fbpx
Þriðjudagur 01.júlí 2025
Fókus

Steingerður leitaði til spákvenna sem reyndist versta tímasóun – „Stundum yrði lífið léttbærara með þeirri vitneskju og stundum erfiðara“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 1. júlí 2025 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steingerður Steinarsdóttir, ritstjóri Lifðu núna og rit- og kynningarstjóri Samhjálpar segist hafa smitast sem unglingur og ung kona af því að til væri fólk sem sæi fram í tímann. Hún hafi því oft farið til spákonu, sem reyndist hin versta tímasóun í öllum tilvikum.

„Eitt hið fyrsta sem gerði mér ljóst að sumar spákonur stunduðu varla meira en getgátur  var sú staðreynd að þær gátu ekki látið nafnið mitt vera. Ég heiti Steingerður og engum dettur í hug að foreldrar með fullu viti eða að minnsta kosti með snefil af ást og umhyggju fyrir unganum sínum skíri barnið sitt öðru eins nafni. Þess vegna kom ævinlega að þeim tímapunkti í spánni að þær töluðu um konuna sem ég væri skírð eftir.“

Segir Steingerður að spákonurnar hafi oftast sagt að um væri að ræða ömmu hennar, eða frænku. Konunni lýstu þær og töldu sig sjá lágvaxna konu í peysufötum eða upphlut. Steingerður segir nafngjöf sína hins vegar algerlega út í loftið og komna til vegna þess að móður hennar fannst nafnið fallegt.

„Í okkar ætt er því engin önnur Steingerður og er frændi minn þó kominn með ættartréð aftur að árinu 452 fyrir krist. Í minni ætt er sömuleiðis leitun að lágvöxnum konum þannig að það er algjör ráðgáta hver þessi lágvaxna peysufatapía sem stundum klæðist upphlut er,“ segir Steingerður í hnyttnum pistli sínum á Lifðu núna.

Ástin og barneignir

Þegar kom að ástinni og barneignum stóð ekki heldur á spádómum, sem engir hafa þó ræst.

„Ein spákona sem ég fór til sá mann á jeppa sem myndi heilla mig upp úr skónum og það svo mjög að ég yfirgæfi eiginmanninn fyrir hann. Ég hangi nú með þeim sama enn en hann er búinn að kaupa sér gamlan jeppa. Kannski sá spádómur hafi þar með ræst. Ein spáði mér fimm börnum. Þau eru tvö og ekkert bólar á einu enn. Að vísu á maður alltaf að líta þetta jákvæðum augum þannig að kannski taldi hún gæludýrin með, kettina mína og hundinn með en þá ættu börnin mín að vera níu og þar af sjö látin.“

Starfsframinn

Spákonurnar spáðu einnig fyrir um starfsframa Steingerðar, og má segja að þar hafi þeim ratast að hluta á rétta spá þó Steingerður telji fram. Hún starfar eins og áður segir fyrir Samhjálp, og hefur einnig kennt hjá Iðan fræðslusetur, og einnig er Steingerður lærður leiðsögumaður, segja má því að þar sem kennslustarfið komið fram.

„Ég kættist auðvitað ógurlega þegar ein spáði mér frægð og frama, önnur sá glæstan feril í stjórnmálum, sú þriðja sá að ég myndi ævinlega vera í hjálparstarfi og láta gott af mér leiða á mörgum sviðum. Mér var líka sagt að ég væri kennari í eðli mínu og fyrr eða síðar myndi ég fara að kenna börnum og eignast þakkláta nemendur sem myndu hugsa vel um mig í ellinni. Falleg framtíðarsýn en það er þá ekki seinna vænna en venda sínu kvæði í kross,“ segir Steingerður, en bætir við að ef allt þetta eigi að rætast, sé henni ekki viss um að henni endist ævin til að framkvæma allar spárnar.

„Margar spákonur byrjuðu á að lýsa persónu minni og ég verð að játa að þar gerðu þær mikið gagn. Því auðvitað sáu þær hvílík mannkostamanneskja ég væri og alla þessa gífurlegu hæfileika sem ég hafði til að bera. Það voru notalega smyrsl á sárin fyrir ungling með fremur lélega sjálfsmynd. Þegar þær tóku að lýsa fjölskyldu minni fór hins vegar að versna í því, ég átti allt frá einu upp í sjö systkini. Nokkrar sáu yndislegan bróður sem myndi styðja mig allt lífið. Ég á fjórar systur sem vissulega hafa allar reynst mér dásamlega vel en bróðirinn góði er ekki til.“

Steingerður segist ekki lengur fara til spákvenna eða miðla og að hún sé alveg hætt að trúa að líf okkar sé markað fyrirfram af öðru en þeim eðlisgáfum sem okkur voru gefnar. 

„Við verðum að vinna úr þeim aðstæðum sem koma upp eftir bestu getu og hvert framhaldið verður ræðst af hvaða viðhorf við tileinkum okkur. Enginn er fæddur til að ná langt, verða ríkur, frægur eða einmitt öfugt við þetta. Allir hafa í sér neista sem geta orðið að báli og allir einhverja tilhneigingu til sjálfseyðileggingar. Víst væri það gaman að vita nákvæmlega hvar maður væri staddur eftir tíu ár og í hvernig aðstæðum. Stundum yrði lífið léttbærara með þeirri vitneskju og stundum erfiðara.“

Pistill Steingerðar má lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Vikan á Instagram – Ber að ofan í „Sexico“

Vikan á Instagram – Ber að ofan í „Sexico“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Málið sem skók Pólland: Morðinginn afhjúpaði sig óvart í skáldsögu

Málið sem skók Pólland: Morðinginn afhjúpaði sig óvart í skáldsögu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tók gjöfina til baka þegar hún heyrði hvað vinkonan sagði

Tók gjöfina til baka þegar hún heyrði hvað vinkonan sagði
Fókus
Fyrir 4 dögum

Harmsaga eftirsóttu fyrirsætunnar – Virtist lifa lúxuslífi en býr nú á götunni

Harmsaga eftirsóttu fyrirsætunnar – Virtist lifa lúxuslífi en býr nú á götunni
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Það er erfitt að elska einhvern og vera langt í burtu frá honum“

„Það er erfitt að elska einhvern og vera langt í burtu frá honum“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Neitaði fyrst að klæðast nammi G-strengnum en samþykkti það fyrir þessa upphæð

Neitaði fyrst að klæðast nammi G-strengnum en samþykkti það fyrir þessa upphæð