Tónlistarhátíðinni Rubicon í Bratislava, höfuðborg Slóvakíu, hefur verið aflýst. Fjöldi styrktaraðila dró sig út úr verkefninu vegna rapparans Kanye West sem átti að koma þar fram.
Viðburðurinn átti að fara fram þann 20. júlí næstkomandi. Þar áttu meðal annars að koma fram Sheck Wes, Ken Carson, Offset og Voyage. Það var hins vegar fyrirhuguð viðvera Kanye West sem fór fyrir brjóstið á mörgum styrktaraðilum.
Hegðun Kanye West, sem kallar sig nú Ye, á undanförnum mánuðum og árum hefur ekki verið til eftirbreytni. Meðal annars hefur hann gefið út lag sem vegsamar Adolf Hitler. Var meðal annars klippa úr ræðu Hitler frá árinu 1935.
Lagið, sem var gefið út í vor, hefur meðal annars verið bannað í Þýskalandi. Í Slóvakíu hafa viðbrögð við því verið mjög neikvæð en um 100 þúsund Slóvakar fórust í hildarleiknum sem Hitler hrundi af stað í Evrópu á fyrri hluta síðustu aldar.
Þúsundir skrifuðu undir undirskriftalista til þess að mótmæla komu Kanye West á tónlistarhátíðina. Var hún sögð móðgun við fórnarlömb nasista.
Þá drógu margir styrktaraðilar sig út úr verkefninu sem kippti fjárhagslegum grundvelli undan hátíðinni. Var henni að lokum aflýst.