fbpx
Mánudagur 24.nóvember 2025
Fókus

Segir að Díana prinsessa hafi verið beitt grófum blekkingum og að viðbrögð BBC hafi leitt til dauða hennar – „Afleiðingarnar voru banvænar“

Fókus
Mánudaginn 24. nóvember 2025 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 5. nóvember árið 1995 voru starfsmenn Díönu prinsessu í Kensington-höll sendir snemma heim. Fámennt tökulið BBC var á svæðinu og voru við það að taka upp viðtal sem síðar setti Bretlandi á hliðina. Viðtalið var leyndarmál á þessum tímapunkti og prinsessan hafði enga starfsmenn hjá sér, ekki einu sinni snyrtifræðing eða stílista. Tökuliðið samanstóð af þremur aðilum sem Díana smyglaði inn í höllina með upptökubúnaðinn vel falinn.

Þetta var ekki að ástæðulausu. Prinsessan vissi að konungsfjölskyldan yrði brjáluð út af viðtalinu en hún ætlaði engu að síður að segja sögu sína á eigin forsendum.

Mörgum árum síðar kom á daginn að viðtalið var afleiðing grófra blekkinga. Árið 2021 hafi dómari komist að þeirri niðurstöðu að blaðamaður BBC, Martin Bashir, notaði fölsuð gögn til að ráðskast með prinsessuna. BBC lagði svo kapp á að leyna því.

People greinir frá. 

Afhjúpar lygarnar og viðbrögðin

Nú er komin út bók eftir rannsóknarblaðamanninn Andy Webb þar sem hann fjallar um blekkingarvefinn í kringum viðtalið fræga þar sem Díana lýsti því yfir að það væru þrír aðilar í hjónabandi hennar: hún, Karl þáverandi Bretaprins og Camilla núverandi Bretadrottning.

Webb greinir frá því að Bashir hafi fyrir það fyrsta platað bróður Díönu, Charles Spencer, og notað hann til að komast í samband við prinsessuna. Blekkingin fólst í því að sýna falsað skjal sem átti að sanna að starfsmenn hallarinnar væru að njósna um Díönu og dreifa sögusögnum á borð við að Karl vildi hana feiga.

Díana trúði Bashir og líf hennar losnaði úr viðjum. Hún varð tortryggin og skelfingu lostin. Hún hafði enda enga ástæðu til að vantreysta blaðamanninum. Hann starfaði fyrir einn virtasta fjölmiðil í heimi og Díana var nú þegar orðin tortyggin í garð konungsfjölskyldunnar og óttaðist að verið væri að njósna um hana.

Bashir laug svo að prinsessunni að barnfóstra sonar hennar, Tiggy Legge-Bourke, væri að halda við eiginmann hennar, Karl Bretaprins. Þetta „sannaði“ hann með að framvísa skjali um að Legge-Bourke hefði farið í þungunarrof sem Karl borgaði fyrir. Þetta skjal var líka falsað. Díana trúði þessu og samþykkti viðtalið.

Díana talaði í viðtalinu opinskátt um hjónaband sitt og samband Karls og Camillu. Hún staðfesti eins að hafa sjálf átt sér ástmann, James Hewitt.

Bretland fór á hliðina og tæpum mánuði eftir að það fór í loftið skipaði Elísabet Bretadrottning syni sínum að skilja við Díönu.

Webb segir að stjórnendur BBC hafi áttað sig á því að maðkur væri í mysunni hvað viðtalið varðaði. Grafískur hönnuður sagði stjórnendum síðla árs 1995 að skjölin sem Bashir sýndi væru fölsuð. Þegar gengið var á Bashir gekkst hann við fölsuninni. Hann reyndi þó að þræta fyrir að hafa sýnt prinsessunni skjölin, hann neitaði þar til það varð honum ómögulegt. Í stað þess að greina frá þessu opinberlega ákvað BBC að rannsaka málið innanhúss. Niðurstaðan var að Bashir hefði ekki brotið af sér og öll gögn málsins voru svo rækilega falin.

„Stjórnendur BBC vissu nóg til að getað varað Díönu við að hún hefði átt í samskiptum við svikara. Líf hennar hefði tekið aðra stefnu hefði hún verið vöruð við. Þá væri hún mögulega enn á lífi í dag – orðin 64 ára amma að njóta lífsins með barnabörnunum. Afleiðingarnar voru banvænar,“ skrifar Webb.

Fjölskylda Díönu á sama máli

Bróðir Díönu segir í samtali við People að hann taki undir þetta með Webb. Ákvörðun BBC að hylma yfir lygar Bashir hafi orðið til þess að Díana var berskjölduð í París kvöldið sem hún lést. Hún trúði þá nefnilega enn öllu því sem Bashir hafði logið að henni. Hún vantreysti því öllu starfsliði hallarinnar og hafði afþakkað konunglega öryggisgæslu. Þess í stað treysti hún á öryggisverði á vegum þáverandi kærasta síns, Dodi Fayed, en þeirri gæslu var sorglega ábótavant. Eins hafði hún losað sig við konunglega ráðgjafa sína. Þar með endaði hún án ráðgjafa og án fullnægjandi öryggisráðstafana í París þar sem hún lést í bílslysi á flótta undan ágengum paparassa-ljósmyndurum.

Vilhjálmur Bretaprins hefur deilt sambærilegum hugleiðingum.

„Það sem hryggir mig mest er að ef BBC hefði rannsakað ávirðingarnar með fullnægjandi hætti þegar þær komu fyrst fram árið 1995 þá hefði móðir mín vitað að hún var blekkt. Það var ekki bara afvegaleiddur blaðamaður sem brást móður minni heldur líka stjórnendur BBC sem litu undan í stað þess að spyrja erfiðu spurninganna. Þessi vanræksla brást ekki bara móður minni og fjölskyldu minni heldur almenningi líka.“

Díana trúði enn Bashir þegar hún lést. Hún fékk aldrei að vita sannleikann um blekkingarnar sem hún var beitt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Linda man eftir að hafa horft í kringum sig á aðfangadag og hugsað: „Eru þetta síðustu jólin mín?“

Linda man eftir að hafa horft í kringum sig á aðfangadag og hugsað: „Eru þetta síðustu jólin mín?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tjáir sig um orðróminn um að O.J. Simpson sé faðir hennar

Tjáir sig um orðróminn um að O.J. Simpson sé faðir hennar