fbpx
Þriðjudagur 19.ágúst 2025
Fókus

„Ég væri ekki þar sem ég er í dag ef ég hefði ekki kynnst konunni minni“

Fókus
Þriðjudaginn 19. ágúst 2025 11:50

Geir Ólafs - Mynd/Arnþór Birkisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Geir Ólafsson söngvari segir það hafa verið stórmerkilega lífsreynslu að syngja einsöng fyrir Vladimir Pútín Rússlandsforseta. Geir, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir í þættinum sögu af því þegar hann var fenginn til að syngja á tónleikum sem voru sýndir beint í ríkissjónvarpi Kólumbíu. Eiginkona Geirs er frá Kólumbíu og Geir hefur því verið talsvert í höfuðborginni Bógóta.

„Til að gera langa sögu stutta endaði það með því að það komu sjúkrabílar og sóttu mig og ég var sendur á spítala með háfjallaveiki eftir að hafa tekið háa C-ið í þunna loftinu. Ég var frekar nýlentur í Bógóta, sem er vel á þriðja þúsund metra yfir sjávarmáli og það tekur líkamann yfirleitt nokkra daga að aðlagast. Þetta var stórt tækifæri fyrir mig, sem heppnaðist vel, en þegar maður reynir svona mikið á sig getur það tekið toll og eftir tónleikana var ég bara sendur beint á spítala. Ég gat ekki andað og var mjög máttlaus með höfuðverki og sjóntruflanir og svo var ég kominn í mikinn kvíða út af því í ofanálag. En reynslan af því að fara á spítala í Kólumbíu var frábær. Ég var látinn vera þar í tæpa sólarhringa og þjónustan sem ég fékk var eiginlega bara mögnuð. Það var gengið úr skugga um allt saman og ég var rannsakaður í bak og fyrir og ég þurfti ekki einu sinni að borga nema mjög lítið,” segir Geir, sem segir reynslu sína af Kólumbíu frábæra, þó að á köflum finni hann fyrir fátæktinni:

„Fólkið í Kolombíu er ofboðslega gott og almennilegt og það er tekið frábærlega á móti manni hvert sem maður kemur. Maður sér auðvitað sums staðar hluti þarna sem myndu þykja óeðlilegir hjá okkur og það er á sumum stöðum mikil fátækt. En hugmyndir okkar um Kólombíu og önnur lönd sem við flokkum sem „þriðja heims” lönd eru mjög skakkar. Það má mjög vel færa rök fyrir því að heilbrigðiskerfið þar sé talsvert skilvirkara og betra en hér til dæmis og margt sem er að gerast í landinu er eitthvað sem við gætum tekið okkur til fyrirmyndar.”

Hætt að lítast á blikuna

Geir hefur sungið um allan heim og í þættinum segir Geir sögu af því þegar hann var fenginn til að spila fyrir Vladimir Putin og fleiri valdamenn í höll í Moskvu.

„Þetta var árið 2007 og kom í gegnum Gísla Guðmundsson vin minn og eiganda B&L. Það var viðburður í Rússlandi og ég var fenginn til að syngja og á endanum áttaði ég mig á því að ég var að fara að syngja fyrir Pútín sjálfan. Þegar ég horfði á hann sá ég að hann er á endanum bara manneskja eins og við hin. En ég held að ég hafi gengið í gegnum svona 50 dyr og mér var alveg hætt að lítast á blikuna þegar ég var búinn að fara í gegnum helminginn af dyrunum. En ég náði að halda ró minni af því að ég var með fleiri Íslendingum þarna. Ég er nógu kvíðinn fyrir, en hjartslátturinn rauk upp þegar ég var að fara að byrja að syngja og horfði á Putin og félaga hans fyrir framan mig þunga á brún. En svo fór ég að syngja „My Way“ og þá byrjaði brosið að koma á varirnar og og það létti yfir hópnum. Eftir á að hyggja var þetta mjög skemmtileg reynsla og ég er innilega þakklátur fyrir að hafa fengið að koma svona víða fram sem söngvari.“

Hefur lengi glímt við kvíða

Geir segist hafa glímt við kvíðaröskun allt frá því að hann var lítið barn, en er þakklátur fyrir þann stað sem hann er á í dag.

