Fjölmiðlakonan Hugrún Halldórsdóttir hefur lokið störfum hjá SÝN en hún hefur um tveggja ára skeið staðið vaktina í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni, Greint hefur verið frá því að stjórnendur þáttarins vinsæla í vetur verði þeir Kristófer Helgason, Páll Sævar Guðjónsson og Auðun Georg Ólafsson.
„ Mér hefur alltaf fundist 1. september táknrænn fyrir kaflaskil og því tilvalið að segja ykkur frá því í dag að nýr kafli er að hefjast í þessari bók lífs míns (uppástungur að titli óskast),“ skrifar Hugrún í færslu á Facebook-síðu sinni
Hún segist kveðja Bylgjuna með hlýju.
„Þakklát fyrir einstakt samstarfsfólk, hlustendur og allt sem viðmælendur gáfu af sér í þeim nokkur þúsund viðtölum sem fæddust á þessum tíma. Ég hlakka til að fylla komandi tíma með nýjum litum, fólki og verkefnum. Fyrst á dagskrá er þó síðbúið sumarfrí í september. Þaaaaar á meðal ferð til Madridar þar hjartahleðslustöðin mín er staðsett,“ skrifar fjölmiðlakonan.