Hann segir frá þessu í pistli á Facebook.
„Vinnu minnar vegna geng ég Hafnarstrætið nánast daglega, sem nú um stundir er göngugata að hluta. Tók eftir því í sumar að það gutlaði alltaf vatn upp úr götunni og þurfti ég að tipla á milli pollanna, sem voru um alla götuna, til að komast leiðar minnar. Gerði ég ráð fyrir að lagnir í götunni væru bilaðar,“ segir hann.
„Þar sem ekkert breyttist þegar leið á sumarið og ég kom alltaf votur um fæturna í vinnuna ákvað ég að athuga þetta sinnuleysi starfsmanna Veitna. Kom þá í ljós að þetta, sem ég hélt að væri bilaðar lagnir, reyndist vera gosbrunnur, og að auki stórkostlegt listaverk að mati sérfræðinga, eiginlega á pari við Trevi-gosbrunninn í Róm. Fékk að vita að smíði hans hefði kostað minna en leikskólinn Brákarborg og létti mér mjög við það.“
Orð Brynjars um listaverkið hafa slegið í gegn og hafa margir gaman að þessu.
Einn segir að um sé að ræða snobbmenningu á Íslandi sem er „skrumskæling, sýndarmennska og yfirborðsleikur sem á að fela menningarlega fátækt og innri tómið sem ríkir meðal elítunnar.“