fbpx
Fimmtudagur 25.desember 2025
Fókus

Starfsfólkið á hótelinu hélt að Lexi væri að grínast – „Ég varð auðvitað lífhræddur og það bætti ekki úr skák að vera í stöðunni sem ég var í“

Fókus
Fimmtudaginn 25. desember 2025 10:30

Lexi Picasso. Skjáskot/YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alex Þór Jónsson, betur þekktur sem Lexi Picasso, hefur gjörbreytt lífi sínu eftir að hafa lent í alvarlegum mænuskaða. Lexi, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, lýsir í þættinum atburðarrásinni sem átti sér stað þegar hann festist í Kenya í hjólastól í miðjum heimsfaraldri.

„Ég fékk símhringingu frá utanríkisráðuneytinu þar sem mér var sagt að ég væri bara fastur og það væri ekki mikið hægt að gera að svo stöddu. Ég varð auðvitað lífhræddur og það bætti ekki úr skák að vera í stöðunni sem ég var í. Þarna er ég allt í einu fastur í stórborg í Afríku í hjólastól og þarf bara að finna út úr hlutunum. En ég tók bara einhverja djúpstæða ákvörðun um að ég ætlaði að koma mér úr þessum hjólastól. Eitt af því sem ég gerði var að kæla mig á hverjum morgni til að draga úr bólgunum. Sundlaugarnar þarna eru ískaldar á morgnana, þannig að ég sagði starfsfólkinu þar sem ég bjó að ná í mig í hjólastólnum á hverjum morgni og henda mér út í laugina klukkan 6:30. Þau héldu fyrst að mér væri ekki alvara, en svo bara gera þau þetta og ég fór smám saman að ná að geta hreyft á mér fæturna ofan í vatninu og var í lauginni fjóra tíma á dag. Sex mánuðum síðar var ég kominn úr þessum helvítis stól og bara kominn með staf í staðinn og gat byrjað að ganga um með hann. Ég ákvað að halda bara í jákvætt hugarfar og gera allt sem ég gæti gert til þess að ná mér í betra stand. Eitt af því sem hjálpaði mér mikið var þegar konan mín tilkynnir mér að hún sé ólétt og það hvatti mig áfram að vita að ég væri að verða faðir.”

Lexi segist hafa lært auðmýkt, þakklæti og jákvætt hugarfar af tímabilinu sem fór í hönd:

„Ég festist á endanum í Kenía í meira en þrjú ár eftir að hafa farið þangað í hjólastól fljótlega eftir að Covid byrjaði. Ég átti að fara í aðgerð vegna mænuskaða, en taldi mig ekki vera í nógu góðu andlegu ástandi til að geta það og ákvað að fara til Kenía þar sem konan mín var. Ég hefði verið rúmliggjandi með enga aðstoð ef ég hefði farið í aðgerðina hérna heima án hennar, þannig að ég ákvað að ég yrði að fara út og ná í hana, svo að hún gæti verið hjá mér ef ég færi svo í aðgerðina. En svo bara fljótlega eftir að ég er kominn út skellur heimsfaraldurinn á. Það lokaðist allt hratt og hlutirnir urðu mjög furðulegir á skömmum tíma,” segir Lexi, sem fer í þættinum yfir aðdragandann að því hvernig hann varð fyrir mænuskaðanum.

„Ég tók tímabil þar sem ég var eins og brjálæðingur að lyfta og æfa og í raun kominn í algjöra ofþjálfun. Ég var að æfa fleiri fleiri klukkutíma á dag og sé það eftir á að ég var í raun að nota æfingarnar til að flýja sjálfan mig og djöflana mína. Svo gerist það á einni æfingunni að ég er að lyfta með stöng yfir höfðinu á mér og var ekki með grifflur og stöngin rann og það duttu 60 kíló aftan á höfuðið á mér. Þegar ég rankaði við mér var bara komin þrenging í mænuna og alls konar vandamál framundan. Þetta er ekki ósvipað því að ég hefði fengið heilablóðfall og missti mestalla hreyfigetu í kjölfarið af þessu.“

„Ég vissi ekki að ég væri að fara í eitt hættulegasta hverfi í Bandaríkjunum“

Lexi kom eins og stormsveipur í íslenskt rapp þegar hann flaug á einkaþyrlu inn á sviðið árið 2016. Lexi hafði þá starfað í Atlanta í Bandaríkjunum, sem sumir kapp höfuðborg rappsins. Þar gerði hann tónlist með 808 Mafia, sem er eitt stærsta lagasmíðateymi rappheimisins.

