Vitringarnir 3, sem tónlistarmennirnir Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Friðrik Ómar Hjörleifsson og Jógvan Hansen skipa, eru mættir aftur til leiks, annað árið í röð með jólatónleika sína.
Þremenningarnir héldu fjölda tónleika í Hörpu og Hofi í fyrra og var uppselt á þá flesta. Reyndar er ekki um eiginlega tónleika að ræða heldur miklu frekar jólaskemmtun fyrir flesta aldurshópa þar sem félagarnir láta allt flakka og gera óspart grín að sjálfum sér með fullt af tónlist, jóla sem og annarri, inn á milli.
Í ár skelltu vinirnir sér til Færeyja í hópefli fyrir jólavertíðina, en eins og flestir vita er Jógvan Færeyringur.
„Velkomnir í hópefli Vitringana þrjá í Costa Del Færeyjar, í dag erum við að fara í grindhvaladráp,“ tilkynnir Jógvan.
Það reynist þó aðeins grín og fara strákarnir og hitta færeysku þjóðdansagrúbbuna þar sem Eyþór Ingi uppgötvar leynda hæfileika og Friðrik Ómar kemst á séns. Það er spurning hvort Jógvan hafi einn yfirgefið Færeyjar.
Sjón er sögu ríkari.