Ný stytta af „rokkömmunni“ Tinu Turner í Tennessee er sögð vera skelfilega illa heppnuð. Hefur hún verið sögð líta meira út eins og McDonalds trúðurinn með hárkollu.
Breska blaðið Metro greinir frá þessu.
Tina Turner lést 83 ár að aldri í maí árið 2023, eftir rúmlega sex áratuga farsælan tónlistarferil. Óhætt er að segja að hún sé sú langfrægasta sem komið hefur frá smábænum Brownsville í Tennessee, eða reyndar hinu aðlæga þorpi Nutbush sem Tina söng um í laginu Nutbush City Limits.
Vildu því bæjaryfirvöld í Brownsville sína henni virðingu og reisa styttu. En það tókst ekki betur til en svo að styttan þykir hlægilega ljót og illa heppnuð.
Styttan er rúmlega þriggja metra há bronsstytta og var nýlega afhjúpuð nálægt menntaskóla bæjarins. Var hún hönnuð af myndhöggvaranum Fred Ajanogha og sýnir Tinu í miklum tónleikaham, líklega um miðjan níunda áratuginn þegar frægð hennar var sem mest.
„Við erum stolt af því að styðja við þessa styttu í samfélaginu þar sem ferðalag Tinu Turner hófst,“ sagði Gabby Bruno, samskiptastjóri bílaframleiðandans Ford sem styrkti verkefnið um 150 þúsund dollara, eða rúmar 18 milljónir króna, við afhjúpun styttunnar.
En þegar dúkurinn var fjarlægður af styttunni þá byrjuðu margir að flissa. Og ekki leið á löngu áður en nettröllin gerðu sér mat úr hinni herfilega misheppnuðu styttu.
„Er Tina Turner í herberginu með okkur?“ spurði einn hræddur netverji. Annar sagði að styttan liti frekar út eins og Ronald McDonald með hárkollu en rokkamman.
„Ódauðleg list gerir mann orðlausan. Líka viðurstyggð eins og þetta,“ sagði sá þriðji.
Hefur styttunni verið líkt við alræmdar styttur á borð við Cristiano Ronaldo styttuna í Lissabon og Mo Salah styttuna í Liverpool.