Kona leitar ráða hjá rithöfundinum Jane Green sem svarar lesendabréfum fyrir DailyMail. Við gefum henni orðið.
„Ég er tiltölulega nýkomin á fertugsaldurinn og hef verið í einhver ár í ofþyngd og átt mjög erfitt með að léttast. Ég ákvað að byrja á Ozempic, þó eiginmanni mínum hafi ekki litist vel á það, hann hafði áhyggjur af aukaverkunum.
Hann hefur alltaf látið mér líða eins og ég sé falleg, líka þegar ég var sem þyngst. Þegar ég sagði honum að ég ætlaði að byrja á Ozempic sagðist hann elska mig alveg eins og ég er og að ég þyrfti ekki að breyta mér. En ég var að gera þetta fyrir mig, ekki hann.“
Konan byrjaði þess vegna á Ozempic og nú er ár liðið.
„Ég hef misst næstum helming líkamsþyngdar minnar. En ókosturinn er öll lausa húðin sem er eftir og brjóstin mín hafa minnkað og orðin slöpp.
Ég hef tekið eftir að því léttari sem ég verð, því minni áhuga hefur eiginmaður minn á mér. Við höfum ekki stundað kynlíf í mánuð.
Ég spurði hann loksins út í þetta í dag og hann sagði: „Ég laðast ekki lengur að þér“, og að hann verður sorgmæddur að sjá „slappan“ líkama minn. Hann sagði að hann elskaði mjúka líkama minn áður en finnst ég ekki lengur kynþokkafull.“
Konan er niðurbrotin. „Mér líður svo vel að vera búin að léttast, þó ég sé með alla þessa lausu húð. Ég er viss um að hún fari á endanum. Ætti ég að reyna að kveikja aftur neistann hjá okkur, eða þýðir svar eiginmanns míns að hjónabandi okkar sé lokið?“
„Þú hefur gengið í gegnum stórkostlega umbreytingu og átt hrós skilið. Það er sárt að fá ekki stuðning frá maka sem ætti að vera þinn helsti bakhjarl,“ segir hún.
Hún segir að orð eiginmannsins séu særandi og að hann virðist vera óöruggur um nýju ímynd eiginkonunnar. „Hann bregst við með því að draga sig til baka. Þetta snýst ekki um líkama þinn, heldur hans eigið óöryggi.“
Jane segir að þau þurfi að tala saman og helst fara í pararáðgjöf ef þau ætla að ná að vinna úr þessu.
„Þú átt skilið að vera með einhverjum sem fagnar þér, en ekki einhverjum sem gerir lítið úr þér.“