karlar eru í meirihluta á þessum forritum og að ef þú borgar ekki fyrir þjónustuna þá lendirðu neðst í goggunarröðinni.
„Þú ert eflaust alveg nógu sætur, en það er ástæða fyrir því að Tinder er að pusha boost, Tinder Gold og Tinder Platinum á notendurna sína. Þú ert settur neðarlega í röðina viljandi af algríminu þeirra þar til þú borgar. Svo hjálpar ekki að karlar eru yfirgnæfandi meirihluti notenda þarna“ sagði einn.
Margar konur svöruðu manninum, en hann var einmitt að óska eftir svörum frá þeim.
„Gleraugun trufla ekki neitt, en fara þau þér vel? Sum gleraugu eru bara ekki heillandi, t.d. Dahmer gleraugun eða ef þau eru óhrein. Fyrir mér snýst þetta meira um að sjá hvers konar týpa þú ert á myndunum heldur en endilega hvernig þú lítur út,“ sagði kona sem sagðist nota Smitten.
Önnur tók undir og sagði gleraugun ekki vandamálið:
„Gleraugu eru ekki fyrirstaða, og ekki heldur neinn ákveðinn stíll af gleraugum (eins og önnur nefnir hér að ofan, mér finnst það sem sú kallar „dahmer gleraugu“ eða svona aviator-esque gleraugu mjög flott). En það má vel vera samt að stíllinn sé fráhrindandi fyrir suma og þau segja mikið um týpuna, ég segi það sem fjóreygingur sjálf.“
Svörin voru misjöfn, ein kona sagðist fíla það þegar karlmenn nálgast hana í raunheimum, eins og úti í búð, í sundi, á barnum, strætóskýli eða hvar sem er.
Önnur kona sagðist einmitt ekki fíla það. „Mér myndi finnast það mega krípí ef einhver maður nálgaðist mig í Bónus,“ sagði hún.
32 ára kona deildi sinni skoðun, en hún notaði Tinder um tíma:
„Þá fannst mér bara 2 hlutir skipta máli við profile hjá körlum.
Gæinn er vel til hafður. Hrein föt og bros er nóg. Fannst alveg ótrúlega mikið af körlum með slæmar myndir af sér, greinilega 10 ára gamlar myndir, úr fókus og bara fúlir á svipinn.
Að nefna eða sýna á mynd eitthvað áhugamál. Ég allavega vill helst vita hvort við eigum eitthvað sameiginlegt áður en ég fer að standa í að þurfa að draga upp einhver já/nei svör frá gæjanum.
Svo að þegar match er komið þá að reyna að halda uppi smá samræðum allavega. Internetið er alltaf að kvarta um að konur séu slæmar í svoleiðis en mín reynsla er sú að ég þurfti að halda uppi næstum einhliða samræðum við hvern einasta gæja.“
Fleiri konur tóku undir og sögðu karlmenn mega vanda sig meira við gerð prófílsins.
„Gleraugu eru alls ekki fráhrindandi og gaurar með gleraugu geta verið mjög sexy. Það sem er mest fráhrindandi á myndum fyrir minn smekk er þegar gaurar eru með myndir sem virðast hafa verið teknar fyrir 10+ árum síðan,“ sagði ein.
Ein sagði hvað henni þykir fráhrindandi: „Ég er með eitt instant left-swipe og það er karlmenn sem pósta myndir af sér ber að ofan Kv. Ein 39 ára.“
Hún var ekki sú eina með þessa skoðun:
„Það sem fær mig til að afþakka er ef menn skrifa ekkert um sig, reykingar, berir að ofan myndir, myndir með áfengi og (margar) myndir með fisk. Allar myndirnar af manninum með sólgleraugu, þ.e. engin þar sem andlitið sést að fullu. Allar myndirnar teknar í spegil eða neðan frá og mjög óflatterandi.
Maður sem er 40+ og er enn að skrifa að hann viti ekki hverju hann er að leita að og veit ekki hvort hann vill börn eða ekki. Betra að vita hvað maður vill.
Ég svæpa yfirleitt aldrei hægri á þá sem setja short term but long term ok, þar sem ég reikna með að þeir séu bara að leita að Rbb.“
Lestu alla umræðuna á Reddit.