

Jackass stjarnan og Íslandsvinurinn Bam Margera þarf að greiða fyrrverandi unnustu sinni Nikki Boyd 2500 dollara á mánuði í meðlag með átta ára gömlum syni þeirra. Það gera um 315 þúsund krónur.
Margera og Boyd „giftust“ á Íslandi árið 2013 með stórri veislu í Hafnarhúsinu sem var mikið fjallað um í fjölmiðlum. Síðan þá hefur Margera glímt við fíkn og andlega erfiðleika. Árið 2021 slitu þau samvistum.
Margera taldi giftinguna vera ólöglega og vann mál gegn Boyd fyrir dómstólum. Það er vegna þess að engum löglegum pappírum var skilað inn til sýslumanns eftir athöfnina.
Eins og segir í frétt TMZ þá krafðist Boyd þess að Margera greiddi henni 15 þúsund dollara í mánaðarlegt meðlag, það er tæpa 1,9 milljón króna. En heildarverðmæti eigna hans eru metin á 55 milljónir dollara, það er tæpa 7 milljarða króna.
Margera og Boyd sættust hins vegar á fyrrnefnda upphæð. Margera segist vera breyttur maður í dag en hann giftist fyrirsætunni Dannii Marie árið 2024.