„Ég hef verið mikill kvíðasjúklingur alveg síðan ég var barn. Þetta er líklega sambland af erfðum og umhverfinu, en það má alveg segja að ég sé í meistaradeildinni í kvíðaröskun. Ég man eftir fyrstu kvíðaköstunum mínum strax þegar ég var sex ára og þá fékk ég sennilega ekki þá hjálp sem ég hefði þurft á að halda. Að fá kvíðakast er eitt það óþægilegasta sem maður getur upplifað, en mitt stærsta verkefni er að vera ekki hræddur við þetta þegar það kemur. En það sem er kannski erfiðast núna er félagsfælnin. Ég fæ oft vanlíðan og einkenni þegar ég er í margmenni og þarf að passa mig þegar ég kem fram og syng. Þá er ég ekki of nálægt fólkinu og undirbý mig vel og er yfirleitt með einhverjum sem ég treysti. En almennt er ég ekki mikið í margmenni og þegar ég fer í bíó verð ég að vera í sæti nálægt útganginum svo dæmi sé tekið. Það verður auðvitað lýjandi að glíma við svona lagað í langan tíma. En ég er búinn að sætta mig við að þurfa reglulega að leita mér læknishjálpar út af þessu og er þakklátur fyrir þann stað sem ég er á í dag.”

Neikvæð stemning

Geir segist með árunum hafa lært að tileinka sér auðmýkt og þakklæti og að hann geri sitt besta til að setja sig í spor annarra. Honum finnst stemmningin á köflum vera full neikvæð á Íslandi.

„Það er alltaf einhver að gagnrýna einhvern og svo kemur einhver annar og gagnrýnir þann fyrir að vera að gagnrýna og þetta endar bara eins og hver önnur hringavitleysa. Það skilar engu að vera stanslaust með neikvæðar skoðanir á öðru fólki. Það lagar mjög mörg vandamál að vera ekki alltaf með skoðanir á öllu saman og læra að anda í magann áður en maður hefur eitthvað til málanna að leggja. Skoðanir og gagnrýni kalla oft bara á fleiri skoðanir og meiri gagnrýni. Þetta er fámennt land sem við búum í og við hljótum að geta gert betur í að koma vel fram við hvort annað og róað okkur í að vera að segja eitthvað neikvætt um náungann,“ segir Geir og heldur áfram:

„Maður hefur ekkert leyfi til að setja sig á háan hest og þykjast betri en annað fólk. Besta leiðin til að ná til fólks er að vera hógvær, koma vel fram við náungann og draga úr dómhörku. Það eru allir að gera sitt besta og maður veit aldrei hvað fólk er að ganga í gegnum. Maður má ekki sofna á verðinum og láta hrokann koma aftan að sér. Ég minni mig alla daga á að vera þakklátur fyrir konuna mína og dóttur mína. Ég væri ekki þar sem ég er í dag ef ég hefði ekki kynnst konunni minni og hún er það besta sem hefur komið fyrir mig. Ég er líka gríðarlega þakklátur fyrir tækifærin sem ég fæ í tónlist, fjölskylduna mína og reyni að minna mig alla daga á að vera auðmjúkur og þakklátur.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Geir og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

María Sigrún á batavegi en enn er töluvert eftir – „Ég hlakka svo til að geta beygt bæði hnén aftur“

María Sigrún á batavegi en enn er töluvert eftir – „Ég hlakka svo til að geta beygt bæði hnén aftur“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem gruna karlinn um framhjáhald ráða mig til að leiða hann í gildru“

„Konur sem gruna karlinn um framhjáhald ráða mig til að leiða hann í gildru“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Slúðra enn saman um sinn fyrrverandi Brad Pitt – „Hvernig er annað hægt?“

Slúðra enn saman um sinn fyrrverandi Brad Pitt – „Hvernig er annað hægt?“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Tilætlunarsöm dóttir gerir ráð fyrir að amman passi barnabörnin allar helgar – Á meðan er pabbinn stikkfrír

Tilætlunarsöm dóttir gerir ráð fyrir að amman passi barnabörnin allar helgar – Á meðan er pabbinn stikkfrír
Fókus
Fyrir 1 viku

Er Trump að takast að losna við frægustu spjallþáttastjórnendur Bandaríkjanna?

Er Trump að takast að losna við frægustu spjallþáttastjórnendur Bandaríkjanna?
Fókus
Fyrir 1 viku

Stóri dagurinn hjá Söru í dag – „Ég sagði næstum engum frá því“

Stóri dagurinn hjá Söru í dag – „Ég sagði næstum engum frá því“