Osbourne fjölskyldan var sameinuð í gær þegar þau ásamt tugþúsundum aðdáenda komu saman á götum Birmingham í Bretlandi í gær til að votta myrkraprinsinum og rokkgoðsögninni Ozzy Osbourne virðingu sína og fylgja honum síðasta spölinn. Útförin fer fram í kyrrþey í dag.
Sharon Osbourne, börnin hennar Jack, Kelly og Aimee, og stjúpsonur hennar Louis kvöddu þungarokksgoðsögnina.
Hver meðlimur fjölskyldunnar bar skart með tilvísun í Ozzy. Sharon, 72 ára, bar giftingarhring Ozzy í keðju um hálsinn. Hjónin voru gift í 43 ár.
Jack, 39 ára, heiðraði föður sinn með lítilli silfurkrossnælu á bindinu. Nælan vísar til silfurkrossmena Ozzy sem voru hluti af rokkaraútliti hans.
Kelly, 40 ára, bar sólgleraugu með kringlóttum vírramma, sem einnig var einkennandi stíll Ozzy.
Aimee, 41 árs, bar leðurblökunælu á svörtum jakkanum. Söngvari Black Sabbath beit höfuðið af alvöru leðurblöku árið 1982 á tónleikum, í þeirri trú að það væri leikfangadýr.
Louis, sem er sonur Ozzy og fyrri eiginkonu hans, Thelma Riley, heiðraði arfleifð föður síns með því að klæðast fjólubláu bindi með táknum af hauskúpum og beinum. Svartur og fjólublár voru litirnir sem mest einkenndu hljómsveit Ozzys.
Unnusti Kellys, Sid Wilson, og tveggja ára gamall sonur þeirra, Sidney, voru einnig viðstaddir útförina.
Dóttir Ozzys, Jessica, 45 ára, og kjörsonur hans, Elliot Kingsley, bæði úr fyrra hjónabandi hans, virtust ekki vera viðstödd athöfnina.
Fjölskylda Ozzy tilkynnti andlát hans síðastliðinn þriðjudag. Ozzy, sem þjáðist af Parkinsonsveiki og öðrum kvillum, gerði útfararóskir sínar skýrar áður en hann lést.
„Ég vil ganga úr skugga um að þetta sé hátíð, ekki vesen,“ sagði hann í dálki sínum í The Times of London árið 2011.
Tveimur dögum fyrir útförina greindi People frá því að Sharon væri harmi slegin eftir andlát eiginmanns síns. „Allir eru að hugsa um hana,“ sagði heimildarmaður við miðilinn. „Hún hefur verið kletturinn í þessari fjölskyldu í áratugi og nú er komið að henni að vera haldið uppi.“