Konan skrifar um reynslu sína undir nafninu Juliette Jeffries á Daily Mail, eiginmaður hennar er Stephen.
Þau kynntust á sextugsaldri, bæði búin að missa maka og áttu fullorðin börn.
Juliette segir að með fyrri eiginmanni sínum hafi kynlíf verið feimnismál, þau ræddu hvorki það né fantasíur og var aðeins ein stelling í svefnherberginu: Trúboðinn. Eftir að hann lést skyndilega úr hjartaáfalli gat Juliette ekki ímyndað sér að kynnast öðrum karlmanni fyrr en fimm árum síðar. Þá kynntist hún Stephen og var kynlífið frábært og ævintýragjarnt.
„Stephen hjálpaði mér að uppgötva hlið af mér sem ég vissi ekki að væri til,“ segir Juliette.
Tveimur árum síðar giftust þau og fluttu inn saman. Þá var Juliette orðin 60 ára. Hún var í hlutavinnu en Stephen kominn á eftirlaun.
Juliette rifjar upp þegar Stephen nefndi opið samband fyrst. „Við vorum að stunda kynlíf þegar hann hvíslaði að mér að ég ætti að ímynda mér að hann væri einhver annar. Ég tók þátt í fantasíunni og þetta var spennandi. Eftir á viðurkenndi Stephen að tilhugsunin um mig með einhverjum öðrum kveikti í honum,“ segir Juliette.
„Nokkrum vikum seinna stakk hann upp á því að við myndum opna sambandið, eða allavega ræða það almennilega. Ég hélt í fyrstu að hann væri að grínast og var of hissa til að svara.“
Juliette las um opin sambönd, swing og reynslusögur frá öðrum pörum og endaði með að samþykkja. En þau settu ákveðnar reglur: Fyrst að fantasían snerist um að hann vildi sjá hana með öðrum, þá mátti hann ekki sofa hjá annarri konu. Þau byrjuðu að mæta á swing-klúbba þar sem Juliette svaf hjá öðrum karlmanni. Þau gerðu það tvisvar með nokkurra mánaða millibili, en þá tjáði Stephen henni að hann langaði að prófa líka.
„Mér fannst ég ekki geta sagt nei, því ég var búin að sofa hjá öðrum,“ segir hún.
Hann sagðist vilja sofa hjá annarri konu, en ekki á swing-klúbbi, heldur vildi hann hafa möguleikana opna í næsta fríi hjá þeim.
Juliette viðurkennir að hún hafi orðið afbrýðisöm en ekki sagt neitt.
Hjónin bókuðu ferð til Karíbahafseyja. „Ég bjóst ekki við því að Stephen myndi byrja ferðalagið á því að leita sér að annarri konu, en hann gerði það,“ segir hún.
Stephen kynntist giftri konu, Maggie, og spurði Juliette hvort hann mætti sofa hjá henni. „Hann spurði og ég sagði já, því hvað annað gat ég sagt?“
„Hann gat ekki hætt að brosa þegar hann kom til baka og fór nokkrum sinnum að hitta hana aftur í fríinu. Ég sagði ekkert en mér leið illa og vildi bara fara heim.“
Tvær vikur liðu og þau fóru heim. Juliette vonaðist til að þau gætu bara lokað hjónabandinu aftur og gleymt þessu öllu saman. En þá varpaði Stephen fram sprengju.
„Hann tilkynnti mér að hann væri hrifinn af Maggie og hún honum, og af því að „lífið er svo stutt“ þá vildi hann gefa þessu tækifæri og vera með henni. Ég var í áfalli og gat ekki trúað því að eiginmaður minn væri að fara frá mér fyrir aðra konu.“
Stephen fór til Maggie og var Juliette niðurbrotin heima hjá sér og neitaði að svara símtölum frá honum. „Þremum vikum seinna kom hann aftur heim. Þau höfðu áttað sig á því að þau áttu ekkert sameiginlegt og að hún ætlaði ekki að fara frá eiginmanni sínum.“
Eftir að hafa talað saman, og rifist, ákváðu þau að reyna aftur á hjónabandið, en að hafa það lokað og læst.
„Opið samband hljómar kannski eins og spennandi hugmynd, en það getur eyðilagt sjálfstraust þitt og sambandið,“ segir hún.