Umrædd mynd, eða jarm (e. meme), hefur farið eins og eldur í sinu um netið síðan það birtist fyrst árið 2017, en það sýnir ungan mann blikka augunum í einhvers konar vantrú.
Maðurinn á jarminu heitir Drew Scanlon og er búsettur í San Francisco í Bandaríkjunum. Hann er í dag 39 ára og hann hefur nú stigið fram í þeirri von að nota jarmið til að vekja athygli á góðum málstað.
Hann skrifaði færslu á X um helgina þar sem hann hvatti fólk til að styrka bandarísku MS-samtökin. Færslan vakti mikla athygli og fékk yfir 400 þúsund læk.
„Hæ internet! Ég heiti Drew og ÞETTA ER ANDLITIÐ MITT,“ skrifaði hann við hlið hinnar goðsagnakenndu klippu.
„Ef þetta GIF hefur nokkurn tíma fært þér gleði, bið ég þig auðmjúklega að íhuga að styrkja National MS Society. Það myndi þýða mikið fyrir mig og þá sem ég þekki sem þjást af sjúkdómnum,“ sagði hann en tveir góðir vinir hans eru með MS.
Drew segist aldrei hafa sóst eftir því að græða á jarminu, enda hafi hann ekki átt hugmyndina að því þó andlit hans hafi verið notað. Óhætt er að segja að söfnun hans hafi gengið vel og hafa fleiri milljónir króna safnast á nokkrum dögum.
Scanlon, sem starfaði sem vídeóklippari hjá Giant Bomb, segir að jarmið eigi rætur sínar að rekja til ársins 2013 þegar verið var að taka upp þáttinn Unprofessional Fridays. Um var að ræða þátt um tölvuleiki og gaf Drew hið goðsagnakennda augnaráð þegar félagi hans sagði eitthvað sem honum þótti óviðeigandi. Viðbrögðin hefðu verið alveg náttúruleg.
Drew hefur á undanförnum árum starfað hjá tölvuframleiðslufyrirtækjum og þá heldur hann úti tveimur hlaðvörpum, annars vegar um kvikmyndir og hins vegar um Formúlu 1.