fbpx
Þriðjudagur 02.september 2025
Fókus

Eiríkur rifjar upp eigin fordóma – „Það urðu hvörf í viðhorfum mínum“

Fókus
Þriðjudaginn 2. september 2025 16:30

Eiríkur Rögnvaldsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikið er nú rætt um þátt Kastljóss á RÚV í gærkvöldi og þá sérstaklega framgöngu Snorra Mássonar þingmanns Miðflokksins í þættinum. Ræddi þingmaðurinn málefni hinsegin fólks og hefur hann verið gagnrýndur úr ýmsum átttum fyrir orðfæri sitt en einnig fengið stuðning. Einn af þeim sem leggja orð í belg er Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus í íslensku við Háskóla Íslands. Eiríkur gerir það hins vegar á persónulegum nótum í pistli á Facebook. Hann rifjar upp að eins og svo margir af hans kynslóð hafi hann verið með fordóma í garð hinsegin fólks. Það hafi smám saman farið að breytast og hann talið sig lausan við fordóma en svo hafi orðið straumhvörf fyrir tíu árum.

Eiríkur rifjar upp fortíðina:

„Ég er orðinn sjötugur og alinn upp í samfélagi sem vissi varla, og viðurkenndi alls ekki, að samkynhneigð væri til – og að því marki sem það var vitað var hún talin óeðli, enda kölluð „kynvilla“ og „iðkendur“ hennar „kynvillingar“. Þetta var eitthvað sem maður las bara um í blöðum – ég held að ég hafi verið kominn vel á þrítugsaldur þegar ég frétti fyrst af nafngreindu fólki á Íslandi sem væri samkynhneigt og líklega kominn yfir þrítugt þegar ég kynntist fyrst fólki úr þeim hópi. Eftir á hefur svo komið í ljós að ýmis skólasystkini mín á ýmsum tímum – og jafnvel kennarar – voru og eru samkynhneigð en ekkert þeirra var komið út úr skápnum á áttunda áratugnum og þetta hvarflaði ekki að manni á þeim tíma – það var eitthvað svo fjarlægt.“

Dæmigert

Eiríkur segist telja að viðhorf hans á þessum árum hafi ekki verið óalgeng hjá fólki af hans kynslóð. Þau hafi ekki beinlínis litast af andstyggð heldur fremur óbeit í garð samkynhneigðra. Viðhorf hans hafi hins vegar farið að breytast eftir því sem líða fór á síðustu öld og þá meðfram breytingum í þessum efnum í samfélaginu. Upp úr aldamótunum síðustu taldi Eiríkur sig vera orðin laus við fordómana. Náfrænka hans kom út úr skápnum, hann tók þátt í Gleðigöngunni og fór að styðja starf Samtakanna ’78:

„Samt var ég enn fastur í ýmsum gömlum hugmyndum.“

Árið 2015 urðu hins vegar töluverðar breytingar:

„En það urðu hvörf í viðhorfum mínum fyrir réttum tíu árum, haustið 2015, þegar fyrrverandi nemandi minn, Þorbjörg Þorvaldsdóttir, (verkefnastýra Samtakanna ´78, innsk. DV) fékk mig til þess að setjast í dómnefnd fyrstu nýyrðasamkeppni Samtakanna ´78 með ýmsu góðu fólki – þar á meðal var Ugla Stefanía (Kristjönudóttir Jónsdóttir, innsk. DV).

Eiríkur segir að í þessari nefnd hafi hann fyrst áttað sig á að kyn, kynvitund, kyngervi, kynhneigð og kyntjáning fólks gæti verið margfalt fjölbreyttari en hann hafði haft hugmynd um. Hann hafi einnig kynnst fólki sem hafi mátt reyna á eigin skinni að tilvist þess var dregin í efa og það sem fyrir þeim var raunveruleiki þeirra sjálfra var kallað óeðli, misskilningur, sýniþörf, tiktúrur – eða hugmyndafræði.

Karllægni

Seinna þetta sama haust, 2015, var Eiríkur viðstaddur samkomu Mímis félags íslenskunema í Háskóla Íslands og segir að þar hafi verið talað um hinsegin fólk og íslenska tungu:

„Það var ekki síður opinberun fyrir mig sem málfræðing, sem fram að því hafði gefið lítið fyrir tal um meinta karllægni tungumálsins og fundist tilraunir til að draga úr henni byggðar á misskilningi – og fornafnið „hán“ óþarft og ljótt. En þarna áttaði ég mig á því hvað það er sárt að finnast sér vera úthýst úr sínu eigin móðurmáli – hvað það skiptir miklu máli fyrir hinsegin og kynsegin fólk – eins og auðvitað okkur hin – að þau sjálf og ástvinir þeirra geti talað um þau á þann hátt og með þeim orðum sem þau sjálf kjósa.“

Eiríkur segir að lokum að þessi reynsla hans fyrir 10 árum hafi gert hann víðsýnni og umburðarlyndari og beinir loks orðum sínum að Snorra Mássyni:

„Þess vegna finnst mér ömurlegt, og í raun þyngra en tárum taki, að heyra unga menn í forréttindahópi halda því fram að raunveruleiki fólks sé bara hugmyndafræði. Því fylgja ómældir erfiðleikar af ýmsu tagi að koma út sem trans og fáránlegt að halda – eða halda því fram – að fólk geri það að gamni sínu, bara si svona. Þótt ég þekki ekki margt trans fólk þekki ég ýmis sem eiga trans börn á ýmsum aldri og veit að þau eru skelfingu lostin yfir þróuninni og hafa miklar áhyggjur af framtíð barna sinna. Reynum bara að vera almennilegar manneskjur og leyfa fólki að vera eins og það er.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt börn fyrir tíma samfélagsmiðla“

„Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt börn fyrir tíma samfélagsmiðla“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Í veiði með afa og afa – „Þú ert afi 1 og hann er afi 2“ – Myndband

Í veiði með afa og afa – „Þú ert afi 1 og hann er afi 2“ – Myndband
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hafdís Björg: „Ég týndi mér alveg“

Hafdís Björg: „Ég týndi mér alveg“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Fyrrverandi birti óræð skilaboð eftir að stjörnuparið tilkynnti trúlofunina

Fyrrverandi birti óræð skilaboð eftir að stjörnuparið tilkynnti trúlofunina