„Ég tók ákvörðun um að ég ætlaði að vakna einn daginn og geta sagt að ég væri búinn að leggja það mikið á mig að ég gæti gert allt það sem besta rapptónlistarfólk í heimi gæti gert. Ég byrjaði á að leggja mjög hart að mér og setja niður agaða rútínu og vinna eftir henni alla daga. Hægt og rólega fóru góðir hlutir að gerast og ég fékk boð um að koma til Atlanta og ákvað að skella mér bara strax. Ég vissi ekki að ég væri að fara í eitt hættulegasta hverfi í Bandaríkjunum djúpt inni í Atlanta. En þar kemst ég í tengingu með 808 Mafia og byrjaði að vinna með þeim. Þetta var mjög áhugavert allt saman og ég man þegar ég er allt í einu að fara inn í hús þar sem standa fyrir utan tveir menn með AK47 vélbyssur eins og það væri eðlilegasti hlutur í heimi. En á þessum tíma er ég kominn með tengingu inn í heimsklassa pródusenta og menn sem vinna með stærsta tónlistarfólkinu í bransanum. En sumir af þeim voru bara alvöru glæpamenn,” segir Lexi, sem þurfti að fara til Íslands eftir að hafa verið í 90 daga í Bandaríkjunum. Svo var planið að fara aftur út, en þá kom babb í bátinn.

„Ég var kominn með samning og var bara að fara að vinna með þessum mönnum. En þegar ég er að fara inn landganginn er ég stoppaður af 2 mönnum merktum „DEA“ sem tóku mig afsíðis. Fyrst var ég bara að spyrja þá hvort ég myndi missa af fluginu mínu, en þeir segja mér bara að ég sé ekki að fara neitt. Þeir settu möppu fyrir framan mig með öllum sms-unum og videóum og fleiru sem sýndu að ég væri tengdur mönnum sem voru eftirlýstir fyrir alvarlega glæpi. Þeir vildu að ég myndi kjafta frá þeim og segja þeim eitthvað sem ég vissi. Eftir 6 tíma yfirheyrslur var mér tjáð að ég hefði 48 tíma til að koma mér út úr landinu, annars yrði gefin út handtökuskipun á mig og ég yrði eltur uppi. Ég gerði það sem ég gat til þess að fá lögfræðinga til að hjálpa mér, en allt kom fyrir ekki. Þannig að ég endaði á að þurfa að fara aftur heim til Íslands.”

 

Lexi er trúaður og fer með bænir á hverjum degi og hann segir að annað sem hafi hjálpað sér hafi verið að sjá erfiðleikana sem margt fólk býr við í Nairobi.

„Það gerir mann rosalega auðmjúkan að sjá fólk í alls konar aðstæðum alla daga og það reif í raun allt egó úr mér að vera í Nairobi allan þennan tíma og ferðast um Kenía almennt. Þú sérð fólk sem býr í kofum og er að hlýja sér með varðeldi á kvöldin og á ekki neitt. Ég spurði Guð oft af hverju það væri verið að taka af mér hreyfigetuna og sýna mér hvað ég hefði verið vanþakklátur og ákvað bara að það væri verið að sýna mér eitthvað og kenna mér að vera þakklátur fyrir allt. Ég sagði bara við sjálfan mig að ég ætlaði ekki að kvarta aftur. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að ég hafi gjörbreyst sem manneskja við það sem ég hef farið í gegnum og fólkið í kringum mig hefur látið mig vita það að ég sé orðinn allt annar maður. Eitt af því sem hefur svo gerst í kjölfarið af þessarri vegferð minni er að bólgurnar hafa minnkað og ég hef hægt og rólega verið að finna meiri bata frá mænuskaðanum og er innilega þakklátur fyrir það eins og aðrar blessanir sem koma til mín.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Lexa og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram – „Besti tími ársins“

Vikan á Instagram – „Besti tími ársins“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sænsk hefð vekur athygli og er talin vera góð leið til að fyrirbyggja kulnun

Sænsk hefð vekur athygli og er talin vera góð leið til að fyrirbyggja kulnun
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tvíburarnir fagna fjórtán árum með kærastanum sem þær deila – Bregðast loks við spurningunni sem allir vilja vita

Tvíburarnir fagna fjórtán árum með kærastanum sem þær deila – Bregðast loks við spurningunni sem allir vilja vita
Fókus
Fyrir 4 dögum

Rithöfundurinn Bjarni Bjarnason strauk að heiman í æsku – „Löggan talaði við okkur og gaf okkur snúð“

Rithöfundurinn Bjarni Bjarnason strauk að heiman í æsku – „Löggan talaði við okkur og gaf okkur snúð“