

Athafnamaðurinn þjóðþekkti, Sigmar Vilhjálmsson, Simmi Vill, er á leiðinni í áfengismeðferð. Hann segist hafa undirbúið ákvörðunina í nokkurn tíma og hún sé fyrir löngu tímabær, enda hafi hann notað áfengi sem flóttaleið en ekki sem gleðigjafa.
Sigmar segir í myndbandi sem hann birti á Instagram-síðu sinni:
„Ég er að deila þessu með ykkur hér til að hlífa mínum nánustu frá því að verða upplýsingafulltrúar mínir næstu 6 vikurnar og vonandi að koma í veg fyrir að það komi fram kjaftasögur um mig sem mitt nánasta fólk sér sig knúið til að leiðrétta.
Ég er að fara í meðferð vegna áfengisvanda sem hefur tekið of mikið pláss í lífi mínu og haft neikvæð áhrif á samskipti og ákvarðanir síðastliðin tvö ár. Áfengi er hætt að vera gleðigjafi og ég hef notað það sem flóttaleið í stað þess að nálgast það af gleði og hvað þá hófsemi. Flóttaleiðirnar með áfengi hafa verið margvíslegar og engar af þeim leiðum hafa verið farsælar. Það hefur hvorki verið farsælt né heilsusamlegt, og því er þetta skref bæði rétt og tímabært.
Ég er stoltur af þessari ákvörðun. Hún er tekin fyrir heilsuna mína, mína nánustu og framtíðina. Eina sem ég bið um er virðing fyrir einkalífinu á meðan. Og ég þakka af öllu hjarta fyrir stuðninginn sem mér verður eflaust sýndur.“