Ein kona leitaði til meðlima til að spyrja hvort þeim þætti hún hafa borgað of mikið.
„Er bara eðlilegt að borga 44.000 krónur fyrir klippingu (ekki ný lína eða neitt, bara laga enda) litun í rót, og strípur?“
Yfir 200 manns hafa brugðist við færslunni og um 140 athugasemdir hafa verið ritaðar þegar fréttin er skrifuð.
Margir voru mjög hissa á verðinu og fannst þetta of dýrt. En svo bentu sumir konunni á að best sé að skoða verðskrá eða spyrja viðkomandi svo maður viti hvað maður sé að fara að borga.
„Nei. Borgaði 35 þúsund fyrir svipað um daginn. Fer aldrei aftur á þá stofu. Er ennþá í sjokki,“ sagði ein.
„Verðlag á Íslandi er orðið eitthvað illa skakkt,“ sagði annar.
„Eitthvað bogið við þetta,“ sagði einn og annar tók undir: „Nei alls ekki. Þvílíkt okur!“
„Ég myndi spyrja um verð áður en ég léti framkvæma, þá veistu hvað þú þarft að borga,“ sagði einn. Einnig er hægt að skoða verðskrá áður en er pantað tíma.
Aðrir sögðu verðið í takt við vinnuna, það þurfi að gera ráð fyrir efniskostnaði, húsnæðiskostnaði og öðrum launatengdum gjöldum, og að fólk kippi sér ekki upp við að borga sömu upphæð fyrir aðra iðnaðarþjónustu, eins og pípara, en þegar kemur að hárgreiðslufólki sé sagan önnur.
„Ég er með sítt hár og fæ mér strípur og klippingu og borga um 35 þúsund krónur fyrir (er oftast í sirka þrjár klukkustundir en hef verið lengur) og finnst það bara allt í lagi verð. Efnin sem eru notuð eru dýr og tíminn sem fer í mitt hár er langur. Ég hef fengið pípara heim til mín sem var í minna en 15 mínútur að laga og það kostaði 32 þúsund krónur,“ sagði ein.
Annar tók í sama streng og sagði:
„Hvað vildurðu borga?
Þú ert að greiða fyrir vinnu, efniskostnað. Tala allir um okur hér eins og vanalega. En tala með rassgatinu.
Hárgreiðslunám er 3 ára iðnnám. Lögverndað.
Yfirleitt er fólk […] að leigja stólinn. Þarf borga vask, efniskostnað, áhöld, slitna mjög fljótt og eru ekki ódýr. Svo á viðkomandi eftir greiða sér laun og greiða launatengd gjöld.“
Ljóst er að fólk skiptist í fylkingar þegar kemur að verðlagningu á hárgreiðslustofum en af þeim sem skrifuðu við færsluna fannst meirihlutanum þetta of dýrt. „Rán um hábjartan dag,“ sagði einn meðlimur.